26.08.1919
Neðri deild: 45. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1142 í B-deild Alþingistíðinda. (1013)

26. mál, laun embættismanna

Matthías Ólafsson:

Það er aðallega eitt atriði, sem jeg verð að gera athugasemd við, og hefi borið fram brtt. í þá átt. Jeg get ekki verið meiri hluta nefndarinnar sammála um, að rjett sje að ákveða laun lækna eins og gert er, láta hækkunina koma fram á föstum launum þeirra, en láta gjaldskrána halda sjer. Jeg hjelt því fram, að úr því farið væri fram á að bæta kjör lækna, þá ættu að sjálfsögðu þeir að gera það, sem læknana nota, og væri þá rjettast að hækka gjaldskrána. Þegar farið var að fjölga læknum fyrir alvöru, var ætlast til, að aðaltekjur þeirra yrði „praxis“, og þeim voru ætlaðar einar 1000 kr. samkvæmt

því. En um leið og þetta var gert var þeim markaður bás með gjaldskrá. Hún var svo lág, að læknum reyndist ómögulegt að lifa af tekjum sínum, og þá var valin sú óhappaleið, að hækka laun þeirra, í stað þess að afnema eða hækka gjaldskrána. Þetta var í alla staði ósanngjarnt, að skella þessu öllu á landssjóð, en láta þá, sem lækninn nota, sleppa. Vitanlega borga landsmenn þessa upphæð með tollum og sköttum, en það gera allir, líka þeir, sem aldrei þurfa á lækni að halda, og er þetta því órjettlátt.

Læknastjettin fór fram á það á þingi 1917 að fá ráðna bót á þessu, fá hækkaða gjaldskrána. Þingið vildi ekki sinna því, og þess vegna er komið sem komið er. Læknar verða að fá bætt kjör, og úr því hin leiðin er ekki fær, þá hafa þeir valið þá, að fá launin hækkuð. Sú hækkun, sem farið er fram á, mundi nema líku og ef gjaldskráin væri hækkuð um 50%. Læknarnir töpuðu engu, en landssjóður sparaði 25,000 kr., auk dýrtíðaruppbótar af þeim 25,000, eða alls sem næst 50,000 kr. Þetta yrði sparað á þann hátt, að þeir, sem lækna notuðu, borguðu það, í stað þess að nú gera það allir meira eða minna. Það hefir mikið verið talað um það, að hjer væri verið að leggja skatt á sóttir og sjúkdóma, og menn hafa með fjálgleik og mælgi reynt að slá á þá strengi. Jeg veit ekki betur en að sjúkdómar leggi á okkur svo marga skatta, að læknagjaldið sje hverfandi. Það mætti eins tala um, að landið ætti að borga útför og greftrun manna. Það er hægt að segja, að dauðinn leggi svo mikið á menn, að vert sje að ljetta undir. Þannig mætti fleira telja. Jeg gæti bent á, að 8 manna heimili má vera meira en lítið óheppið, ef það þarf að borga meira í lækniskostnað en það borgar í tolla, sem lagðir verða á neyslu þess eingöngu til að greiða laun lækna. Það eru heldur ekki altaf fátækustu mennirnir, sem borga læknunum; þeir hafa oft og tíðum ekki ráð á að leita til læknis við hvað lítilfjörlegum lasleika sem er. Læknarnir lifa oftast á efnamönnunum; þeir hafa ráð á að borga.

Háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) var hræddur um, að menn færu að flytja af landi burt vegna þess, hve laun embættismanna verði há. Jeg er ekkert hræddur um, að menn fari að fara til Ameríku eða Grænlands, þó gjaldskrá lækna verði hækkuð. Það væri að fara úr öskunni í eldinn. Því þó gjaldskráin yrði hækkuð um 54%, þá yrði það þó minna en er í Ameríku.

Jeg ætla að beina því til hæstv. forseta að bera upp síðari lið till. á undan hinum fyrri. Ef gjaldskráin verður ekki hækkuð, þá vil jeg ekki verða til þess, að laun lækna standi í stað. Það ætti öllum að vera ljóst, að það verður að bæta kjör þeirra; þeir geta ekki lifað sómasamlega við þau kjör, sem nú eru.

Þá á jeg aðra brtt., um að nema burt hámarkið fyrir dýrtíðaruppbótinni. Jeg lít svo á, að ef launin eru í upphafi rjettlát, þá sje líka rjett, að þau hækki í rjettu hlutfalli við verðfall peninga. Ef 9500 kr. eru sæmilegt til að lifa af nú, þá verður það ekki sæmilegt ef peningar lækka um 30–50%. Það á alls ekki að fyrirbyggja það, að menn með sparnaði geti lagt upp.

Þá er eitt, sem virðist varla hafa verið tekið til greina, og það er að embættismenn verða af þessum launum sínum að borga líftryggingarfje fyrir sig og í ekknasjóð. Fram hjá þessu hefir verið gengið. Það á að afnema eftirlaun, og eiga embættismenn að borga þau sjálfir. Það verður að taka tillit til þessa þegar laun embættismanna eru ákveðin.

Þá er 4. liðurinn, og get jeg tekið hann aftur, því jeg get fallist á brtt. á þgskj. 480.

Þá er eitt, sem jeg vildi taka fram, viðvíkjandi flokkun læknishjeraða. Nefndin hefir þar farið eftir till. læknafundar, en hann hefir miðað við fólksfjölda. Það er ekki rjett, því að 1000 menn við sjó gefa meiri „praxis“ en 1000 menn í sveit. Þeir eiga hægra með að ná í lækni og nota hann meira. Og eru þá ótaldar allar þær tekjur, sem læknar hafa af skipum, og veit jeg, að þær eru oft ekki litlar. Í sveit verða læknar að ferðast langt og fá lítið, og fleira mætti tilfæra. En jeg er ekki svo kunnugur, að jeg geti komið með ákveðna tillögu í þessa átt.