30.08.1919
Neðri deild: 50. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1194 í B-deild Alþingistíðinda. (1027)

26. mál, laun embættismanna

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Eins og hv. deild er kunnugt, var mörgu breytt í þessu frv. við 2. umr. þess. Að vísu var það flest heldur smávægilegar breytingar. Og hvað sjálfa launaupphæðina snertir, þá námu breytingar við hana að eins 8 þús. kr. hækkun á öllu frv. En auk þess komu fram aðrar brtt, og vil jeg í fáum orðum drepa á þær og afleiðingar þeirra fyrir málið.

Það var samþykt þá meðal annars að slá því föstu, að haustið 1914 skyldi lagt til grundvallar fyrir þeim verðstuðli, sem miða ætti við, í staðinn fyrir haustið á undan stríðinu. Nefndin gekk ekki að því gruflandi, að þetta mundi hafa einhverjar breytingar í för með sjer, en hvað miklar vissi hún ekki. Enn fremur var sú breyting gerð, að í staðinn fyrir Reykjavík eina skuli miðað við vöruverð í 4 aðalkaupstöðum landsins. Nefndin hefir nú leitað til hagstofunnar til að fá vitneskju um, hver verðstuðullinn yrði. Og hún hefir gefið það upp, en þó álítur hún, að það sje ef til vill ekki alveg ábyggilegt, sökum þess, að ekki hafa enn fengist upplýsingar um verðið á einstöku vörum í kaupstöðum úti á landinu, og verði því á þeim vörum að miða við Reykjavík eina. Þessi mismunur verður þá sá, að miðað við haustið 1914 gerðu þeir uppbótarprócentuna hjer í Reykjavík 91%, í staðinn fyrir 102% þegar miðað var við júlímánuð. Þegar allir 4 kaupstaðirnir eru teknir með, lækkar þetta niður í 85%, með verðstuðlinum 2,34. Þetta hefir þau áhrif, að uppbótin lækkar töluvert. Í fljótu bragði er ekki gott að segja hvað mikið, en eftir því, sem komist verður næst, nemur það kringum 85 þús. kr.

Þá var og önnur breyting gerð á frv., sem hefir í för með sjer talsverða lækkun á útgjöldunum. Það er viðvíkjandi uppbót þeirra presta, sem eigi er skylt að búa í kaupstað. Var samþykt, að þeir skyldu fá hálfa launauppbót. Nú hefir nefndin ekki getað fengið þær upplýsingar, að neinir prestar sjeu lögskyldir að búa í kaupstað. Og telur hún því sjálfsagt, að þetta atriði verði tekið til nánari athugunar í háttv. Ed. Þessi breyting mundi valda því, að uppbótin til presta mundi lækka um rúmlega 100 þús. kr. frá því, sem nefndin lagði til. Ef miðað er við meðallaun presta og 96%, nemur þetta 109 þús. kr. Þegar alt er saman talið, verður hækkunin á frv. við 2. umr. um 190 þús. kr. Þó skal tekið fram, að þetta er að eins lauslega reiknað, því nefndinni vanst ekki tími til að gera það nákvæmlega.

Þá skal jeg gera stutta grein fyrir brtt. nefndarinnar við frv., eins og það er nú.

Það er þá fyrst brtt., nefndarinnar við 8. gr. frv. Hún fer fram á það, að auk þess, að talin skuli til embættisára þau ár, sem prestar hafa gegnt sem aðstoðarprestar, skuli hið sama gilda um þau ár, sem læknar hafa gegnt sem aukalæknar, og vegamálastjóri sem aðstoðarverkfræðingur. Nefndinni barst málaleitun um það, að taka læknana með og vegamálastjóra, og hefir hún fallist á það. Henni fanst ekki rjett að útiloka þessa menn, frekar en prestana. 8. gr. hefir því verið orðuð um.

Þá er næst brtt. við 11. gr., viðvíkjandi lögreglustjóranum á Siglufirði. Það kom sem sje fram við 2. umr. málsins, að rjett mundi að telja hann undir ákvæði 11. gr., um greiðslu á starfrækslu embætta. Nefndin hefir því leyft sjer að flytja málsgreinarnar til, þannig að 7. málsgr. verði 5.

Þá er brtt. við 15. gr. frv. Þar hafði háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.) flutt brtt. um póstþjónustustörfin, til þess að koma samræmi á við póstlögin. En svo hafði atvikast, að fallið hafa niður póstafgreiðslumenn.

En upp eru taldir bæði póstfulltrúar og fleiri starfsmenn. Hefir háttv. þm. (M. G.) ef til vill haldið, að póstfulltrúar kæmu í stað póstafgreiðslumanna, og þess vegna ekki viljað taka það heiti upp í lögin. En póstmeistari hefir nú lagt til, að svo verði gert. Mjer virðist því best að halda þessum gömlu nöfnum, en um það er ekki að ræða, að mönnum verði fjölgað með þessu, og launin haldast þau sömu og verið hafa.

Þá er brtt. við 17. gr. frv., sem fer fram á að hækka laun aðstoðarverkfræðinga vegamálastjórans og vitamálastjórans.

Fór vegamálastjórinn þess á leit við nefndina, og bar fram þær ástæður, að hann gæti alls ekki fengið menn fyrir þau laun, sem í boði væru, og hafi þegar mist einn góðan mann vegna þess.

Þess ber líka að gæta, að slíkum mönnum er nú svo hátt borgað fyrir verk sín, en laun þessara aðstoðarmanna eru nú lægri en laun símaverkfræðinga, sem hafa þó bæði minna starf með höndum og hafa ekki þurft annan eins undirbúning undir starf sitt og þessi verkfræðingur.

Nefndin hefir því lagt til, að hækkuð verði um 500 kr. bæði byrjunarlaun þeirra og hámarkslaun.

Jeg hljóp yfir það, að við 16. gr. var geymd brtt. frá 2. umr. um fulltrúa stöðvarstjórans á Seyðisfirði.

Þegar nefndin spurðist fyrir um þetta atriði hjá landssímastjóranum, reyndist það rjett, sem hún hafði haldið fram áður, að maður þessi er kostaður af símanum hjer.

Spurði nefndin, hvort Stóra norræna greiddi honum ekki kaup, þegar hann tekur við störfum stöðvarstjórans í fjarveru hans, og var því neitað.

Nefndin lítur því svo á, að hjer sje undir því komið, að stjórnin athugi þessa samninga, og fái lagfæringu á þessu, ef samningarnir heimila það, og er það því á valdi háttv. deildar, hvað hún gerir við brtt.

Þá skal jeg geta þess, að nefndinni bárust tilmæli um það frá landssímanum, að laun landssímastjórans yrðu hækkuð, en það gat hún ekki fallist á, en auðvitað telur hún sjálfsagt, að sú persónulega launaviðbót, sem hún hefir haft hingað til, haldist framvegis.

Þá kemur brtt. við 18. gr. Er þar skotið inn í vitaverðinum við Gróttuvita. Taldi nefndin sjálfsagt að verða við því, þar sem þetta er föst staða. En kjör hans eru hin sömu og verið hafa.

Þá er brtt. við 22. gr., um ritfje biskupsins. Var atkvgr. um brtt. um það geymd frá 2. umr. Nefndin vill hafa það í þessum lögum ákveðið 1000 kr. Áður hefir það staðið í fjárlögum, en þar sem ritfje landlæknis er sett í þessi lög, virðist meira samræmi í því, að hafa ritfje biskups einnig ákveðið í þeim. Nefndin áleit, að það gæti ekki verið minna en 1000 kr., og þar sem feld var hækkun á ritfje landlæknis, þá var það ekki með vilja nefndarinnar; hún telur það of lágt eins og nú er ákveðið.

Þá er brtt. við 23. gr., um laun prófessora við háskólann. Var feld við 2 umr. brtt. um hækkun á launum þeirra. Hafa nefndinni borist tilmæli um að lækka árabilið milli þess, er launin hækka, og hefir hún því komið með þessa brtt., að í staðinn fyrir 4 ár komi 3 ár.

Þá er brtt. við 25. gr. Nefndinni barst brjef frá forstöðumanni kennaraskólans, þar sem hann fer fram á, að hækkuð verði laun kennaranna við skólann. Eins og nú er, mundi verða ósamræmi í launum þeirra og launum kennara mentaskólans. Það var samþ. við 2. umr. að hækka laun þeirra, og eins og nú er í frv., gæti svo farið, að sá mismunur gæti orðið til þess, að kennaraskólinn misti kennara sína til mentaskólans.

En nefndin telur kennaraskólann svo þarfan, að ekki megi verða þess valdandi að ófyrirsynju, að hann missi af góðum mönnum úr þjónustu sinni. Nefndin vill því hækka laun þessara manna um 400 kr.

Þá er brtt. við 32. gr. Er þar farið fram á að lækka laun 1. bókavarðar og aðstoðarskjalavarðar og þjóðskjalavarðar. Samskonar brtt. hefir komið fram frá háttv. 2. þm. Árn. (E. A.), og mun hann hafa alt eins góð tök á því og jeg að rökstyðja þessar brtt. En nefndin taldi þessa hækkun sanngjarna. Að vísu falla ekki alveg saman till. hennar og till. hv. 2. þm. Árn. (E. A.), en þar er þó mjóst á mununum.

Þá er brtt. við 33. gr. frv. Samkvæmt upplýsingum frá hæstv. stjórn er ekki ætlast til, að uppbót sú, sem ákveðin er í þessari grein, nái til annara starfsmanna en þeirra, sem nefndir eru í lögum þessum. En eins og þegar hefir verið tekið fram, var þetta ekki nógu skýrt, og hefir nefndin því komið fram með brtt. þessa, svo að enginn misskilningur geti komist að.

Hins vegar telur nefndin það víst, að hæstv. stjórn geri ráðstafanir til þess, að öðrum starfsmönnum verði einnig veitt hæfileg dýrtíðaruppbót.

Þá er loks brtt. við 34. gr. Jeg skal geta þess, að þar er prentvilla, stendur „37. gr.“ fyrir ,,34. gr.“. Vill nefndin fella burtu orðin: ,,um laun og aukatekjur embættismanna“. Með því móti tekur greinin yfir öll þau lög, sem farið gætu í bága við þessi lög. En svo þyrfti ekki að vera, ef þessi orð stæðu í greininni.

Þá hefir nefndin ekki komið með fleiri brtt., en frá einstökum þm. hafa einnig komið fram nokkrar brtt., og skal jeg drepa lauslega á þær.

Fyrst skal jeg þó minnast á brtt. hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), um laun fulltrúanna í stjórnarráðinu. Var atkvgr. um hana geymd frá 2. umr. Meiri hluti nefndarinnar hefir fallist á hana og leggur til, að hún verði samþ.

Nefndinni bárust tilmæli um það, að taka upp aðstoðarmenn í stjórnarráðinu, en það gat hún ekki fallist á, þar sem val þeirra manna þarf ekki að vanda svo mjög; þeir þurfa ekki að vera lögfræðingar, eins og fulltrúarnir.

Þá skal jeg líka geta þess, að nefndinni barst erindi frá forsetum Alþingis um það, að taka skrifstofustjóra Alþingis upp í lög þessi og gera starf hans að fastri stöðu, með 4000 kr. launum, sem hækkuðu upp í 5000 kr. Meiri hluti nefndarinnar var þessu hlyntur, aðallega af þeim ástæðum, að hann telur ekki heppilegt, að skrifstofustjórinn sje skipaður af forsetum til nokkurra ára í senn, og þar af leiðandi valið á manninum háð ýmsum pólitískum stundarástæðum, sem ekki þurfa að vera sem heppilegastar.

Þess er því full þörf, að þetta sje gert að föstu starfi, svo að trygt sje, að góður maður fáist og gegni starfinu sem lengst.

Auk þess eru laun núverandi skrifstofustjóra mjög svo lág, miklu lægri en laun starfsmanna skrifstofunnar. Munurinn mun vera nálægt 6 kr. á dag. Aftur á móti starfar hann nú orðið alt árið, og að minsta kosti um þingtímann er starfið afskaplega mikið, miklu meira en gerist á nokkurri annari skrifstofu.

En þessu til hindrunar var það, að þingsköpin mæla svo fyrir, að forsetar ráði manninn til þessa starfs og ákveði kaup hans, og vildi nefndin ekki ráðast í það, að breyta þingsköpunum. Að vísu hjeldu sumir, að hjá því yrði komist, en aðrir töldu það ekki hægt. En á það skal jeg engan úrskurð leggja. En þeir, sem málinu voru hlyntir, vænta þess, að það verði tekið til athugunar í Ed.

En hins vegar er það alveg á valdi hæstv. forseta að gera svo vel við manninn, að við megi una.

Þá kem jeg að brtt. háttv. þm., og skal jeg nú drepa að eins lauslega á þær. Nefndin, sem slík, hefir að vísu ekki tekið neina afstöðu til þeirra, og eru því atkv. nefndarmanna um þær frjáls og óbundin.

Þá skal jeg fyrst minnast á brtt. á þgskj. 566, frá hv. 1. þm. Árn. (S. S.) og hv. þm. Borgf. (P. O.). Fyrsti liður fer fram á, að lágmarks- og hámarkslaun lækna verði lækkuð um 500 kr. En jeg býst ekki við, að till. þessi verði borin undir atkv., þar sem hún er samhljóða till., sem feld var við 2. umr. málsins. Annar liður brtt. fer fram á að lækka nokkra liði í frv., og skal jeg sem minst um það segja. Það er sami nurlaraskapurinn, sem þar gægist fram og áður, að klípa utan af hjer og þar. En háttv. deild hefir sýnt, hvaða augum hún lítur á slíka sparsemi. En síðasti liður brtt., sem fer fram á að lækka laun dýralækna, virðist ekki vera í sem bestu samræmi við það, sem áður er fram komið hjá háttv. 1. þm. Árn. (S. S.), því ef hann vill fjölga dýralæknisembættum, er það tæplega gert með það fyrir augum, að enginn maður fáist í þau embætti. En við því þarf ekki að búast, ef ekki er fyrir því sjeð, að þeim geti liðið þolanlega.

Þá er brtt. við 11. gr., frá háttv. þm. Barð. (H. K.). Fer hún fram á, að Barðastrandarsýsla verði færð upp í annan flokk.

En þá yrði mjóst á mununum með það, að sýslumenn væru allir hafðir í sama flokki þeir, sem ekki eru bæjarfógetar um leið. En brtt. um það var feld við 2. umr.

Jeg þykist vita það, að erfiðara sje yfirsóknar í Barðastrandarsýslu, og Strandasýslu sömuleiðis, en víða annarsstaðar. En jeg lít svo á, að ef þetta verður samþ., þá sje best að hafa alla sýslumenn í sama flokki.

Þá er brtt. við 12. gr., um að færa til flokkun læknishjeraðanna. Við 2. umr. var samþykt samskonar till., og er því nokkuð farinn að raskast grundvöllur sá, sem sú flokkun bygðist á í öndverðu.

En um staðhætti þá, sem brtt. um getur, er mjer ókunnugt, og mæli jeg því hvorki með henni nje móti.

Þá er brtt. við 26. gr., frá háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó), um það, að hámarkslaun skólastjórans á Eiðum hækki úr 3200 kr. upp í 3600 kr. á ári.

Hefir verið á þetta minst við nefndina, en hún hafði áður hækkað laun þessi frá því, sem var í stjórnarfrv., og þar sem maður þessi hefir ókeypis húsnæði, ljós og hita, þá virtist nefndinni ekki þörf á frekari launahækkun.

Þá er aðalbreytingin, á þgskj. 559, við 33. gr. Hún hljóðar svo: „Auk hinna föstu launa fá allir embættis- og sýslunarmenn landsins, fyrst um sinn til ársloka 1925, launauppbót, sem miða skal við verðhækkun á helstu lífsnauðsynjum frá 1. okt. 1914.“

Hjer eru því sett takmörk, hve lengi eigi að gilda þetta aðalákvæði laganna í 33. grein.

Jeg skal nú ekki mikið um þessa brtt. segja. Jeg lít svo á, að það verði að vera komið undir rjettlæti þingsins, hversu lengi ákvæði þetta yrði framlengt.

Hins vegar er þessi takmörkun algerlega óþörf, ef launin eru nú rjett ákveðin, því að auðvitað hverfur þessi dýrtíðaruppbót um leið og verðhækkunin hverfur, þar sem miðað er við verðlagsskrá.

En ef ríkissjóði yrði það nú algerlega ofvaxið að greiða embættismönnunum eftir lögum þessum, og senda yrði þá heim, þá mætti eins gera það án þessa ákvæðis. Ákvæðið er því algerlega óþarft.

Þá er 2. liður brtt., að fyrir „3000 kr.“ komi: 2400 kr. Það er launaupphæð sú, sem reikna skal af dýrtíðaruppbótina, sem þar er farið fram á að lækka.

Í stjórnarfrv. er miðað við 4500 kr. þurftarlaun, og hefir nú verið margsýnt fram á það með rökum, að ekki verður komist af með minna.

En eftir till. þessari er miðað við 3600 kr. þurftarlaun.

Rjettlæti virðist því ekki vera neitt í brtt. þessari. En telja má víst, þótt jeg hafi enn þá ekki haft tækifæri til að rannsaka það nákvæmlega, að það, sem vinst með henni, fari ekki fram úr 50 þús. kr., enda hafa flm. hennar komist að svipaðri niðurstöðu. Það má því segja, að þetta dragi hvorugan.

Þess ber líka að geta, að í frv. er að eins miðað við þær ástæður, sem nú eru, svo að uppbótin verður ekki tilfinnanleg fyrir ríkissjóð, þegar verðlag lækkar aftur.

Meiri hluti nefndarinnar getur því ekki verið með brtt. þessari.

Það er þá ekki fleira, sem jeg vildi taka fram, enda hefir málið nú verið rætt svo mjög, að jeg held, að ekki þýði lengri umr.