08.09.1919
Neðri deild: 58. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í B-deild Alþingistíðinda. (103)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Þórarinn Jónsson:

Jeg hefi litla lyst til að tala hjer fyrir auðum bekkjum, þar sem jeg þá auk þess er kvefaður og illa heyrist til mín.

En jeg á hjer brtt. á þgskj. 691, sem jeg hefi leyft mjer að bera fram sem nokkurskonar prófstein á hv. fjárveitinganefnd. Fer þessi brtt. fram á það að samræma styrkina, sem veittir eru Núpsskólanum, Hvítárbakkaskólanum og Hvammstangaskólanum. Jeg hjelt fyrst, að fjárveitinganefnd hefði gert það af ráðnum hug að gera mun á skólunum, og fanst mjer þá eðlilegt, að Hvammstangaskólinn væri settur lægst, þar sem hann er yngstur þessara skóla. En nú hefir þessu verið breytt síðan þannig, að Hvítárbakkaskólinn hefir verið hækkaður, millibilið milli skólanna lengt upp í 1000 kr. Hefi jeg gert till. um að færa Hvammstangaskólann upp um 500 kr., og til vara að lækka hina. Gerði jeg það vegna þess, að jeg áleit aðalstyrkveitinguna fremur of lága en of háa. Aftur bjóst jeg við, að hv. fjárveitinganefnd myndi hækka þessa aðalstyrksupphæð, því að það kom fram í umræðunum, að hún væri of lág.

Ástæður hv. frsm. fjárveitinganefndar (B. J.) á móti till. minni voru alls engar. Hann gat þess að eins, að nefndin gæti ekki stutt hana. Hann sagði líka, að aðalstyrksupphæðin væri of lág. Það var ekki á mínu valdi að hækka hana, enda, eins og jeg tók fram, bjóst jeg við till. frá nefndinni um það, en setti þó þessa varatillögu, svo að ekki væri tekið frá hinum skólunum, sem ekki eru nafngreindir ef aðalupphæðin yrði ekki hækkuð. Býst jeg því við að hv. deild sjái, að hjer er ekki um neina ósanngirni að ræða.

Jeg hygg, að mjer sje óhætt að fullyrða, að þessi skóli sje ekki svo óefnilegur að rjett sje að gera meiri mun á honum og hinum en upphaflega var. Það er vitanlegt öllum, að þessi skóli hefir tekið miklum framförum upp á síðkastið í starfi sínu. Nú í vetur er Núpsskólinn starfaði ekki en þessi skóli starfaði, var hann sóttur af nemendum úr ýmsum hjeruðum landsins. Maður sá, er fyrir skólanum stendur, er sjerstaklega mikill áhugamaður og víðs vegar þektur og viðurkendur sem góður kennari.

Jeg vænti nú, að till. þessi verði samþykt á annanhvorn veginn, til þess að samræma styrkinn til skólanna.

Enn skal jeg drepa á eina ástæðu, sem borin hefir verið fram til að rjettlæta það að þessi skóli fengi minni styrk. En það er sú ástæða að hann sje í kauptúni en hinir skólarnir í sveit. Það er rjett, að skólinn er í kauptúni af því að hann hefir ekki getað fengið jörð. En það er ekki ástæða til að styrkja hann minna, heldur einmitt þvert á móti, því að það er dýrara að halda uppi skóla í kauptúni en í sveit. Þessi ástæða er því frekar til að mæla með því, að þessi skóli sje gerður jafn hinum. En það viðurkenni jeg rjettlátt, að hann sje lægri þar sem hann er yngri, en að millibilið væri meira taldi jeg ekki rjettlátt.