07.09.1918
Efri deild: 4. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í B-deild Alþingistíðinda. (65)

1. mál, dansk-íslensk sambandslög

Magnús Kristjánsson:

Jeg er á gagnstæðri skoðun og hv. 2. þm. G.-K. (K. D.). Jeg álít það mjög vel viðeigandi, að þingið ljúki málinu nú þegar. Það sýndi enn glöggar eindreginn vilja þingsins, og jeg skil ekki annað en að allar frekari ræður um málið sjeu með öllu þýðingarlausar, eða hjegóminn einber, því að hv. þingmenn munu allir ákveðnir í málinu.

Þegar svo þess er gætt, að flestir hv. þm. vilja eigi sitja lengur en þeir þurfa á þingi, þeir þurfa að komast heim til búa sinna, þá er eigi rjett að láta þingið eiga setu lengur en nauðsyn krefur. Og nú hagar svo til, að 2 skip liggja ferðbúin hjer á höfninni, og er því gott fyrir háttv. þm. að komast heim með þeim, en það er dýr hver dagurinn, sem skipin eru látin bíða, og ekki rjett að gera frekar að því en brýn nauðsyn krefur. Jeg vil því spyrja báða háttv. frsm., hvað þeir segi um þetta, og ef þeir ekki beinlínis mótmæla afbrigðunum, tel jeg rjett og skylt að veita þau.