26.08.1919
Neðri deild: 45. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1150 í B-deild Alþingistíðinda. (1015)

26. mál, laun embættismanna

Þorsteinn Jónsson:

Jeg verð að gera dálitla grein fyrir lítilli brtt., sem jeg á á þgskj. 498, við brtt. nefndarinnar. Hún gengur út á að flytja Hróarstungulæknishjerað úr öðrum flokki og yfir í hæsta flokk. Þessi tillaga mín byggist á því, að læknafundurinn lagði það til, að þessu hjeraði væri skipað í hæsta launaflokk. Nefndin gerði litlar breytingar við tillögur læknafundarins, en í þessu tilfelli þóknaðist henni að víkja frá þeim. Þetta bygði háttv. nefnd á því, að hún taldi, að læknirinn í Hróarstunguhjeraði hefði haft svo miklar aukatekjur nú á síðustu árum, og vegna þess, hvað hjeraðið væri fólksmargt, ætti læknir þessi að vera í öðrum launaflokki. Ef ekki lægju önnur drög til þessa máls en þetta, þá hefði nefndin má ske haft rjett fyrir sjer. En hjer ber þess að gæta, að þetta hjerað mun vera eitt af erfiðustu hjeruðum landsins. Jeg býst við, að þar sje líkt á komið og með Síðuhjeraðið, sem háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) fer fram á samskonar málaleitun fyrir. Það er ekki rjett að taka eingöngu tillit til fólksfjöldans í hjeraðinu, heldur líka, og ekki síður, erfiðleika þeirra, sem eru á að gegna því. Hvað snertir þessar miklu aukatekjur, sem nefndin talar um, þá hygg jeg, að þær hafi verið meiri síðastliðið ár en venja er, vegna þess, að veikindi voru í meira lagi. Jeg vænti þess, að háttv. deild taki að minsta kosti jafnmikið tillit til þekkingar og álits læknafundarins á þessu máli og nefndarinnar.

Þó jeg eigi ekki fleiri brtt. við launafrv. en þessa einu, þá er jeg ekki alls kostar sammála nefndinni í öllu. Sumar þær breytingar, sem nefndin hefir gert frá frv. stjórnarinnar, tel jeg ekki rjettar, og kysi heldur, að óbreytt verði frá frv. stjórnarinnar. T. d. get jeg ekki felt mig við þá breytingu nefndarinnar, að miðað skuli við verðlagsskrá haustið 1914, í staðinn fyrir næsta haust á undan stríðinu. Háttv. frsm. (Þór. J.) tók fram þann mismun, sem þetta gerði, og var það rjett athugað, að það kæmi svo að segja í sama stað niður, hvort miðað væri við 35%, sem ætti að leggjast við verðlagsskrá haustið 1913, eða þá 25% við verðlagsskrá haustið 1914, eins og brtt. háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) og háttv. þm. Barð. (H. K.) fer fram á. Jeg kann betur við, að sú till. nái fram að ganga, og miðað verði við verðlagsskrá haustið 1913.

Hvað snertir þá till. sömu hv. þm., að reikna ekki uppbót nema af 3000 kr. launum, þá get jeg fallist á þá till. þeirra. Enda klofnaði nefndin um þetta atriði, og jeg var einn þeirra, sem áleit, að rjett væri að veita uppbót af 3000 kr. launum. Það eru að sjálfsögðu nauðþurftarlaun. Má ske mætti segja, að veita ætti uppbót jafnt af öllum launaupphæðum. En nú hefir stjórnin brotið þessa reglu, og við því er ekkert að segja.

Viðvíkjandi því, að gera mismun á launum presta til sveita og presta í kaupstöðum, er það að segja, að mjer hefði þótt eðlilegra, að uppbótin væri hin sama, en aftur kanni þetta fram á laununum, því að ef sveitaprestar þurfa ekki eins mikla uppbót og hinir, þá þurfa þeir ekki heldur jafnhá frumlaun. Þó jeg álíti, að ekki sje til neins að koma með brtt. í þá átt, vil jeg þó geta þess, að jeg tel ekki alls kostar rjett að miða við sveitapresta eingöngu, heldur alla þá embættismenn, sem búa í sveit, svo sem jafnt sýslumenn og lækna.

Og þess verður að gæta, að prestar verða að greiða afgjald af jörðum þeim, sem ríkið veitir þeim til ábúðar, en hingað til hefir það ekki verið talið verra að sitja á sínum eigin jörðum en leigujörðum að minsta kosti hefir svo verið litið á hjer á þingi. Það sýna þjóðjarðasölulögin.

Út í aðrar brtt. við frv. stjórnarinnar skal jeg ekki fara; jeg mun sýna það við atkvgr., hverja afstöðu jeg hefi tekið til þeirra.