08.09.1919
Neðri deild: 58. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í B-deild Alþingistíðinda. (101)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Þorsteinn Jónsson:

Jeg ætla að taka það fram viðvíkjandi brtt. á þgskj. 721, að hún er borin fram í samráði við póstmeistara. Jeg hefi fengið áskorun um, að Borgarfjörður eystra verði gerður að póstafgreiðslustað. Enda er hann stærri en margir aðrir staðir, sem hafa póstafgreiðslu. Jeg þarf ekki að fjölyrða um, hvað það er miklu þægilegra fyrir þá sveit, að þessi breyting sje gerð, enda fjelst póstmeistari á þetta. Hins vegar sagði hann, að fje það, sem veitt væri til póstafgreiðslu, væri af svo skornum skamti, að ekki væri hægt að klípa af því; þyrfti því að auka fjárframlagið, ef þetta ætti að gerast. Kostnaðarauki, sem af þessu leiddi, mundi ekki nema miklu. Fyrsta árið yrði hann sem svarar 400 kr., en síðan 100 kr. Og eins og menn sjá, hefi jeg farið fram á 300 kr. hækkun á ári. — Þar sem nú háttv. frsm. (M. P.) hafði svo góð orð um þetta mál og kvað nefndina ætlast til, að þetta yrði gert, að setja þarna póstafgreiðslu í stað brjefhirðingar og að nefndin mundi taka þetta til greina þegar þessir liðir yrðu lagfærðir, þá sje jeg mjer fært að taka till. aftur.

Þá kem jeg að styrknum til fjelagsins „Íslendingur“.

Eins og kunnugt er þá höfum við Íslendingar fundið sárt til þeirrar blóðtöku, sem við höfum orðið fyrir af flutningnum vestur um haf. Fjöldi manna hefir þyrpst hjeðan af landi burt til Ameríku og horfið þar í hið breska þjóðarhaf, öllum gleymdir og horfnir hjer heima, nema má ske einhverjum nánum ættingjum. Vitanlega lifa þó endurminningar hjá þessum mönnum um landið og þjóðina, sem þeir yfirgáfu. Tilfinningar þeirra fyrir íslensku þjóðerni deyja ekki, en þeir sjá fram á það, að ekki einungis þeir eru glataðir þjóðinni, heldur líka niðjar þeirra.

Þetta var undirrót þess, að síðasta vetur var stofnaður fjelagsskapur meðal Íslendinga í Vesturheimi, til þess að viðhalda íslensku þjóðerni. — Ef þessi hugmynd tækist í framkvæmdinni, að viðhalda íslensku þjóðerni þar vestra, ekki eingöngu meðal þeirra, er nú lifa heldur og niðja þeirra, þá má segja, að sá skaði sje að nokkru bættur, sem Ísland beið við brottför þessara manna. Ef íslensk tunga og mentun helst og fær að þróast hjá bræðrum vorum vestan hafs, þá er mikið unnið fyrir íslenskt þjóðerni. Jeg þarf ekki að fara mörgum orðum um, hvílíkur hagur það er íslenskri tungu og íslenskum bókmentum, að sem flestir skilji og tali málið. Því var það, að fyrir nokkru síðan gengust fáeinir menn fyrir stofnun fjelagsins Íslendingur, sem hafði það markmið, að halda við sambandinu milli okkar og Vestur-Íslendinga og tengja þau bönd sem fastast.

Mönnum er kunnugt um, að undanfarin ár hafa Íslendingar vestra tekið upp þann sið, að bjóða til sín ungum, efnilegum prestum, og fleirum, til dvalar þar í landi. Tilgangurinn með þessu er sá, að þessir menn, sem kæmu hjeðan að heiman, bljesu nýjum krafti og afli í viðleitni þeirra til að halda við íslensku þjóðerni og máli. Sama er að segja um þetta nýstofnaða fjelag hjer heima. Ætlun þess er að styrkja Vestur-Íslendinga í þessari lofsamlegu viðleitni þeirra. Fjelagið mun hafa hugsað sjer að senda góðan og hæfan mann vestur, til þess að halda þar fyrirlestra og vinna að þessu marki. Enn fremur hefir fjelagið hugsað sjer að hafa skrifstofu hjer í Reykjavík, sem Vestur Íslendingar gætu snúið sjer til, til að fá upplýsingar, bæði þeir, sem koma hingað, og oft munu eiga erfitt, er þeir eru öllum ókunnugir, en hafa má ske í hyggju að setjast hjer að, og eins hinir, sem vilja fræðast um eitthvað vestan að. Auk þess þurfa þeir oft, eins og gefur að skilja, að fá vitneskju um menn hjer heima, ættingja sína og aðra, ná í íslenskar bækur, sem annars er oft erfitt fyrir þá og annað þess háttar. Í þessu tilliti ætti slík skrifstofa að geta gert mikið gagn.

Jeg ætla ekki að fjölyrða um þetta. Jeg vænti þess, að þetta sje mönnum svo mikið tilfinningamál, að þeir vilji verða við þessari litlu fjárbeiðni, sem á að verja til að styrkja þetta þjóðarbrot okkar Íslendinga í Vesturheimi til að viðhalda tungu og þjóðerni og standast baráttuna móti því, að hverfa inn í breska þjóðarbáknið. Eins og jeg gat um áðan, ætlar fjelagið sjer að senda valinkunna menn vestur við og við, til að halda fyrirlestra, en sjer það ekki fært, nema það fái einhvern styrk. Styrkveitingin fyrra árið er ætluð sjerstökum manni, í þessu augnamiði, en síðari veitingin á að ganga til hinnar fyrirhuguðu skrifstofu.

Þá vildi jeg víkja nokkrum orðum að fjárveitingunni til Hallgríms Hallgrímssonar. Við Íslendingar höfum oft gumað af því, að við værum mikil söguþjóð. En þó er nú svo, að við eigum ekki skrifaða ítarlega sögu landsins, nema á litlum kafla. Það eru stór tímabil í sögu okkar, sem eru óplægður akur, sem mikla vinnu og þekkingu þarf til að vinna upp. Um langt skeið hefir að eins einn maður fengið styrk til að skrifa Íslendingasögu. Hann er nú kominn fram á 12. öld með verkið. En þessi maður er nú talsvert við aldur. og endist varla tími til að ljúka við lengra en út þjóðveldisöldina, eins og líka er skiljanlegt, því að það er margra manna verk að skrifa alla Íslendingasögu ítarlega.

Hallgrímur Hallgrímsson er eini magister í sögu hjer á landi. Hann hefir fyrir skömmu lokið prófi, með hárri fyrstu einkunn. Af mentuðum mönnum, sem til hans þekkja, er hann álitinn mjög efnilegur maður til þessa lífsstarfs, er hann hefir valið sjer. Hann mun ætla sjer að rita sögu Íslands frá því um 1800 og þar til það fær fullveldi, 1. des. 1918. Nú stendur þannig á, að honum býðst góð staða í öðrum landsfjórðungi. En honum er það ljóst, að hann muni ekki geta gefið sig jafnvel við sögustarfi sínu þar eins og hann væri hjer. Eins og gefur að skilja, þarf hann að eiga aðgang að Landsbókasafninu hjer í Reykjavík. Þar eru þau bestu gögn, sem er að fá, til að rita sögu Íslands, og ekki annarsstaðar hjer á landi. Auk þess mun hann þurfa að fá sumt af þessum gögnum frá útlöndum. Hann hugsar sjer þetta verk alhliða sögu, pólitíska, menningar- og bókmentasögu að nokkru leyti. Þessi styrkur, sem farið er fram á fyrir hann, finst mjer vera mjög hæfilegur, 2000 kr. Vitanlega verður hann að vinna annað með fram, því að hann er aðstoðarbókavörður á Landsbókasafninu. enda mundi þessi veiting hvergi nærri hrökkva til, ef hann ætti að lifa á henni einni þann tíma, sem hann væri að skrifa söguna.

Þá vildi jeg rjett minnast á styrkinn til blaðamannafjelagsins. Sú beiðni er flutt að ósk þess fjelags. Það kom til mín sendimaður frá því nú í dag og bað mig að flytja þetta, þar eð fjelaginu hefði verið gefinn kostur á að senda blaðamenn á samkomu, sem haldin verður í Stokkhólmi, fyrir blaðamenn frá Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Finnlandi og Íslandi.

Blaðamenn bæjarins áttu fund með sjer í gærkveldi, og var samþykt þar að senda mann, ef fjárstyrkur fengist. Kaus fundurinn til fararinnar Vilh. Finsen, ritstjóra Morgunblaðsins. Af því að mjer leist, að það gæti haft talsverða þýðingu að senda einn mann, þótt betra hefði verið að geta sent fleiri, þá taldi jeg rjett að taka að mjer að flytja till. þessa. Mjer virðist, sem þessi för muni geta haft meira að segja fyrir landið, en sem svarar þessari fjárupphæð. Þarf ekki að fara um það mörgum orðum, hvað kynning hefir að þýða fyrir okkur. Það hefir gert oss mestu erfiðleika í verslunarviðskiftum við umheiminn, hve landið hefir verið lítið kunnugt. Blöðin eru boðberar mannkynsins heimshorna milli, og kynningin hlýtur að berast mest þær leiðir.

Ef það gæti tekist að senda hjeðan sæmilegan mann á blaðamannafundinn í Stokkhólmi, þá gæti það drjúgum stuðlað að því, að kynna landið. Þessi maður skýrir frá mörgu, sem hjer gerist, og hinir blaðamennirnir geta þess í blöðum sínum. Jeg get mjer þess til, að flestum muni þykja fróðlegt að frjetta eitthvað frá þessu landi, sem þessi litla þjóð byggir, sem nú hefir nýlega tekið sjer sæti á bekk með fullvalda þjóðum heimsins.

Jeg skal svo ekki fjölyrða meir. Fyrir mjer vakir, að með kynningu þeirri, sem leiðir af þessari för, muni þessi peningaupphæð meira en borga sig. Blaðamenn allra Norðurlanda hafa komið á samvinnu milli allra blaðamannafjelaga þessara landa, og vjer megum ekki skerast úr leik.

Aðrar brtt. hefi jeg eigi að flytja við fjárlögin. Eins og allir sjá, er það engin „hreppapólitík“, sem skín út úr þessum till. Þær snerta allar landið og þjóðina í heild sinni.

Þá vildi jeg að eins minnast á eina brtt., um hækkun á utanfararstyrk Guðm. Ólafssonar frá Sörlastöðum. Jeg mun vera honum kunnugri en flestir hjer. Get jeg því fullvissað menn um, að það voru síst of góð ummæli, er hv. 2. þm. Eyf. (E. Árna.) fór um hann. Í gagnfræðaskólanum á Akureyri þótti hann ágætur námsmaður, og gáfumaður. Er hann kom þaðan, lagði hann um hríð stund á kenslustörf, fór síðan á kennaraskólann og útskrifaðist þaðan með ágætisprófi. Síðan hefir hann stundað kenslu nyrðra. Hann hefir fengið svo ágætt orð á Norðurlandi, að fyrirhugað er, að hann taki að sjer forstöðu alþýðuskóla, sem Þingeyingar hafa í hyggju að setja á stofn.