30.08.1919
Neðri deild: 50. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1213 í B-deild Alþingistíðinda. (1032)

26. mál, laun embættismanna

Einar Arnórsson:

Jeg skal fyrst snúa mjer að brtt. mínum á þgskj. 560. Jeg sje, að háttv. nefnd hefir tekið nokkur atriði, sem þar standa, til greina í brtt. sínum á þgskj. 585. 8. brtt. nefndarinnar er sama sem 1. brtt. mín. Enn fremur er 9. brtt. nefndarinnar nálega eins og a- og c-liður í 2. brtt. minni. Að eins setur nefndin hámark launa bókavarðarins og skjalavarðarins 200 kr. lægra en jeg legg til. En þetta er svo lítill munur, að jeg get tekið mínar brtt. aftur. Eru því teknar aftur brtt. 1. á þgskj. 560 og liðirnir a.–c. í 2. brtt. á þgskj. 560.

Aftur á móti stendur brtt. mín 2. d. Nefndin leggur raunar til að hækka þann lið um 500 kr. bæði að ofan og neðan, en mín till. fer fram á það, að þessi maður, þjóðmenjavörðurinn, verði að öllu leyti látinn hafa sömu kjör sem landsbókavörðurinn og þjóðskjalavörðurinn, enda sje jeg ekki, hvað rjettlætt geti þann mun, sem gerður er á launakjörum þeirra. Mjer skilst, að þeir sjeu hver um sig æðstu menn í sinni grein, og virðist verk hans engu ómerkara en hinna, sem sje það, að hlúa að fornminjum og þjóðfræði landsins. Mjer skilst, sem ekki muni síður þurfa sjerþekking til þess að rækja það starf en starf hinna. Jeg vil því eindregið mæla með því, að þessi till. mín verði samþykt, svo að þessi maður verði gerður jafn hinum.

Hæstv. forsætisráðherra (J. M.) var að reikna út og bera saman álit mentamálanefndar um sameining safnstjórnanna og launin til safnamannanna eftir þessu frv. og till. nefndarinnar og greinargerð minni. Þótti honum, sem þetta bæri ekki vel heim. Stjórnin hafði stungið upp á 2500 kr. að meðaltali til aðstoðarbókavarða og skjalavarða. En 3500 kr. til bókavarðar og skjalavarðar að meðaltali. Nefndin og jeg leggjum til, að bókavörður og skjalavörður fái sömu laun, þ. e. 3500 kr. að meðaltali. Ef frv. stjórnarinnar um sameining safnanna hefði verið samþykt, þá er enginn vafi á því, að bókavörður og skjalavörður mundu eigi hafa látið sjer nægja með það, sem stungið er upp á frv. stjórnarinnar til aðstoðarbókavarðar og skjalavarðar, heldur talið sjálfsagt, að launin yrðu hækkuð í svipaða átt sem gert er í till. nefndarinnar. En alveg sama máli gegnir í rauninni, þótt frv. stjórnarinnar hafi verið felt. Þessir menn geta ekki gert sig ánægða með minna en nefndin leggur til, enda var gert ráð fyrir alveg sömu upphæð í áliti mentamálanefndar. Annars hefi jeg ekki ástæðu til að fjölyrða um það frv., sameining safnanna; sá dauði hefir sinn dóm með sjer.

Þá skal jeg snúa mjer að nokkrum brtt., og fyrst að b-lið 2. brtt. á þgskj. 566, sem er við 13. gr. frv. og lýtur að því, að lækka launabót þá, er Laugarneslæknirinn hefir notið og nýtur samkvæmt frv. Launabót þessi mun svo til komin, að með henni hefir verið ætlast til þess, að lækninum væri þóknað fyrir kenslu við læknadeild háskólans og bætt upp húsnæði það, sem honum var ætlað í spítalanum, en ekki er hægt að nota. Læknarnir við hina spítalana hafa enga kensluskyldu, en þessi maður hefir kent lyfjafræði um langt skeið og ekki fengið neitt fyrir það sjerstaklega. En húsnæði það, sem lækninum er ætlað í spítalanum, hefir honum ekki verið unt að nota. Þar sem því hjer er um að ræða hæði uppbót fyrir húsnæði og þóknun fyrir kenslu, þá virðist nefnd brtt. á þgskj. 566 mjög ósanngjörn, enda hefir annar flm. (S. S.) látið mig skilja það, að hann myndi ekki halda henni til streitu.

Þá skal jeg fara nokkrum orðum um brtt. á þgskj. 559, sem er frá háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.). (Sv. Ó.: Jeg er ekki einn flutningsmaður). Nei, en óhætt mun að telja háttv. þm. (Sv. Ó.) fyrir henni og heimfæra upp á hann talsháttinn: Sjer eignar smalamaður kindurnar, þótt enga eigi.

Fyrri brtt. fer fram á það, að uppbótin verði eigi veitt lengur en til ársloka 1925. Mjer er nú ekki alveg ljóst, hvað liggur í þessari brtt., en eftir orðalagi hennar virðist mega koma að tveim skýringum jafnrjettháum. Í fyrsta lagi má skilja hana svo, að dýrtíðin eigi ekki að standa lengur en til 1925, hvernig sem verðið er, og er það sama og að lögleiða, að dýrtíðin hætti 31. desember 1925. En í annan stað má skilja brtt. svo, sem til sje ætlast, að endurskoðun laganna fari fram 1925; en ef sá hefir verið tilgangurinn, hví er það þá ekki sagt berum orðum? Ekki er þó svo erfitt að finna rjett orð um þá hugsun, ef verið hefir sú.

Þetta er þó ekki hægt að leiðrjetta hjer nú, með því að nú er 3. umr., en ef til vill væri það hægt í Ed. Hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) sagði, að 1925 myndi allur almenningur hafa fengið nóg af því, að þurfa að greiða þetta gjald. Jeg skal nú ekkert um það segja, hversu rjettur þessi spádómur hins hv. þm. kunni að reynast, en það virðist liggja beinast við, að ef það „fænomen“, sem hinn hv. þm. (Sv Ó.) kallar almenning, treystir sjer ekki til þess að greiða starfsmönnum sínum sanngjarnt kaup, þá hætti almenningur að hafa þessa starfsmenn. Það má vel vera, að þetta sje hægt um suma starfsmenn og sumar stofnanir. Það má sjálfsagt draslast af án skóla, safna o. s. frv. Þar á móti verður ekki hægt að komast af án löggæslu, lögreglu og dómara, nema almenningur 1925 verði orðinn hreinn og lýtalaus. Að minsta kosti verður þá ekki komist af án innheimtumanna, því að hvernig sem alt fer, þá verður ekki þá hætt við að leggja vegi eða halda við vegum, brúm, vitum og öðrum samgöngutækjum. Almenningur getur eftir þessu ekki 1925, fremur en áður, sloppið hjá því að hafa sýslumenn, og þeim verður vafalaust að greiða laun, og ef til vill dýrtíðaruppbót. Það má nú vel vera að uppbótin verði þá eitthvað lækkuð, en samt eru engar líkur til þess, að dýrtíðin verði úti 1925, jafnvel þótt uppbót sje miðuð við haustið 1914, en þá var þó verðhækkun orðin 6–8% meiri en haustið 1913, að því er fróðir menn telja.

Sami hv. þm. (Sv. Ó.) sagði einnig, að embættismenn ættu að taka þátt í dýrtíðinni: það væri óviðurkvæmilegt, að allur almenningur tæki þátt í dýrtíðinni, en embættismenn lifðu eins og kóngar. Jeg get tekið undir þessi orð, að minsta kosti að nokkru leyti. En jeg veit ekki til þess, að starfsmenn landsins hafi skorast undan að gera þetta, svo að þessi orð hans eru alveg út í bláinn. Starfsmenn landsins hafa tekið þátt í dýrtíðinni, og það svo, að varla nokkrir menn hafa gert það framar, að minsta kosti mikill hluti þeirra, sjerstaklega þeir, sem búsettir eru í kaupstöðunum, því að þeir hafa mátt bera dýrtíðina jafnt á innlendum sem útlendum vörum, en sveitabúar hafa yfirleitt ekki þurft að bera annan verðauka en þann, sem lagðist á útlendar vörur. Verðhækkunin árið 1919 er langsamlega miklu meiri en dýrtíðaruppbótin, sem starfsmenn landsins fá. Dýrtíðaruppbót var fyrst veitt 1915 og skyldi þá nema 5–25%, og að auki 10 kr. fyrir hvern mann, sem starfsmaðurinn framfærði. Síðan var á aukaþinginu 1910–1917 reiknað út, að dýrtíðin hefði aukist margfaldlega frá því 1915, og viðurkendi þingið það með þingsályktunartillögu um dýrtíðaruppbót, sem ekki var óríflega tiltekin, þótt ekki nemi hún nándar nærri þeirri verðhækkun nauðsynja, sem hagstofan hafði reiknað út. En þingið 1917 lækkaði dýrtíðaruppbótina frá aukaþinginu 1916–1917 að töluverðum mun, og hafði þá verið sýnt og sannað, að dýrtíðin hafði enn aukist að töluverðum mun.

Um dýrtíðaruppbótarlögin frá í fyrra er það fyrst að segja, að eftir þeim fá nokkrir alls enga dýrtíðaruppbót, og hafa í rauninni alls ekki fengið hana enn þá, og þeir, sem hafa fengið hana, hafa fengið frá 20% til 30% þegar best lætur. Sá, sem hefir 3000 kr. laun, fær 1000 kr., og auk þess 50 kr. fyrir hvert barn undir 16 ára aldri, sem hann hefir til framfærslu. Það sjá allir strax í hendi sjer, að þetta er 30% eða eitthvað lítillega þar yfir eftir barnafjöldanum; það þarf ekki að reikna það nánar. En samtímis því, er embættismenn og opinberir starfsmenn fá þessar 30% bætur, þá er það fullsannað, og ekki ofsagt að þrefaldast hafi verð á allri nauðsynjavöru frá því, sem það var fyrir stríðið. Með öðrum orðum fæst ekki meira fyrir 3 kr. nú en þá fyrir 1 kr., síst meira að minsta kosti, og hjer í Reykjavík geri jeg ráð fyrir, að 3 krónur endist trauðla eins vel og 1 króna fyrir stríðið. Þegar litið er á hækkun hinna ýmsu nauðsynjavara, þá sjest, að þær hafa hækkað meira í verði en jeg sagði um kaupmagnið. Kolatonn kostaði lengi 325 kr., síðan 300 kr. og nú 200 kr. Sje gætt að, hvað kolatonn kostaði fyrir stríðið, þá var það ekki yfir 30 krónur, og jeg veit, að hægt var að fá það fyrir 20 kr. Hjer eru því 10 krónur til kolakaupa ekki betri en 1 króna var fyrir stríðið.

Á steinolíu hefir verðið þrefaldast eða fjórfaldast frá því, sem það var, og mjólkurverð hjer í Reykjavík hefir fjórfaldast. Í vetur kostaði einn lítri af mjólk 80 aura en fyrir stríðið kostaði hann 20 aura.

Ekki þarf að minna á kornvöruna í þessu sambandi; það hafa allir hv. þingdeildarmenn þurft að kaupa hana, þó þeir hafi ekki allir þurft að kaupa kol. Það vita því allir, að verð hennar hefir meira en þrefaldast frá því sem var fyrir stríðið.

Smjörverð hefir verið mismunandi hjer í Reykjavík fyrir stríðið, en það mátti fá gott smjör fyrir 1 krónu pundið, en í vetur kostaði það 3 kr. 50 aura; verð þess hefir því margfaldast með 3½.

Kjötið kostaði 30 aura fyrir stríðið, en í vetur kostaði það 90 aura. Það hefir því þrefaldast.

Það er alment áætlað, að húsaleiga hjer í Reykjavík hafi hækkað um 150%, og er það það sama og húsaleigan fyrir stríðið margfölduð með 2½.

Hagstofan telur, að meðalverðhækkun á nauðsynjum þeim, er hún telur upp, sje 225%, eða með öðrum orðum verðið fyrir stríðið margfaldað með 3¼.

Þar sem það er jafnsannanlegt og það er, að dýrtíðaruppbót starfsmanna landsins hefir hæst numið 20–30%, þá er ekki rjett að halda því fram, að þeir hafi ekki tekið þátt í dýrtíðinni. (Sv. Ó.: Jeg hefi ekki sagt það). Því var hv. þm. þá að fimbulfamba um, að þeir lifðu eins og kóngar, þegar almenning brysti? Hvað átti það markleysuhjal þá að þýða?

Þá er að athuga, hvort þeir taka ekki þátt í henni eftir þessum launalögum.

Verkamenn hafa alment fundið sig knúða til að hækka kaup sitt, því ella hefðu þeir ekki getað lifað. Þetta er eðlilegt, því það verða að vera rjett hlutföll milli kaupsins og vöruverðsins. Jeg veit ekki til, að neinn atvinnurekandi hafi talið þessa kröfu þeirra ósanngjarna. T. d. útgerðarmenn, er þurfa menn til eyrarvinnu, þeir hefðu að sjálfsögðu heldur ekki getað spornað við því, að kaup verkamannanna hefði hækkað í hlutfalli við vöruhækkunina. Við Sláturfjelag Suðurlands ráða bændur, og þeir hafa viðurkent þetta, með því að hækka laun forstjórans um 100%, eða úr 6000 kr. upp í 12000 kr., og jafnframt því og mjer var sagt þetta, spurði jeg að því, hvort laun annara starfsmanna Sláturfjelagsins hefðu ekki líka verið hækkuð, og var mjer sagt, að þau hefðu verið hækkuð að sama skapi. Fjelagsstjórnin taldi þetta nauðsynlegt, því hún þyrfti að hafa góða menn í þjónustu fjelagsins og góð stjórn sjer, að þetta beinlínis borgar sig. Þeir sjá það, að það er ekki heppilegt að fá óreynda og óvana menn fyrir vana og góða. Og þetta viðurkenna allir glöggskygnir menn að rjett er. Það þarf því síst að bera bændum það á brýn, að þeir skilji ekki og þeim sje ekki ljós þessi nauðsyn. Þeir breyta og samkvæmt því.

Hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) telur víst, að ef frv. stjórnarinnar verður samþykt óbreytt, þá taki embættismenn og starfsmenn landsins ekki þátt í dýrtíðinni. Það er undarlegt, að hv. þm. skuli halda fram jafnmikilli fjarstæðu, eftir að hafa skoðað frv. og eftir að það er sýnt og sannað, svo sem jeg hefi t. d. gert nú, að þeir hafa tekið þátt í henni.

Í frv. stjórnarinnar er svo fyrir mælt, að dýrtíðaruppbót skuli ekki veita af meiru en 2/3 hlutum launanna, og ekki af hærri upphæð en 3000 krónum.

En jeg hygg það ómótmælanlegan sannleika, að með þeirri uppbót, er frv. frekast heimilar, fær enginn jöfn laun og í normalári fyrir stríðið, þ. e. a. s. getur keypt eins mikið af nauðsynjum fyrir launin nú og þá var.

Þegar litið er á 33. gr. frv., þá vantar þar ýmsa liði, sem eru mjög tilfinnanlegir og hafa hækkað mikið í verði. Þar vantar t. d. kolin. Þeim lið mun vera slept, af því að ekki allir embættis- eða sýslunarmenn þurfa að nota þau. Sumir þeirra nota innlent eldsneyti, sjerstaklega þeir, sem búa í sveitum og í smærri kauptúnum, þar sem er gott mótak, en annarsstaðar eru menn neyddir til að nota kol, og svo má segja að sje hjer í Reykjavík. Með því verði — 200 kr. á tonni — sem nú er á þeim, er lágt talið að segja, að verð þeirra hafi áttfaldast, rjettara tífaldast, eins og jeg sýndi fram á áðan. Þá er olían ekki talin; hún hefir meira en þrefaldast, og loks er húsaleigan ekki talin, en hún hefir hækkað geysimikið hjer í Reykjavík, líklega tvö- til þrefaldast.

Um skatta og gjöld er þess að geta, að það hefir stórhækkað, og jeg efa ekki, að öll almenn, opinber gjöld hafi minst hækkað um 100%, eða margfaldast með 2. Og þar sem hv. þm. (Sv. Ó.) vill láta færa hámarkið niður í 2400 kr., þá vill hann láta þá taka enn þá meiri þátt í dýrtíðinni en þeir gera eftir frv. stjórnarinnar.

Hv. deild verður að gæta þess, að með breytingum þeim. er hún hefir gert á 33. gr., sjerstaklega með því að miða við haustið 1914, hefir hún lækkað uppbótina að minsta kosti um 6–8%, og líklega meira. Þá hefir enn fremur verið samþykt að miða verðlagið ekki einvörðungu við Reykjavík, heldur við fjóra aðalkaupstaðina: þetta, sem að öllu var gert í blindni, lækkar uppbótina. (S. S.: Það var gert í góðri meiningu). Það er ekki góð meining að gæta ekki rjettlætis, en ef það er góð meining að spara í blindi, jafnvel þótt krónan tapist fyrir að spara eyrinn, þá er það góð meining. Það er ranglæti að lækka vísitöluna, þegar ekki er unt að lækka útgjöldin; það er ranglæti við þá mörgu embættis- og starfsmenn, er hjer búa, þegar vísitala Reykjavíkur er með þessu lækkuð úr 2,5 niður í 2,2. Það hefði mátt segja, að vit væri í þessu, ef uppbótin hefði átt að fara eftir því, hvar embættismaðurinn var búsettur, þannig að Austfirðingar fengju dýrtíðaruppbót eftir vísitölu Seyðisfjarðar, Vestfirðingar eftir Ísafirði o. s. frv. En þetta hefir ekki verið gert. Ef hjer er nokkur munur, þá er principið að hengja smiðinn fyrir bakarann. Annars er það harla hjákátlegt, að samþykt skuli vera hjer till., sem enginn veit hver áhrif hefir, — og því var marglýst yfir við 2. umr. — eingöngu vegna þess, að menn hafa eitthvert óljóst hugboð um, að það kunni að vera að því einhver sparnaður. Þó að flestum mönnum sje með því gert rangt til, þá líta menn ekkert á það.

Það er oft talað um það, að embættismennirnir sjeu þjónar þjóðarinnar. Það er rjett, en þá verður líka að taka afleiðingunum af því, og þá verður þjóðin að hegða sjer eins og heiðarlegur vinnuveitandi. Það hafa nú allir heiðarlegir vinnuveitendur hækkað laun, með tilliti til dýrtíðarinnar, en þessum eina vinnuveitanda virðist það ekki vera ljóst enn, að hann verður um þetta að gera sem aðrir og gera skyldu sína. Það má vera, að það lánist nú að verða ekki við sanngjörnum kröfum, en það er áreiðanlegt, að það lánast ekki til frambúðar. Þó þeir menn, sem nú gegna embættum, hangi í þeim á meðan þeim endist líf og heilsa, þá er það víst, að framvegis munu allir framsæknir og duglegir menn gefa sig að öðru. Þeim dettur ekki í hug að láta dæma sig til fátæktar og örbyrgðar alla æfi. Þeir vilja heldur vera sjálfráðir ferða sinna og vera þar sem þeim er ekki varnað að komast áfram og verða sjálfstæðir menn. Þetta er auðsæ afleiðing af því, ef landið launar störf sín ver en einstakir menn gera að meðaltali.

Hvort þetta er heppilegt fyrir þjóðfjelagið skal jeg yfirláta öðrum að dæma um; þó vil jeg halda því fram, að það sje ekki hallkvæmt fyrir ríkið, því afleiðingin er sú, að starfsmennirnir verða að þjóna annarlegum guðum, svo þeir geti lifað. Og síðastliðin ár hefir það verið svo, að allur þorri þeirra hefir ekki getað lifað af laununum, og því hafa ýmsir þurft að gefa sig að ýmsri aukavinnu, til að geta framfleytt sjer og sínum. Þetta er ekki heppilegt, en það má hver lá það, sem vill. Það er megnasta ósamkvæmni í því, þegar menn eru að japla á því, að starfsmenn inni illa af hendi störf sín, og vilja svo ekki laga laun þeirra svo, sem rjettmætt er, og svo, að þeir geti óskiftir og með alúð gefið sig að starfinu.

Landsstjórnin stendur ekki vel að vígi, þótt hún vildi vanda um. Eins og nú er, geta embættis- og sýslunarmennirnir hvorki lifað nje dáið, og þó að landsstjórnin vildi vanda um aukaverk þeirra og segja þeim að hypja sig burtu, hvað ynnist með því? Ekkert, því þeir sem við tækju — ef nokkrir væru — sæktu strax í sama farið það gerir hinn brýni sannleiki, að þeir geta ekki lifað á laununum. Það er víst og satt, að menn geta ekki lifað á þeim launum, er ríkið greiðir.

Jeg vjek áðan að afstöðu bænda, er standa fyrir fyrirtækjum, til þessa máls, og vil í því sambandi minnast á aðra stofnun, sem sje Búnaðarfjelagið. Býst jeg við, að stjórn þess hafi sjeð, að ekki væri gerlegt að hafa menn í þjónustu sinni fyrir sama kaup og áður, enda veit jeg ekki betur en að kaup forseta þess hafi verið hækkað um 150%, og mun þó ekki of hátt. Á sama hátt hefir kaup stjórnarinnar hækkað. Nýja menn hefir fjelagið ráðið með hærra kaupi en skólakennarar hafa, og að sjálfsögðu mun fjelagið hafa hækkað kaup eldri starfsmanna sinna að sama skapi.

Sama nauðsyn hefir knúð fjelagið til að sækja til þingsins um margfalt hærri styrk á fjárhagstímabili en það hefir áður haft, og hefir fjárveitinganefnd orðið vör við hana, þar sem hún leggur til, að tillagið til Búnaðarfjelagsins verði þrefaldað.

Þann sannleik, að peningar hafi lækkað í verði, eða m. ö. o., að vara og vinna hafi hækkað í verði, má sjá í hverju þingskjali, þar sem nokkur leið hefir verið til að koma því að. Í öllum skattafrumvörpum er vísað til þess, hve stórkostlega kaupmagn peninga hafi minkað.

En þó menn viðurkenni þennan sannleik í sumum tilfellum, virðist sem þeim sje sjerstaklega óljúft að viðurkenna hann í þessu máli. Og þótt menn viðurkenni hann í orði, vill annað verða á borði. Margir hv. þm. setja rjettar forsendur, en leiða svo af þeim ramskakkar ályktanir, en það er ekki ný bóla, að það sje gert hjer á þingi.

Jeg skal svo ekki þreyta menn með lengra máli. Ræða hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) neyddi mig til að koma með þessar athugasemdir. Öllum er ljóst, að starfsmenn ríkisins hafa tekið þátt í dýrtíðinni og munu gera það, þó að frv. þetta verði samþ. í þeirri mynd, sem það nú er.