30.08.1919
Neðri deild: 50. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1243 í B-deild Alþingistíðinda. (1038)

26. mál, laun embættismanna

Pjetur Þórðarson:

Jeg býst ekki við að þurfa að tala mikið í þessu máli.

Við 2. umr. gat frsm. (Þór. J.) þess, að nefndinni hefði ekki verið fyllilega ljóst, hvað meint hefði verið með ákvæðinu í upphafi 33. gr., hvort ætla ætti öllum emembættismönnum og sýslunarmönnum uppbót eftir frv. þessu, eða að eins þeim, sem þar eru nefndir.

Forsætisráðh. (J. M.) svaraði á þá leið, að ekki væri meiningin að veita öllum starfsmönnum dýrtíðaruppbót, enda er komin fram brtt. frá nefndinni um að taka ýmsa upp í frv., sem ekki voru í því upphaflega. Margir verða þó enn þar fyrir utan.

Jeg hefði því gjarnan viljað vita eitthvað meira um þetta, eða hvernig fara ætti með þá, sem eigi eru teknir upp í frv., og ætlaði að koma fram með þá fyrirspurn til hæstv. forsætisráðh. (J. M.), hver meiningin væri með þessu. En þar sem hann er nú ekki viðstaddur, og mun ekki verða við þessa umræðu í kvöld, get jeg látið hjá líða að koma með spurninguna.

Eftir því, sem fram er komið, finst mjer líklegt, að fjöldi smærri starfsmanna ríkisins verði settur hjá í þetta sinn, að njóta sanngjarnrar uppbótar, en finst þó á hinn bóginn ekki furða, þó mönnum þyki ekki tiltækilegt að fara lengra en gert hefir verið.

Mjer virðist liggja á bak við sú vitund hjá flestum eða öllum háttv. þingdm., að halda verði spart á um leið og teknar eru til greina sanngjarnar kröfur. Má í þessu sambandi benda á, að þegar atkvgr. í þessu máli var afstaðin við 2. umr., hrutu þau orð frá sessunaut mínum, sem þó er framarlega í því, að taka til greina launakröfur starfsmannanna, að við hefðum sparað ríkissjóði 100 þús. kr. útgjöld með atkvgr. okkar um launauppbætur presta, og var auðheyrt, að hann var því mjög feginn.

Jeg hefi mikla tilhneigingu til að vilja spara sem mest, en vil þó gefa eftir fyrir sanngjörnum kröfum, og vildi því bera sáttarorð á milli þeirra, sem miklar kröfur gera og hinna, sem mest vilja spara.

Jeg taldi of langt gengið með brtt. hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) og þm. Barð. (H. K.) við 2. umr., um að færa niður þann hluta launanna, sem dýrtíðaruppbótin skyldi greidd af, og greiddi því atkv. móti henni. Jeg ætla ekki að útlista. hve mikið á milli ber, á hvoruga hliðina; háttv. þm. hafa þegar gert það, og býst jeg við, að þeir sem lengst hafa farið í kröfum sínum og sem næst sanngirni eftir áliti þeirra sem borgun eiga að fá fyrir starf sitt, hafi mikið til síns máls.

Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) benti á, að þegar starfsmennirnir fengju betri laun, myndu þeir vinna betur verk sín, en þau hefðu þeir oft orðið að slá slöku við og fá sjer aukavinnu, þar sem launin fyrir þau hafi hrokkið svo skamt. Jeg játa, að háttv. þm. (E. A.) hefir mikið til síns máls. En hræddur er jeg um, að þeir starfsmenn sem mest hafa starfsþol, muni ekki neita sjer um aukastörf, þó þeir fái kröfum sínum framgengt, því mikið vill meira

Háttv. þm. kannast við, að sem mest þurfi að spara, og hefir komið fram rík tilhneiging í þá átt. Tveim dögum eftir 2. umr. þessa máls var gefið yfirlit yfir það, hvernig fjárhagur landsins myndi verða næsta fjárhagstímaþil. Kom þá í ljós, að útlit er fyrir, að fjárhagsástandið verði alt annað en glæsilegt.

Með þetta fyrir augum vænti jeg þess, að þeir, sem ríkast fylgja kröfunum játi, að gæta verður allrar varúðar, og taki alt það til greina, er miðar til nauðsynlegs sparnaðar.

Þá má benda á það, að þeir, sem mestum sparnaði halda fram, eru ekki sjálfum sjer samkvæmir. Allir ota þeir fram brtt., hver fyrir sig, er hafa í för með sjer útgjaldahækkun, og þó að hver upphæð fyrir sig sje ekki stór, er þess að gæta, að margt smátt gerir eitt stórt.

Má í þessu sambandi benda á t. d. brtt. hv. þm. Barð. (H. K.), sem fer í þá átt, að færa sýslumanninn í Barðastrandarsýslu upp í launaröðinni. Og svo er þetta um margar fleiri brtt., er hjer liggja fyrir frá sparnaðarmönnum.

Sama er að segja um brtt. hv. þm. A.-Sk. (Þorl. J.). Þó hún hafi allsanngjarnlegan blæ á sjer, þá gengur hún þó ekki í þá átt að spara. Jeg segi þetta ekki í því skyni, að sanngirni mæli ekki með því, að brtt. nái fram að ganga. Mjer dettur heldur ekki í hug að rengja rök þau, er hv 2. þm. Árn. (E. A.) færði fyrir launakröfum embættismanna landsins. Jeg veit, að meiri hluti okkar ágætu ríkisstarfsmanna hefir tekið drengilegan þátt í dýrtíðinni, með því að leggja hart á sig og spara. En jeg held þó, að dýrtíðarörðugleikarnir hafi ekki tekið meira til þeirra en flestra okkar hinna. Jafnframt því, sem örðugleikar hafa hert þá og stælt til að standast dýrtíð og erfið kjör, vænti jeg að þeir sjái, að þetta er sameiginlegt með öllum þorra landsmanna. Út af þessum fáu athugasemdum á báða bóga þykir mjer sanngjarnt, að deildin fallist á brtt. hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) og fjelaga hans, við 33. gr. frv., þar sem hún hefir — eins og hún er nú — ekki víðtækari áhrif en það, að lækka dálítið samanlögð laun og launauppbót þeirra starfsmanna landsins, sem hærri laun hafa eftir frv. Jeg sagði áðan, að mjer þætti till. hv. þm. (Sv. Ó.) við 2. umr. ganga of langt í því, að færa launabætur niður, og greiddi því atkv. móti henni; en jeg vil spara svo, sem jeg tel lengst mega fara í þá átt, og ætla því nú að greiða atkv. með brtt. hv. þm. (Sv. Ó.) við 33. gr., er gengur í þá átt, að færa niður hámarkið úr 3000 kr. í 2400 kr. og að binda uppbótina því skilyrði, að hún verði endurskoðuð árið 1925.