09.09.1918
Efri deild: 5. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í B-deild Alþingistíðinda. (73)

1. mál, dansk-íslensk sambandslög

Frsm. meiri hl. (Jóhannes Jóhannesson):

Háttv. frsm. minni hl. (M. T.) kvað skilnaðargrýluna, sem hann svo nefndi, standa að óþörfu í nál. okkar. Hann virtist líta svo á, að þótt samningarnir hefðu ekki tekist, þá hefði það ekki þurft að leiða til skilnaðar. En jeg lít öðruvísi á.

Við gátum ekki dregið okkur til baka úr því, sem komið var. Hefðum við ekki fengið siglingafánann, urðum við að semja lög um hann og láta slag standa.

Hefði þeim lögum verið synjað staðfestingar, hlaut það að leiða til skilnaðar.

Háttv. þm. (M. T ) sagði, að Danir mundu ekki hafa getað neitað um fánann eftir viðurkenningu þá, er í samningunum felst.

En jeg vil benda á, að slíkt hið sama var viðurkent í frv. 1908, og gátu þeir þó neitað 1917.

Að 6. gr. skal jeg ekki eyða fleiri orðum; það atriði er þegar orðið svo þaulrætt. En háttv. þm. (M. T.) er enn þá búinn að finna nýtt heiti á fæðingjarjettinum. Fyrst nefndi hann hann sameiginlegan, þá »uniform« og nú síðast þriðja heitinu, samlaga. En alt er jafnskakt, þar sem sjerstakur ríkisborgararjettur er, bæði danskur og íslenskur.

Þá sagði háttv. þm. (M. T.), að við yrðum að gæta þess að spilla ekki aðstöðu okkar við Dani, með lántökum eða öðrum bindandi ákvæðum.

En jeg vil benda honum á það, að lánin verður að taka þar, sem þau fást. Um annað er ekki að tala.

Þá lýsti háttv. þm. (M. T.) yfir því, að hann mundi ganga að samningunum þegar fullnægjandi yfirlýsing væri fengin frá, dönsku samningamönnunum um það, að skilningur okkar á 6. gr. væri rjettur.

En nú höfum við einmitt þá yfirlýsingu frá einum þeirra í danskri blaðagrein, sem þýdd er í Morgunblaðinu í dag, og vil jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp nokkrar línur úr þeirri grein. Þar segir svo:

»Með því skuldbinda Íslendingar sig til þess að afnema það ákvæði, er þeir settu 1915 um það, að Danir þyrftu að hafa verið 5 ár á Íslandi áður en þeir fengju þar atkvæðisrjett«.

Ef sá, er þetta ritar, hefði sama skilning og háttv. þm. Ísaf. (M. T.), þá hefði það auðvitað verið tekið fram, að Íslendingar hefðu skuldbundið sig til að nema fleira úr lögum, t. d. fossalögin o. fl.

Jeg sje því ekki betur en þessi yfirlýsing nægi.

En hitt, hvers vegna breyta þarf atriði þessu í stjórnarskránni, skýrði jeg í fyrradag og skal því ekki fara nú að endurtaka það.