30.08.1919
Neðri deild: 50. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1227 í B-deild Alþingistíðinda. (1034)

26. mál, laun embættismanna

Þorleifur Jónsson:

Jeg stend að eins upp til þess, að gera grein fyrir brtt. þeirri, er jeg hefi flutt við frv. þetta og er á þgskj. 555. Fjallar hún um það, að færa Hornafjarðarlæknishjerað upp í hærri launaflokk. Hjeraðið er torsótt vegna margra og stórra vatna og mikilla vegalengda, og auk þess afskekt og strjálbygt. Af þessum ástæðum er hjeraðið ekki útgengilegt og ekki útgengilegra en ýms þau hjeruð, sem færð voru upp í hæsta flokk við síðustu umr.

Eftir að Þorgrímur læknir Þórðarson fluttist burt árið 1905, gekk í mesta basli að fá lækni til að staðfestast í hjeraðinu. Þó tókst loks að fá lækni, sem verið hefir nú 5–6 ár, en búast má við, að hann fari þegar aðgengilegra hjerað losnar.

Bætti það að vísu nokkuð úr skák, að sýslubúar tóku á sig þá byrði, án nokkurs styrks úr ríkissjóði, að reisa læknisbústað, svo að hjeraðið er nú aðgengilegra að því leyti en áður var. En þegar litið er á önnur hjeruð í hæsta launaflokki, svo sem Berufjarðarhjerað, Hólmavíkurhjerað. Höfðahverfishjerað og fleiri, sýnist mesta sanngirni mæla með því, að Hornafjarðarhjerað verði einnig sett í þennan flokk, því að í þeim hjeruðum munu hvorki erfiðari ferðalög nje minni aukatekjur en í Hornafjarðarhjeraði.

Jeg ímynda mjer, að háttv. nefnd hafi flokkað hjeruðin niður eftir fólkstölu, og þótt það sje ekki rangur mælikvarði, er þó ýmislegt annað, sem kemur til greina, svo sem erfiðleikar, hvort læknirinn býr í þorpi o. s. frv.

Háttv. frsm. (Þór. J.) sagðist ekki finna ástæðu til að mæla á móti brtt. Býst jeg við, að nefndinni þyki hún ekki að ástæðulausu fram komin, og vænti jeg þess, að háttv. deild sjái, að ekki er farið fram á neitt órjettlæti.

Það hafa þegar verið langar umr. um þetta mál, og vil jeg því ekki tefja tímann.

Brtt. á þgskj. 559, sem jeg hefi undirritað ásamt ýmsum fleiri þm., hefir sætt allhörðum andmælum. Háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) hefir svarað þeim svo rækilega, að jeg sje ekki ástæðu til að fara frekar út í það.

Sjerstaklega get jeg ekki sjeð, að það sje svo voðalegt, þó að þinginu 1925 gefist tækifæri til að endurskoða frv.

Í brtt. felst það eitt, að lögin skuli endurskoðuð 1925. Það ætti síst að vera óttalegt fyrir málsaðilja, embættismenn, að mál þetta sje þá tekið fyrir að nýju. Sama verð jeg að segja um 2. brtt. á sama þgskj., að hún er hættulaus. Það raskar ekkert grundvelli þessara laga, þótt dýrtíðaruppbót sje að eins greidd af 2400 kr., en ekki 3000 kr. Þetta kemur að eins við þá, sem eru á háum launum, og ætti því ekki að gera neinum ólíft.

Fleira skal jeg ekki telja, þótt ástæða væri til að minnast margs — til að lengja ekki umr.