02.09.1918
Neðri deild: 2. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í B-deild Alþingistíðinda. (8)

1. mál, dansk-íslensk sambandslög

Benedikt Sveinsson:

Mjer þótti leitt að valda hæstv. forsætisráðherra vonbrigðum, en það ljet hann á sjer skilja í upphafi ræðu sinnar, er hann kvaðst hafa vænst eftir rökum fleiri og veigameiri af minni hendi. Jeg skal játa, að þetta mál er svo mikilvægt, að mig hefir sjálfsagt brostið mælsku, kraft og röksemdir til þess, að málinu væri að fullu samboðið og jeg hefði feginn óskað. En hins vegar veit jeg ekki, hversu mikið mark jeg á að taka á þessum orðum hæstv. forsætisráherra. Jeg veit, að hann er ekki allur þar sem hann er sjeður, og kann ef til vill að haga sjer samkvæmt hinum alkunnu orðum stjórnmálamannsins franska: »Málið er gefið mönnunum til að dylja hugsanir sínar, en ekki til þess að birta þær«. Það getur því vel verið, að hæstv. forsætisráherra hafi þótt nóg um röksemdir í mínu máli, en hafi ekki verið við því búinn að svara og hnekkja þeim, og því skotið fyrir sig skildi þessum, er hann var í vandræðum, svo að minna bæri á því, að röksemdirnar voru eigi svo mjög ríkar eða sannfærandi í andavari hans.

Verð jeg nú að víkja nokkrum orðum að ræðum þessara þriggja háttv. þm., er allir lögðust á eina sveif að verja gerðir sínar. Hefði nú verið skipulegast að draga saman ræður þeirra og taka hvert atriði fyrir sig og svara þessum þrem mönnum öllum í senn. En jeg man ekki svo gerla öll rök þeirra, og verð því að ganga á röðina, eftir því sem jeg hefi skrifað jafnharðan orð þeirra mjer til minnis. Getur þá verið, að jeg segi oftar en einu sinni það sama, og mál mitt verði því óskipulegra en ella.

Hæstv. forsætisráðherra vildi gera svo mikið úr kostum þessa frv. í heild, að ekki þyrfti að kosta löngum tíma til að átta sig á því. Jeg held, að nákvæmlega þetta sama hafi hann sagt 1905, er hann talaði um sambandsmálið og skrifaði um það í Lögrjettu í þá daga. En nú virtist svo, sem hann hafi sjeð eftir á, að ekki var alt eins gott þar og honum sýndist þá. Hann hefir sjálfsagt álitið þá, að þjóðin gæti gengið mjög fljótt til atkvæða um það ágæta frv. En eins og jeg tók fram áður, fór svo, góðu heilli, að þjóðin fjekk nógu langan tíma til að átta sig á því frv. og dauðadæma það. Hefi jeg góða von um, að eins muni fara um þetta mál, ef ekki væri hrapað að því. Hins vegar er langt frá því, að jeg álíti tímann nógu langan, því að jeg þykist vita, að fylgi frv. minkaði því meir, sem menn athuguðu það betur, svo sem fór 1908. Í stað þess, sem Lögrjetta og þau góðu blöð, er henni fylgdu, ljetu þá klingja þessi orð: »Frumvarpinu vex fylgi!«, þá fór svo, að fylgi frv. þvarr, eftir því sem menn athuguðu það betur.

Það, sem jeg lagði höfuðahersluna á, er jeg taldi upp misbresti frv. þess, er hjer liggur fyrir, var það, að þrátt fyrir þau ótvíræðu orð frv., »frjálst og fullvalda ríki«, þá er frv. að öðru leyti sá gallagripur, að það eyðileggur það, sem ætti að felast í þessum orðum. Jafnvel fullvalda ríki getur gert mjög skaðlegan samning við annað ríki eða þjóð, sem stendur betur að vígi í baráttunni, — svo mjög hættulegan, að af geti leitt tortíming þjóðernisins.

Þrátt fyrir það, þótt forvígismenn þessa máls og fullveldisnefnd hafi viljað ganga svo frá, að Ísland hefði sín ótvíræðu ríkiseinkenni samkvæmt þessum sambandslögum, þá hafa þeir á hinn bóginn ekki getað fengið því framgengt, sem er höfuðatriðið, að svo væri búið um rjett íslensku þjóðarinnar á Íslandi, að hún stæði betur að vígi hjer í landinu en nokkur erlend þjóð. En á þessu hefir orðið hinn hrapalegasti misbrestur, þar sem útlendri þjóð er veitt óskorað og undantekningarlaust jafnrjetti við Íslendinga, með miklu frekari skildögum en áður hefir átt sjer stað.

Jeg gat þess áður, hvað fælist í kjörorðinu »Ísland fyrir Íslendinga«, sem sjálfstæðisflokkurinn, ungmennafjelag Íslands og margir góðir Íslendingar aðrir hafa haldið fram sem stefnuskrá. Jeg sýndi og, að mergurinn væri úr því dreginn með frv. þessu. Háttv. þm. Dala. (B. J.) vildi neita því, og mun jeg víkja að því síðar. En hæstv. forsætisráðherra leyfð sjer hjer að viðhafa útúrsnúning, sem tæpast sæmir manni í hans stöðu, þar sem hann sagði, að það væri tæplega meiningin, að Íslendingar bönnuðu öllum annara þjóða mönnum að setjast hjer að, og vildi gefa í skyn, að sá væri reyndar ætlun mín með kjörorði þessu. Þetta eru undanbrögð ein og blekkingar. Jeg hefi alla ekki talað um, að bægja bæri einstökum mönnum útlendum, hvort sem það eru Danir, Norðmenn eða Englendingar, frá því að flytjast hingað og geta sjer borgararjett með vissum skilyrðum. Það geta Íslendingar ætíð leyft einstökum mönnum, sem aðrar þjóðir. En hitt er hjer um að ræða, hvort Íslendingar eini að taka við þjóð, sem þeir hafa nú glímt við mörgum öldum saman, og gefa henni öll rjettindi til jafns við innlendamenn, hvort skýlaust skuli ákveða, »að öll ríkisborgararjettindi sjeu algerlega gagnkvæm, án nokkurs fyrirvara eða afdráttar«. Svo ríkt er að gengið, að í athugasemdunum við frv. stendur: »Af þessari gagnkvæmni leiðir, að afnema verður allar þær takmarkanir, sem nú eiga sjer stað á fullu, gagnkvæmu jafnrjetti (svo sem mismun þann á kosningarrjetti, sem kemur fram í 10. gr. stjórnarskipunarlaga Íslands frá, 19. júní 1915)«.

Þessi orð eru besti votturinn um það, að slíkt jafnrjetti hefir ekki verið skilyrðislaust áður milli Dana og Íslendinga, þrátt fyrir slaka stjórn og andvaralaust þing. Nú á að afnema allar takmarkanir. Nú á að plokka alt í burtu, sem sett hefir verið í lög til þess að styrkja stefnuna: »Ísland fyrir Íslendinga«. (B. J.: Eru það ekki Danir, sem segja það í athugasemdunum?). Það eru bæði Danir og Íslendingar. Allir nefndarmennirnir hafa orðið á þetta sáttir.

Það hefði verið æskilegt, að hv. þm. Dala. (B. J.) hefði samið skrá yfir öll þau atriði í sjermálalöggjöf vorri, sem plokka þyrfti burt, til þess að framfylgja tilætlun frumvarpsins í þessu efni. Þá hefði þingið ekki gengið blindandi að. Hverjum dettur í hug, að látið verði við það sitja að breyta þessu eina atriði í stjórnarskránni, sem nefnt er einungis sem dæmi. Það þykir lítið að halda því fram, að þessi ríki áskilnaður Dana hafi verið tekinn upp í athugasemdirnar að eins til þess að þóknast þeim, en svo geti Íslendingar farið með þetta sem hverja aðra markleysu á eftir og gengið frá því, sem mest áhersla var lögð á og var mergurinn málsins.

Það væri vandalítið að semja áferðarfagra samninga, ef ekki fylgir meiri hugur máli en að alt eigi að toga og teygja eftir á, þvert á móti því, sem um var samið, og halda það eitt, er hvorum aðiljanum líkar. Mjer sýnist, að sambandslög þessi verði engu aðgengilegri, þótt þau væri samin með slíkum »bróðurhuga« af beggja hálfu, því að vera mætti, að Danir hefðu ekki minni orku en Íslendingar til að ganga á samningana, ef í þá sálma skyldi farið.

Þungamiðjan í hagsmunabaráttu vorri er, að Ísland sje fyrir Íslendinga, en það er útilokað hjer, þar sem ákveðið er, að Ísland sje fyrir Dani og Íslendinga. Hv. þm. Dala. (B. J.) sagði, að Dönum væru ekki ætluð hjer nein forrjettindi fram yfir Íslendinga; þeir ættu að hafa »að eins jafnrjetti«. — Ja, svo er það á pappírnum. En verður það eins í framkvæmdinni, þar sem önnur þjóðin er margfalt fjölmennari og auðugri, en býr í litlu og alræktuðu landi, en hin hefir yfir að ráða miklum auðæfum í landi sínu, þótt hún standi ver að vígi að hagnýta sjer þau í bili, sakir fátæktar og mannfæðar? Er ekki auðsjeð, að hagsmunirnir af jafnrjetti þegnanna eru allir þeirrar þjóðarinnar megin, sem ekkert hefir af ónotuðum auðlindum að bjóða, en hefir gnægð fjár til þess að njóta auðlinda hinnar þjóðarinnar? Þetta hafa allir skilið til þessa dags.

Mjer hefir nú þótt gott að heyra þann harða hug, er fram kemur hjá andmælendum mínum, og hve harðlega þeir ætla að halda á rjetti Íslands síðar meir. En á gerðan samning er eigi heiðarlegt að ganga, meðan hann er í gildi, og því þarf að gera hjer bragarbót og breyta samningnum nú þegar, að því er til þegnajafnrjettis kemur.

En því er miður, að allar horfur eru á því, að íslenska þingið verði ekki harðara í horn að taka hjer eftir, enda er svo frá gengið, að sett er upp nefnd við nefnd með þessum nýju lögum til þess að hamla þjóðlegum þroska í löggjöf Íslendinga. Þennan starfa á »lögjöfnunarnefndin« að hafa á hendi.

Hæstv. forsætisráðherra sagði reyndar, að nefndin mætti eins vel leggja til, að farið væri að dæmum Íslendinga í danskri löggjöf, svo að hjer væri um fult jafnrjetti að gera, og í annan stað væri ekkert athugavert við það, þótt lög einnar þjóðar væru sniðin eftir annarar. En við þetta er fyrst og fremst það að athuga, að Íslendingar hafa enga hvöt til þess að hlutast til um löggjöf Dana, og nefndin frá því sjónarmiði alls ekki æskileg, enda vitum vjer það allir ofurvel, að þessi nefndarskipun er runnin undan rifjum dönsku sendimannanna og með það markmið að láta lagasmíð Íslendinga »dependera af þeim dönsku«.

Hjer er því um meira að gera en það, að hvor þjóðin megi hafa til hliðsjónar hinnar löggjöf. Um slíkt þyrfti engin lagafyrirmæli, því að allar þjóðir mega nota þá sem þær vilja úr lagasmíð allra annara þjóða. Hjer er alt annað á seyði. Það er gamla keppikeflið, sem þeir drotnendur hafa löngum haft fyr og síðar, er þeir hafa viljað leggja undir sig og sína höfuðþjóð aðrar minni þjóðir eða lendur, að vinna þá að því að koma sem mest á einum lögum í öllum þeim löndum, eða fá smærri þjóðina til að gangast undir lög heimaþjóðarinnar.

Vjer Íslendingar þekkjum þessa »lögjöfnunar«-aðferð úr vorri eiginni sögu frá fyrri og síðari tímum. Þegar Ólafur Haraldsson digri leitaðist fyrir að ná Íslandi, vildi hann tryggja vald sitt með því að koma hjer á norskum lögum. Hið sama varð uppi á teningnum þegar landið komst undir konung 1262, því að innan 10 ára var send hingað lögbók og komið á norskum lögum.

Allir þekkjum vjer kappsmuni dönsku stjórnarinnar að koma hjer á dönskum lögum og lagavenjum. Ríkisráð Dana hefir og ósleitilega starfað í sömu átt í afskiftum sínum af Íslandsmálum. En aldrei hefir þó verið gengið fram öllu berlegar í þessu efni heldur en nú, þar sem Íslendingum er skipuð þessi nefnd í þessum ákveðna tilgangi, — nefnd, sem ógrímuklætt á að vinna að því að koma hjer á dönskum lögum og gæta hins velfengna rjettar samþegnanna í líf og blóð kostuð til þess af Íslandi sjálfu að hálfu leyti.

Hjer hafa sendimennirnir komið ár sinni mjög sniðuglega fyrir borð. Úti um allan heim hefir verið búist við því, að Ísland losnaði nú að fullu og öllu úr tengslum við Danmörku. Hefir þetta verið sagt fullum fetum í blöðum í Vesturheimi, og ekki þótt nema sjálfsagt. Á Norðurlöndum hefir og verið búist við þessu hálft um hálft, og danskir stjórnmálamenn eru alveg horfnir frá því að byggja nokkuð á »stöðulögunum« lengur. Íslendingar afsögðu þau formlega á Alþingi 1871 og 1911 og hafa aldrei við þau kannast, og hefir jafnvel Kn. Berlin orðið að kannast við, að það væri leiður ljóður á, »stöðulögunum«, að Íslendingar hefðu aldrei fengist til að fallast á gildi þeirra. En þrátt fyrir alla þessa gerbreytingu á viðurkenningu heimsins fyrir rjetti Íslands, þá hafa nú Danir getað leikið sjer að því að tryggja vald sitt og hagsmuni með »nýrri aðferð« enn þá, betur en nokkru sinni áður.

Hæstv. forsætisráðherra drap á það í sambandi við »mentasjóðina«, að forrjettindi íslenskra stúdenta við Hafnarháskólann væru ill fyrir háskólann hjer, af því að þau drægu námsmenn um of hjeðan til Khafnar. — Jeg hygg líka, að ekki væri eftirsjá í, þótt þau forrjettindi fjellu niður, en nú er langt frá, að svo sje, þar sem stofna skal í Khöfn nýjan mentasjóð, einmitt til þess að hvetja Íslendinga til að sækja þangað, ekki síður en hingað til. Og aðalmarkmið sjóðanna tveggja er að glæða og efla andlegt samband Danmerkur og Íslands.

Jeg býst því við, að Hafnarháskólinn verði eigi síður hættulegur keppinautur íslenska háskólans eftir en áður, þegar þessi nýji sjóður bætist við »jafnrjetti« íslenskra stúdenta þar syðra.

Hæstv. forsætisráðherra sagði svo í öðru orðinu, að enginn mundi óánægður með þetta nýja skipulag. En jeg hygg, að hann kunni ekki að lesa svo í hug manna, að hann geti um það sagt með neinni vissu.

Að minsta kosti hefi jeg hitt marga hjer, sem hafa sagt, að síst mætti gera nokkuð til þess að veikja íslenskt mentalíf hjer heima, með því að draga það með fjármagni til Danmerkur, og ætti frekar að banna Dönum að stofna sjóð í þeim tilgangi. Þetta segi jeg sem dæmi um skaplyndi manna, en geri það ekki að mínum eigin orðum, enda getum vjer auðvitað ekki bannað Dönum slíkt.

En það þykist jeg sjá mega, að tilgangurinn með sjóðstofnun þessari sje sá, að uppræta hjer sjálfstæðishug Íslendinga, eða »einræningsandann« svo nefnda, sem Norðmönnum var einnig álasað fyrir meðan þeir áttu í brösum við Svía um sjálfstæði sitt, en honum áttu þeir það að þakka, að þeir náðu fullu frelsi sínu að lokum.

Hæstv. forsætisráðh. sagði, að skorður þær, sem settar eru við sambandsslitum, væru ekki meiri en rjettmætt væri. Jeg held þó, að óhætt væri að treysta því, að einfaldur meiri hluti þings og þjóðar gæti sjeð heill og hagsmunum landsins fulltryggilega borgið í þessu efni.

En nú er svo komið að Danir hælast um yfir því, hversu erfitt sje fyrir Íslendinga að fá skilnað.

Háttv. 2. þm. Arn. (E. A.) taldi það ekki nema rjettmætt, að 2/8 sameinaðs þings þyrfti til þess að uppsögn væri gild, þar sem slíkt hið sama væri áskilið um öll önnur lög. Þessi umsögn hans er að vísu rjett þegar svo stendur á, að lagafrumvörp þurfa að koma í sameinað þing, en að öðru leyti eru þau villandi, því að það er kunnugt, að allur þorri laga gengur fram án þess að þurfa að koma í sameinað þing, og þarf þá ekki nema einfaldan meiri hluta til þess að lögum verði framgengt. Hjer er því mun ríkara áskilið um fylgi þingmanna heldur en viðgengst um flest önnur lög. — En þó eru skilyrðin um almennu atkvæðagreiðsluna langtum þrengri og óviðráðanlegri.

Hæstv. forsætisráðherra vildi halda því fram, viðvíkjandi alþjóðaratkvæðagreiðslu um samningsslit, að þótt kosningar sjeu illa sóttar að jafnaði, þá mundi slík atkvæðagreiðsla verða vel sótt. Um það er þó erfitt að spá, og hitt þykir mjer miklu líklegra, að þegar stórmal eru samfara þingkosningum, þá sje sterkari aldan, semi knýr menn til kosninga, heldur en við blábera atkvgr. sem þessa.

Ekki fór jeg heldur rangt með, er jeg taldi það því nær mundu einsdæmi, að kosningar væru svo vel sóttar, sem hjer er heimtað, því að hv. 2. þm. Árn. (E. A.), sem er fróður í stjórnmálasögu seinni tíma, gat ekki tilnefnt nema tvö dæmi þess, og voru þá hin mestu kappsmál uppi, yfirreiðar miklar og smölun bæði vegna sambandsmálsins og kosninga 1908 og stjórnmálabrösur í algleymingi 1911.

Það tel jeg varúðarvert, að greidd verði atkvæðin á hverju heimili, eins og andmælendur mínir halda fram að megi, til þess að ná nægri atkvæðatölu. Jeg dreg það í efa, að holt væri að hafa atkvæðagreiðsluna svo ófrjálslega, að staðið væri yfir hverjum kjósanda meðan hann greiðir atkvæði sitt. Og betur tryði jeg kjósendum til að fara með atkvæði sitt á þingstaðnum heldur en undir handarjaðri stjórnarsmalanna, í einhverri myrkvastofu heima á bæjum.

Hæstv. forsætisráðherra hjelt því fram, að enginn gæti hafnað samningnum, nema með því móti að heimta skilnað. Það er nú ekki nýtt, að þeirri skilnaðargrýlu sje otað fram þegar eitthvað er í boði frá Dönum, sem Íslendingum geðjast ekki að.

Danskir stjórnmálamenn hafa hvað eftir annað getið þess síðustu árin, að Íslendingar hafi nú tekið upp þá aðferð, að ná einu og einu atriði af rjéttarkröfum sínum í senn, og talið þessa aðferð þeirra hættulega Dönum. — Er það og rjett, að þessi aðferð mátti verða mjög sigursæl. Var nú svo komið, að fánamálið var á góðum vegi að fast fram, er frá því var horfið, illu heilli, og tekið til við samningamakkið, einmitt þá aðferðina, sem haldið hefir verið fram af þeim, er hamla vildu sjálfstæðisframsókn Íslendinga.

Það var eðlilegt, að danskir stjórnmálamenn sæju, hver aðferðin þeim var öruggust. Þeir vita jafnvel og vjer, að Íslendingar hafa alt af skaðast á samningum við erlendar þjóðir um rjettindi sín, en grætt á að neita. Svo var á þjóðfundinum 1851, sömuleiðis 1870 og 1908 og 1912, og svo mundi fara enn, ef hlýtt væri boði tímana og beðið. — Aftur hafa Íslendingar skaðast á samningafýsinni, t. d. 1262, 1660, 1903 o. s. frv.

Jeg man ekki heldur betur en Norðmenn og Svíar hefðu oft reynt að ná samkomulagi með samningum þau 90 ár, sem löndin voru síðast í sambandi, en altaf strandað, og munu allir Norðmenn að minsta kosti segja það góðu heilli, og þá fyrst kom bróðurhugurinn milli frændþjóðanna, er fullur skilnaður varð með þeim. Þá fjekst lækning meinanna, einmitt af því að Norðmenn höfðu verið nógu stórhuga til að neita, þótt einhver dýrkeypt eða vafasöm ívilnun væri í boði.

Þá kem jeg að ræðu háttv. þm. Dala. (B. J.), og er það óvanalegt, að jeg þurfi að eiga í höggi við hann um þessi mál. — Mjer hafa aldrei þótt jafnveilar röksemdir hans sem nú í þessu máli. Skal jeg játa, að það kynni að einhverju leyti að stafa af því, að jeg væri nú glöggari á galla á röksemdum hans en venjulega, þar sem það er kunnugt, að menn finna jafnan betur það, sem áfátt er í rökum andstæðinga sinna, heldur en þeirra samherja. En þó hygg jeg, að meira valdi hjer um hinn laki málstaður, sem hann hefir nú, og ekki verður varinn með neinum rjettum rökum.

Hann kvað hjer alt fengið, sem Íslendingar hafa krafist; jafnvel þeir, sem óskað hafa eftir skilnaði, mundu láta sjer nægja »fullveldi«.

En það er einmitt kjarni málsins, að »fullveldi« er ekki nóg á pappírnum eingöngu. Ef ekki er tryggilega um það búið, að Ísland sje fyrir Íslendinga, þá er horfið frá aðalkjarnanum í rjéttindakröfum þeirra. Ef Ísland er bundið Dönum með óhagstæðum samningum, þótt fullvalda eigi að heita í orði, þá er hvergi nærri fullnægt kröfum sjálfstæðismanna.

Það heyrist nú klingja við, að úr því að Íslendingar hafi gengið til samninga við Dani, þá sje sjálfsagt að ganga að þessum samningum, því að ekki hafi verið við betra að búast.

En þessu vil jeg algerlega mótmæla. Engin skylda ber til þess að ganga að hvaða samningi sem er, þótt Íslendingar hafi ekki neitað að ræða samninga við Dani um hreint konungssamband, ef því væri að skifta.

Í þessu sambandi vil jeg leyfa mjer að lesa upp yfirlýsingu, sem samþykt var á flokksfundi sjálfstæðismana 22. apríl 1918, og ráðherra flokksins (S. E.) var falið að afhenda forsætisráðherranum:

»Komi sendimaður frá konungi og hafi ótakmarkaa umboð, þá er flokkurinn fús að semja við hann um hreint konungssamband milli Danmerkur og Islands«.

Þetta er alt, sem sjálfstæðisflokkurinn hefir undirgengist að ganga til samninga við Dani um, og annað ekki. Hann er því laus allra mála. Nú er ekkert hreint konungssamband í boði, þar sem mörg mál eru sameiginleg auk konungsins, og því sjónhverfing ein að flagga með þessu sem »personalunion«.

Þá vil jeg leyfa mjer að lesa aðra ályktun, sem gerð var á fundi sjálfstæðflokksins 18. júní síðastliðinn, út af væntanlegum störfum samninganefndarinnar.

Er ályktun sú á þessa leið:

»Fundurinn skorar á, fulltrúa sína í fullveldisnefnd að halda fast á framkvæmd ályktunar þeirrar, sem fullveldisnefnd gerði laugardagskveld hinn 15. þ. m., um að bera undir atkvæði í sameinuðu þingi þau tvö atriði, að eigi skyldi samninga gera við Dani, nema þeir viðurkendu fullveldi vort í konungssambandi við sig, og að sáttmála þar um skyldi halda utan við aðra samninga, er gerðir kunna að verða«.

Af þessu má sjá, hver skilyrði sjálfstæðisflokksins voru, sem þingmenn fjellust þá á, og að hvorugu þessu skilyrði hefir fengist fullnægt. Með síðara skilyrðinu er áskilið, að sambandssáttmálanum skyldi algerlega haldið utan við aðra samninga, er gerðir kynnu að verða milli Danmerkur og Íslands. Á þetta var lögð hin mesta áhersla, ekki síður af hv. þm. Dala. (B. J.) en öðrum. En nú hefir hann horfið frá þessu. (B. J.: Þetta er ekki haft rjett eftir mjer). Jeg hefi það skrifað hjerna eftir fundarbókinni, og þingmaðurinn getur borið það saman. (B. J.: Þetta er ekki rjett skilið). Skilyrðin eru svo ljós og skýr, að ekki verður vilst á þeim.

Hv. þm. Dala. (B. J.) gat þess í ræðu sinni, að fánakrafan hefði verið fullveldiskrafa, að Ísland hefði altaf verið fullvalda ríki, og hefðu Danir nú verið neyddir til að láta undan kröfum vorum. Enn gat hann þess, að Franz von Liszt hafi skrifað Ragnari Lundborg út af síðustu bók hans, og verið honum alveg samdóma um, að Ísland væri að lögum fullvalda ríki. Er þetta alt hárrjett og sannar það, að Íslendingar þurfa ekki að kaupa dýrum dómum viðurkenningu um fullveldi sitt af Dönum. Danir eru, samkvæmt allri afstöðu sinni og ríkjandi meginstefnu nútímans, hreint og beint neyddir til að viðurkenna það. Er mjer það óskiljanlegt af öðrum eins þjóðskörung og hv. þm. Dala. (B. J.) hefir verið, að hann skuli nú vera að tala um, að það þurfi að versla við Dani um ríkisrjettindi vor. Nú eru þeir tímar liðnir, að ástæða væri til slíkrar verslunar. Virðist hv. þm. Dala. (B. J.) nú vera kominn á alt aðra sveif en áður og farinn að aðhyllast »opportunismann«, sem dr. Valtýr Guðmundsson hefir verið að prjedika um í Eimreiðinni, og þykir mjer mjög leitt að vita minn gamla samherja (B.J.) kominn inn á þá braut. Kemur hann nú fram eins og gamall Valtýingur með aflóga kenningar. Skal mig ekki undra, þó að þeim sje dillað, sem alla tíð hafa verið tæpir í rjettindakröfum Íslendinga.

Þá vildi háttv. þm. Dala. (B. J.) gera mikla úr því ákvæði 19. greinar, það Ísland lýsi yfir ævarandi hlutleysi sinna. Þótti honum það, að Ísland lýsti sjálft yfir hlutleysi sínu, glögt og óbrigðult vitni um fullveldi þess. Að öðrum kosti, ef landið er ekki sjálfstætt, þá lýsi sá yfir hlutleysinu fyrir landsins hönd, er yfir því ráði, svo sem þegar Belgía lýsti yfir hlutleysi Kongoríkisins. En hjer er nú einmitt þannig ástatt, því að samkvæmt 19. grein eru það Danir, sem tilkynna, að Ísland lýsi yfir ævarandi hlutleysi sínu, en Ísland tilkynnir heiminum það ekki sjálft. Jeg er hræddur um, að hv. þm. Dala. (B. J.) hafi flaskað illa á þessu.

Enn nefndi háttv. þm. Dala. (B. J.) það sem fullveldiseinkenni, að Ísland hefði rjett til að setja sína eigin sendiherra þar sem því þóknaðist. Þetta er hvergi nærri alls kostar rjett, því að öðru máli gegnir, þótt Danir lofi að taka einstaka íslenska menn í undirtyllustöður í sendiherra- og ræðismannaskrifstofur sínar. Eru það engin veigamikil ný rjettindi. Mörg dæmi eru til þess, að Íslendingar hafi komist í háar stöður meðal Dana. Má þar til nefna Jón Eiríksson og Grím Thomsen, sem komst í sendiherrasveit Dana á Englandi. Sannar þetta ekkert um fullveldi landsins.

Satt er það, að Íslendingum er veitt heimild til að hafa fulltrúa í Danmörku, en það hafa þeir altaf getað, enda haft stjórnarakrifstofu þar. Er það enginn nýr rjettur.

Í athugasemdunum er skýrt tekið fram, að utanríkisstjórnin hljóti að vera ein, sem sje sú danska. Eru ummæli háttv. þm. Dala. (B. J.) um sjerstaka sendiherra og sjerstaka utanríkisstjórn vora því í mótsögn við frv. sjálft.

Löngun hans til þess, að hitt og þetta hefði staðið í frv., umfram það sem er þar, hefir teymt hann of langt í fullyrðingunum. En þær stoða næsta lítið. Hætt er við, þegar til framkvæmdanna kemur, að Íslendingar mælist ekki einir við um þetta, eins og jeg nú hjer í deildinni. Munu Danir þá hafa einurð á að ota sínum skilningi, og standa þá, heldur en ekki vel að vígi með sambandalögin að bakhjarli.

Háttv. þm. Dala. (B. J.) viðurkendi, að sum ákvæði frv. gætu valdið fjárhagslegum skaða. Á það legg jeg ekki aðaláhersluna. En auðvitað mál er það, að enginn gerir það að gamni sínu að semja af sjer fje. Og hart er það fyrir fátæka þjóð, að taka á sig ný stórgjöld og gefa jafnframt þar á ofan annari þjóð, langtum ríkari og betur búinni til framkvæmda, óhindraðan aðgang að öllum auðlindum landsins, sem hvergi eiga að vera með rjettu annarsstaðar en í höndum landsins barna einna.

Háttv. þm. Dala. (B. J.) vildi staðhæfa, að Ísland bæri meira úr býtum á þessum umbrotatímum, að því er til aukinna rjettinda kemur, en nokkurt annað ríki heimsins með jafnlitlum tilkostnaði. En mjer sýnist ávinningurinn harla lítill.

Satt er það að vísu, að Ísland hefir ekki kostað til blóði þegna sinna, eina og flest ríki hafa orðið að gera, en á hinn bóginn verður að líta á það, að Íslendingum á að vera auðsóttari rjettur sá, er þeir eiga kröfu til, en flestum öðrum þjóðum. Þeir eiga einir skilyrðslausan rjett til eignar og forráða þessa lands. Þeir hafa sjálfir fundið landið, bygt það einir, yrkt og notað frá öndverðu, án þess að seilast á rjett nokkurrar annarar þjóðar. Sumar þjóðir hafa aftur tekið land sitt ránshendi; í öðrum landahlutum búa tvær eða fleiri þjóðir saman, svo að ómögulegt er að finna nein landatakmörk milli þjóðernanna, og er þá torvelt að skera úr, hvaða ríki þeir tilheyra með rjettu. En Íslendingar hafa einir frá upphafi bygt þetta land og hafa svo óskoraðan og augljósan rjett til landsins, sem nokkur þjóð getur fremstan haft. Danir eru því skyldir til að láta oss í hendur allan rjett vorn, án þessa að fá nokkuð í staðinn.

Háttv. þm. Dala. (B. J.) sagði, að Ísland væri ótvírætt fyrir Íslendinga samkvæmt sambandsfrumvarpinu, þar sem sjeð mundi fyrir því, að Danir hefðu eigi meiri rjett hjer en Íslendingar, sem erlendis búa. Það kom fram sem ætlun bæði forsætisráðherra og háttv. þm. Dala. (B. J.) að bægja Íslendingum erlendis frá rjettindum í föðurlandi sínu, til þess að geta bægt Dönum frá, og virtist þeim báðum það mjög rjettlátt gagnvart löndum vorum erlendis, og voru með svigurmæli í garð þeirra. Jeg vil benda á, að oft hafa þeir landar vorir verið fult eins góðir Íslendingar, sem fyrir handan pollinn hafa búið. Þetta er alkunnugt, og þarf jeg ekki að nefna nöfn. Vil jeg að eins benda á Íslendinga vestan hafa. En það hefir ósjaldan komið fram, að þeim, sem vilja, að Danir gini yfir öllum auðlindum Íslands, hefir verið og er meinilla við Vestur-Íslendinga og samhug þeirra og samvinnu við ættjörð sína. Virðist sami andinn gægjast upp hjá þessum herrum. Og mjer sýnist það síður en svo, að »Ísland verði fyrir Íslendinga«, þegar þessir menn sjá einmitt það ráðið vænst, að bægja Íslendingum frá Íslandi, til þess að bjargast eitthvað út úr jafnrjettisógöngum samninganna. En svo er ósýnt, að þeir komist upp með slíkt gagnvart Dönum, því að ekki hefir það verið tilætlun nefndarinnar.

Annars verður þessum mönnum torvelt að sanna, að til sje takmarkalausara »jafnrjetti« milli þjóða heldur en það, sem Dönum er veitt með þessum samningum.

Enn sagði háttv. þm. Dala. (B. J.), að sá ætti að gera betur, sem segði, að hjer væri illa verslað. Slíkt er hægt að segja. En hjer er ekkert uppboðsþing, þar sem boðin sjeu upp rjettindi landsins, svo að slík orð eru út í loftið og væru betur ósögð.

Háttv. þm. Dala. (B. J.) sagði og, »að einhvern tíma mundi það hafa þótt einhvers virði, að hægt væri á næsta þingi að setja innlendan hæstarjett«. Skal jeg að vísu játa það. En einkennilegt er það, hvers vegna innlendur hæstirjettur er ekki látinn verða samferða »fullveldinu«, ef nú er verið að gera landið fullvalda. Er þetta því undarlegra, sem hæstv. forsætisráðherra hefir áður lýst yfir því, að hann teldi það eitt af aðaláhugamálum sínum að flytja æðsta dómavaldið inn í landið sem fyrst.

Ekki er svo að sjá, sem Danir telji líklegt, að hrapað muni verða að því að flytja hæstarjett heim, þar sem svo er komist að orði í frv., að »hæstirjettur Danmerkur hafi á hendi æðsta dómsvald í íslenskum málum, þar til Ísland kynni að ákveða að stofna æðsta dómstól í landinu sjálfu«.

Það er eins og ekki sje ætlast til, að það verði alveg á næsta ári. Jafnvel brytt á efa um, að það verði nokkurn tíma. Tæpast mun auðsóttara að flytja dómsvaldið inn í landið eftir því, sem árin líða og danskir hagamunir vaxa í landinu, dönsk fyrirtæki verða voldugri, sýslu- og bæjarfjelög komast í stærri skuldir við Dani og fleiri fossar í þeirra hendur. En það er leitt mjög og tæpast samandi, að fullvalda ríki, eins og fylgifiskar frv. fullyrða að Ísland verði, sæki æðsta dómsvald til annars lands.

Ekki get jeg látið mjer hugnast nefnd sú (»lögjöfnunarnefndin«), sem á að erfa starf ríkisráðsins. Það er ekki rjett, sem hæstv. forsætisráðherra sagði, að það væru að eins stjórnarfrumvörp, sem senda þurfi til nefndarinnar.

Í 16. gr. stendur skýrt og skorinort: »Sjerhvert lagafrumvarp, sem varðar nánari meðferð mála þeirra« o. s. frv. Gæti verið örðugt fyrir þingmenn að bíða þar til leitað væri umsagnar nefndarinnar um frumvörp þeirra til Danmerkur, eða hver veit hvert. Háttv. sessunautur minn, 2. þm. Árn. (E. A.), bendir mjer á, að seinna í greininni stendur: »skal hlutaðeigandi stjórnarráð leggja fyrir nefndina til álita«.

Rjett er það, að hlutaðeigandi stjórnarráð á að sjá um sendinguna á »sjerhverju lagafrumvarpi«, en ekki verður af þessu sjeð, að að eins eigi að senda stjórnarfrumvörp til nefndarinnar. Er það ekki nema sjálfsagt að fela stjórnarráðinu framkvæmd á þessu, og eiga aðganginn að því, því að valtara væri að eiga það undir hverjum flutningsmanni meðal einstakra þingmanna. En auðvitað var það, að vanir lögskýringamenn mundu hjer við umræðurnar reyna að snúa þessu á þann veg, sem þeim þótti sjer best henta.

Háttv. þm. Dala. (B. J.) taldi það stærsta kostinn á frumvarpinu, að nú væru Íslendingar lausir við hermálin, vegna þeirrar miklu hættu, sem landinu stafaði ella af því, að Danmörk lenti í ófriðnum. Hann var mjög óttasleginn af því, að eitthvert stórvelda mundi þá hremma Ísland, og eins væri landinu mikil hætta búin, ef þessum samningum yrði ekki lokið fyr en ófriðnum, því að jafnvel þótt eitthvert stórveldið vildi þá líta á rjett Íslands, sem vafasamt væri, það gæti sá stuðningur kostað enn þá meiri í rettindaveislur.

Mig furðar mjög, að menn skuli vera með svo fjarstæðar grýlur, og einhvern tíma hefði háttv. þm. Dala. (B. J.) verið bjartsýnni en nú er hann um sjálfstæðismál Íslands.

Eins og margsinnis hefir verið tekið fram, hafa nú allar stórþjóðir heimsins það kjörorð, að þær vilji vernda rjett smáþjóðanna, ekki síst England og Bandaríkin, og er það því furðu barnaleg grýla að vera að dylgja um það, að England muni jafnvel leggja Ísland undir sig. Þeir menn sjá ofsjónir, sem slíkt óttast.

Stórveldin hafa nú þegar viðurkent Ísland í verki sem sjálfstætt ríki og tekið við sendimönnum hjeðan og samið við oss sem sjerstakt ríki. Þeim leikur enginn hugur á að leggja Ísland undir sig, enda höfum vjer áður setið í friði óáreittir fyrir þeim, þótt Danir lentu í ófriði, svo sem 1809, og hafa þó rjettlætishugsjónirnar þróast mjög síðan, svo að hættan er langtum minni nú, eða rjettara sagt alls engin.

Háttv. þm. Dala. (B. J.) sagði, að meiri þörf væri á að ræða margt það, er lýtur að framkvæmdum frumvarpsins; en sumt af því, er hann talaði um í því sambandi, voru einvörðungu »barnagull«. En satt er það, að ef þingið samþykkir frumvarpið, þá verður það að hafa vakandi auga á framkvæmd þess, eftir því sem unt er.

En þar er ekki hægurinn hjá, svo illa og óhaglega sem frumvarpið býr Íslendingum í hendur. Þá vakna ýms deiluatriði, og hljóta þau að verða verið mörg, eftir þeim kenningum, sem háttv. þm. Dala. (B. J.) heldur nú fram, þar sem Danir líta alt annan veg á margt í samningnum en hann vill vera láta. Samningur þessi hlýtur því að vekja deilur og auka sundrunguna, gagnstætt því, sem tilætlun hans er, því að bæði Danir og margir Íslendingar hafa lagt áherslu á, að nauðsyn bæri til að jafna deiluefnin. Eina ráðið til þess er það, að hvor búi sem mest að sínu, en sje íhlutunarlaus um hins mál.

Þessar tvær þjóðir hafa haft nægan tíma og tækifæri til að reyna »samvinnuna« síðan 1281, og er engin ástæða til að syngja þeirri samvinnu lof. Reynslan sýnir einmitt, að landi voru vegnað verst þegar samvinnan var mest, eða þegar Danir ljetu mest til sín taka hjer í landi.

Jeg hefi þá vikið að flestum atriðum í ræðu háttv. þm. Dala. (B. J.), sem um er deilt, og mun geta látið hjer við lenda að sinni, enda mun þingheimur fremur kunna þakkir fyrir það, ef jeg hefi gleymt einhverju. Jeg hefi jafnfram svarað háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) að mestu leyti og þarf um fátt að deila við hann sjerstaklega.

Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) tók sjer fyrir hendur að sýna mismuninn á uppkastinu 1908 og þessu frv. Hann vildi leggja þá merkingu í orð mín, að jeg hefði litið svo á, sem þetta frv. væri verra en frv. 1908, og gæfi þá að skilja, að þetta frv. væri þjóðinni óaðgengilegt, er hún hefði hafnað hinu. En jeg gerði engan samanburð á frv. í heild sinni. Jeg gat þess að eins, að frumv. 1908 væri í sumum atriðum betra en þetta frv., en í öðrum atriðum væri það verra. En þótt þetta frv. væri hóti betra, þá þyrfti það alls ekki fyrir þá sök að vera aðgengilegt, því að aðstaðan hefir breyst svo stórkostlega á þessum 10 árum.

Annars var gaman að hinum ítarlega og fróðlega samanburði þm. (E. A.), en mjer fanst hann nú leggja talsvert annan skilning í frv. 1908 heldur en hann gerði þá, því að þá hrósaði hann uppkastinu mikið, lagði í það fullkomið fullveldi og átti um það harðar deilur við háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) En mjer fanst hann nú, er hann var að gagnrýna það, líta á frv. 1908 með augum andstæðinga þess, en ekki með hinum bjartsýnu gömlu heimastjórnaraugum sínum. Hefði þó samanburðurinn orðið ólíkt betri, ef þingmaðurinn hefði lagt sama lofgerðarmælikvarðann á bæði frv., og gaman hefði jeg af að sjá það, hvort kostir þessa frv., sem hjer liggur fyrir, hefðu þá yfirgnæft eins mikið eins og hann vildi nú vera láta.

Það dettur víst fáum í hug að lofa frv. 1908. Það var þarft verk að fella það, og það eiga bæði þessi frv. sameiginlegt, að þau eru óaðgengileg og ófullnægjandi fyrir Ísland, og því eiga þau að sæta sömu örlögum og áfellisdómi.