30.08.1919
Neðri deild: 50. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1223 í B-deild Alþingistíðinda. (1033)

26. mál, laun embættismanna

Sigurður Sigurðsson:

Það hefir litla þýðingu að ræða frekar um mál þetta en orðið er. Atkvgr. hefir þegar farið fram um flestar greinar frv., og er öllum kunnugt, hvernig hún hefir farið.

En af því að jeg á brtt. á þgskj. 566, ásamt þm. Borgf. (P. O.), vildi jeg mega segja nokkur orð í sambandi við hana.

Þó að tilraunir mínar, sem fóru í þá átt, að draga úr launum hinna hæstlaunuðu embættismannanna og jafna laun starfsmanna ríkisins, bæru ekki tilætlaðan árangur, get jeg hins vegar, eftir atvikum, sætt mig við frv., eins og það er, að undanteknum 12. og 33. gr., sem jeg tel lítt við unandi, eða öllu heldur óviðunandi.

Það hafa verið gerðar brtt. við 33. gr„ en lítið áunnist. Nú er á ferðinni brtt. á þgskj. 559, frá hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) o. fl., er gengur í þá átt að laga hana. Ætla jeg ekki að ræða um þá brtt., því hún hefir þegar vakið miklar umræður, en verði hún samþ., er þar með bætt úr verstu göllunum á þeirri grein. (E. A.: Munurinn er um 40 þús. kr.). Já, eða mikið meira.

Við 12. gr. hefi jeg leyft mjer að koma fram með brtt., ásamt hv. þm. Borgf. (P. O.). Hv. frsm. (Þór. J.) áleit að vísu hæpið, hvort hún gæti komið til atkvæða, vegna þingskapanna, en úr því mun forseti skera á sínum tíma.

Brtt. fer fram á það, að allar hámarks- og lágmarkstölur á launum lækna lækki um 500 kr.

Vitanlega verður ekki stór sparnaður að þessari brtt., að áliti þeirra, sem ekki telja neitt sparnað, nema það teljist í tugum og jafnvel hundruðum þúsunda. En fyr má rota en dauðrota.

Læknar munu vera nálægt 50 að tölu. Laun þeirra samkvæmt núgildandi launalögum munu nema 75–80 þús. kr. Eftir launafrumvarpinu, eins og það nú liggur fyrir, mun launafúlga þessara starfsmanna nema um 200 þús. kr., auk dýrtíðaruppbótar. Með dýrtíðaruppbót hygg jeg óhætt að áætla laun sumra lækna 6–8 þús. kr., auk þess, sem þeir vinna sjer inn fyrir læknishjálp og meðul.

Sje jeg ekki, að ósanngjarnt sje að færa hámarks- og lágmarkslaun þessara starfsmanna niður um 500 kr. Það hefir ca. 50 þús. kr. sparnað í för með sjer fyrir ríkissjóð. Mjer hefði meira að segja fundist sanngjarnt að færa launin niður um 7–800 kr., en sá mjer þó ekki fært að koma fram með brtt. í þá átt.

Mjer hefir skilist á sumum, utan þings og innan, sjerstaklega af hálfu læknastjettarinnar, að verði frv., eins og það liggur fyrir, ekki samþykt, muni horfa til vandræða, þar sem læknar, og ef til vill fleiri starfsmenn, muni segja af sjer. Skal jeg engu um það spá, hvort svo verður eða ekki. En þó nú að læknar tækju upp á því að segja af sjer, er jeg ekki viss um, að til stórvandræða horfði. Jeg býst ekki við, að þeir færu allir af landi burt — sumir þeirra ættu lítið erindi til útlanda — og þá sennilegt, að menn næðu til þeirra, meðan á samningum um launakjörin stæði. Flestir þeirra myndu praktisera. Auðvitað myndu þeir selja verk sín dýrara en taxtinn tiltekur, en sumir mundu fylgja honum nákvæmlega.

En þeir — bæði jeg og margir aðrir —, sem ekki hafa ráð á því að leita læknis, þegar svona væri komið, verðum þá að deyja drotni okkar, án læknishjálpar. En stundum deyja menn með læknishjálp.

Ýms lítilsvirðandi orð fjellu í minn garð hjer í deildinni og í blöðunum, út af brtt. mínum við 2. umr., af því að jeg þótti ekki nógu örlátur á fje landsins, enda fjellu þær allar. Verði þeim að góðu, sem að því studdu. Það er ekki nema gott, að menn sjeu ánægðir með gerðir sínar.

Í þessu frv. er farið fram á meiri launahækkun, alment sjeð, en dæmi eru til hjer á landi. Menn eru að tala um dýrtíðina, og hversu allir hlutir hafi stigið í verði. Eins og allir viti það eigi af eigin reynslu, að 3 kr. nú munu vera minna virði en ein kr. var fyrir styrjöldina. En menn virðast álíta, að dýrtíðin hafi komið og komi harðast niður á embættismönnunum. Alt útlit er fyrir, að menn hafi gleymt því, að hún gengur yfir alla — rignir yfir rjettláta og rangláta — ef svo má að orði komast.

Enginn neitar því, að dýrtíðin komi harðast niður á þeim, sem ekkert framleiða, en það eru fleiri en embættismennirnir. Hún kemur einnig hart niður á ýmsum atvinnurekendum. Verð landafurða hefir ekki hækkað að sama skapi sem verkakaup og útlenda varan hefir stigið.

Þannig er það t. d. með ull og fleiri afurðir. Verðið á ull er tiltölulega lágt. Þetta sýnir, að dýrtíðin kemur einnig hart niður á bændum.

Mjer hefir ekki dottið í hug að gera lítið úr erfiðleikum þeim, sem dýrtíðin hefir haft í för með sjer fyrir embættismenn. Jeg veit, að ýmsir þeirra — og þá sjerstaklega þeir, sem lægst hafa verið launaðir — hafa átt fult í fangi með að komast af. En almenningsálitið, áður en dýrtíðin hófst, var á þá leið, að þeir embættismenn, sem betur voru launaðir, myndu þola þó nokkra hækkun á lífsnauðsynjum, án þess að þurfa að grípa til þess fjár, er þeir höfðu sparað á „góðu árunum“.

Afleiðing dýrtíðarinnar hefir orðið sú, að margir menn hafa neyðst til að spara við sig, og jeg efast ekki um, að embættismenn hafi einnig gert það. En það er vitanlega hægra að kenna heilræðin en halda þau, og á jeg þar við það, að áminna menn um að spara. En hitt er víst, og ekki nema eðlilegt, að menn, sem lifað hafa við góð kjör áður, eigi erfiðara með að spara við sig en aðrir.

Jeg vil taka undir það með hv. 1. þm. S.-M. (Sv. O.), að embættismennirnir verða að taka sínu þátt í dýrtíðinni, og geta ekki búist við — eftir atvikum — að fá laun sín greidd eftir fylstu rjettlætiskröfum.

Hv. 2. þm. Árn. (E. A.) vitnaði til þess, að bændur launuðu vel sína starfsmenn, t. d. forstjóra Sláturfjelags Suðurlands. Þetta er rjett og sýnir, að þeir kunna að meta það, þegar þeim hepnast að ná í góða starfsmenn.

Í því sambandi skal jeg geta þess, að hjer er um miljóna fyrirtæki að ræða, sem ekki þarf minni aðgæslu við en mest varðandi embætti ríkisins, og engu minni ábyrgð fylgir en að vera t. d. skrifstofustjóri, póstmeistari o. fl. (M. G.: Ekki hafa þeir 12 þús. kr. laun). Ekki nú, en koma til með að hafa, ef frv. verður samþ. óbreytt. (E. A.: Ekki nema 9500 kr.). Og svo ýmislegt utan hjá, sem er ótalið, en jeg álasa þeim ekki fyrir.

Hv. samþingismaður minn (E. A.) var hræddur um, að ef embættismennirnir væru látnir hanga á horriminni — eins og hann tók til orða — myndi það verða til þess, að engir vildu sinna því, að búa sig undir embætti og taka við þeim. Um það skal jeg engu spá, en ekki ber enn þá á, að svo sje. (E. A.: Vantar ekki lækna og verkfræðinga?). Allir skólar eru nú fullir af ungum mönnum, sem eru að búa sig undir að taka við embættum. Getur verið, að viðkoman í einstakri mentagrein sje ekki nóg eitthvert árið, en slíkt jafnar sig.

Að vísu hafa ýms góð embættismannaefni ráðið sig hjá prívatmönnum upp á síðkastið. Það er ilt, en við því er ekki hægt að gera. Þó að ástandið sje þannig nú, geta tímarnir breyst, og allir vonum við sjálfsagt, að dýrtíðin verði ekki óendanleg.

Jeg hefi ekki reiknað nákvænilega út, hversu miklum auknum útgjöldum samþykt þessa frv. nemur fyrir ríkissjóð, en hygg, að aukin útgjöld, miðuð við þau laun sem nú eru, muni nema yfir 1 milj. króna.

Jeg gat þess við 2. umr., að jeg hefði heldur kosið, að frv. þetta hefði ekki komið fram, en dýrtíðaruppbót núgildandi dýrtíðaruppbótarlaga hefði verið hækkuð, t. d. upp í 75–100%. Hygg jeg, að það hefði komið að fullum notum, en valdið minni umræðum og minni óánægju, bæði utan þings og innan. Sjerstaklega eru 12. og 33. gr. frv. þyrnir í augum mínum, er gera það að verkum, ef þær fást eigi lagfærðar, að jeg tel frv. alveg óviðunandi.