07.07.1919
Neðri deild: 3. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1098 í B-deild Alþingistíðinda. (1003)

26. mál, laun embættismanna

Forsætisráðherra (J. M.):

Það má segja, að stjórnin hafi ekki tekið það upp hjá sjálfri sjer að koma fram með þetta frv. Það var þegar 1914, að Alþingi fann nauðsyn á því að endurskoða launalögin, og var þá sett milliþinganefnd til þess að rannsaka málið og koma fram með álit sitt. Og þótt álit það hafi fengið allmisjafna dóma, hefir stjórnin þó bygt að miklu leyti á störfum þeirrar nefndar.

Í fyrra kom fram það álit ýmissa háttv. þm., að nauðsynlegt væri að endurskoða öll ákvæði um launakjör starfsmanna ríkisins. Þetta frv., sem hjer liggur fyrir, fer að því er föstu launin snertir ekki nema skamt, og hvað uppbótina snertir fer það ekki lengra en nauðsyn ber til.

Það var tilætlun ráðuneytisins að fara þann veg, að launin yrðu ákveðin svo há, að við mætti una fyrir starfsmenn ríkisins, en hins vegar ekki hærra en svo, að ríkissjóður megnaði að greiða þau.

Um einstök laun og samanburð á þeim kunna að verða skiftar skoðanir, en hitt ætti ekki að vera neitt deiluefni, að laun þau, sem frv. ákveður, eru hvergi hærri en svo, að minni mega þau ekki vera.

Að vísu verður þetta mikill ábætir fyrir landssjóð, en ekki er gott að segja, hve mikil aukningin verður. Í frv. er reiknað út, hve mikil hún verður á föstu laununum, en um uppbótina er ekki hægt að segja. Eftir frv. má gera ráð fyrir, að gjaldaukningin í fyrstu verði, að meðtaldri viðbótinni við föstu launin, um 800 þús. kr., ef bygt er á því, að viðbótin sje 100% af þeim hlutanum, sem upp er bættur, en það getur ekki talist svo mikil aukning, þar sem uppbótin 1918 nam 495 þús. kr., og vita allir að hún var talin alt of lítil. Aukningin frá því, sem nú er, mundi þá ekki nema meiru en nálægt 300 þús. kr., og er það ekki ægilegt þegar það er athugað, hve þörfin er brýn.

Það hefir verið gert svo mikið að því, að bera saman kjör starfsmanna landsins og annara starfsmanna, að jeg skal ekki þreyta háttv. þgdm. á því.

Jeg veit líka, að mál þetta verður rannsakað mjög ítarlega, og tölurnar tala best við athugun slíkra mála.

Jeg býst við því, að sumir embættismenn sjeu óánægðir með ýms ákvæði frv., og lái jeg þeim það ekki, því að laun þeirra sumra hverra eru þar ákveðin mjög lág, t. d. presta og lækna.

En sjeu laun þeirra stjetta hækkuð að nokkrum mun, þá munar það ríkissjóð miklu. Má vera, að hækka megi fastalaun læknanna, en láta taxtann halda sjer.

Væri nú það gert, mundi ekki hægt að hækka þau minna en upp í 3000 kr. til jafnaðar, og mundi það vera allmikil aukning fyrir ríkissjóð, sjálfsagt ekki langt undir 100 þús. kr.

Prestar, sem búa í sveit, munu einnig vera óánægðir með takmörkun dýrtíðaruppbótarinnar, en vonandi er, að hið óeðlilega háa vöruverð, sem nú er, lækki bráðlega, og bætir það úr.

Sem sagt, þá eru mörg atriði í máli þessu mjög vandasöm fyrir nefndina, sem kosin verður í málið.

En undanfæri er nú ekkert lengur að bæta launakjör embættismannanna, hvernig sem fram úr því verður ráðið.

Í frv. vantar ákvæði um það, hve nær lögin gangi í gildi. En gera má ráð fyrir að samkomulag fáist um það, ef þingið fellst á fyrirkomulag það, sem bent er á í frv. Mundi þá verðlagsskráin verða samin í haust, og embættismenn byrja að taka laun sín eftir lögunum 1. jan. 1920.

En nú hafa komið fram mjög eindregnar óskir um það, frá flestum embættisfjelögum landsins, að launakjörin yrðu bætt frá 1. jan. 1919. Erindi það mun verða lagt fyrir nefndina. Í þeim fjelagsskap eru allir nema læknarnir, sem hafa sjerstöðu nokkra í málinu og hana ekki óeðlilega.

Jeg skal geta þess, í sambandi við 33. gr. frv., að sú verðlagsskrá, sem þar er gert ráð fyrir, mun ekki verða gerð að neinu kappsmáli frá hálfu ráðuneytisins ef annar rjettlátari mælikvarði fæst.

Mjer virðist þetta mál svo vandasamt og umfangsmikið, að nefndin, sem um það á að fjalla, megi vart vera skipuð færri en sjö mönnum. Hygg mega vísa málinu til 2. umr. og kjósa síðan nefnd í það.