28.08.1919
Neðri deild: 48. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í B-deild Alþingistíðinda. (10)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Það er nú eins og vænta mátti um háttv þm. V.-Sk. (G. Sv.), að hann er svo riddaralegur, að engin von er til, að hann vildi fara að leggjast á náinn eða sparka í dauðu ljónin.

En jeg held, að honum hafi þó snúist hugur eftir að hann gaf þá yfirlýsingu, þar sem hann tók allmjög freklega til orða um hinu dauða, sem hefir sinn dóm með sjer.

En það gengur nú oft svo. Það er hægt að lofa öllu fögru, þótt erfitt reynist um efndirnar.

Hins vegar fylgdi hann trúlega þeirri reglu sinni að gerast forsöngvari, þegar til þess kemur að leggja stjórninni á hjarta hollar lífsreglur.

Og það lasta jeg ekki. Venjulega hefir hann verið þinglegur í orðum sínum; þó stappaði nærri, að út af því brygði í þetta skifti.

Fyrirspurn hans var sú, hvort atvinnumálaráðh. ætlaði sjer að skilja eftir sem fordæmi þá stjórnarreglu, sem hann tiltók.

En hann (atvinnumálaráðh.) hefir nú ekki talið sjálfan sig svo hátt settan, nje orðið þess var af áliti annara, og síst hefir hann verið svo blindur af sjálfsáliti, að hann áliti, að það, sem hann hefir haldið fram, eigi að verða að stjórnarreglu framvegis.

Þetta er því sagt alveg út í bláinn af háttv. þm. og þarf ekki svara við.

Hvorki jeg nje aðrir, sem stjórnina hafa skipað, ætlumst til, að svo verði álitið, sem við skiljum eftir stjórnarreglur. Og þeir, sem á eftir koma, munu naumast leita þeirra til okkar.

En viðvíkjandi því, hvers vegna jeg hafi lagt mál þetta fyrir þingið, þá skal jeg geta þess, að það var skylda mín.

En hitt er ekki þar með sagt, að mjer hafi verið jafnskylt að standa fyrir svörum. Það var tekið fram í umr., að lengra yrði ekki komist en að háttv. deild legði dóm sinn á málið. Og jeg held, að það hafi verið hæstv. forsætisráðh. (J. M.), sem tók það fram, að stjórninni væri ekki sárt um það, hvort málið næði fram að ganga eða ekki, og undir það get jeg tekið.

Jeg fann því ekki skyldu mína í að halda vörnunum uppi fyrir það.

Hitt er rangt til getið, að jeg hafi flúið af hólmi, þótt svo hafi við borið, að jeg hafi haft öðrum störfum að gegna.

Jeg býst nú við því, að ýmsir fleiri verði til þess að koma með fyrirspurnir til stjórnarinnar, og mun jeg því láta við svar þetta sitja að sinni, hvort sem það þykir fullnægjandi eða ekki.