08.09.1919
Neðri deild: 58. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í B-deild Alþingistíðinda. (104)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Jón Jónsson:

Jeg vildi að eins segja fáein orð, út af brtt., sem jeg á á þgskj. 707. Þessi brtt. er fram komin eftir ósk sýslunefndar Norður-Múlasýslu og fer í þá átt, að veita 500 kr. á ári til dragferjuhalds á Lagarfljóti, og að veita 400 kr. uppbót á ferjulaunum við Steinsvaðsferju. Það er sem sje þannig lagað um ferjuna á þessum stað, að ferjutollur er aldrei greiddur, því að það þótti ekki hlýða þar sem frjáls aðgangur var yfir Lagarfljótsbrúna, og svo var ómögulegt að fá ferjumanninn fyrir sama verð og áður, þar sem kaupgjald hefir, eins og kunnugt er, hækkað svo gífurlega upp á síðkastið. Þess vegna er þessi till. fram komin og var ætlunin, að landssjóður kostaði ferjuhaldið, en sýslunefnd greiddi allan kostnað við dráttarútbúnaðinn og viðhaldskostnað. Jeg hefi heyrt á ræðu hv. frsm. (M. P.), að nefndin hefði tekið vel a.-liðnum, en ekki sjeð sjer fært að vera með b.-liðnum. Í raun og veru er ekki hægt annað að segja en að hvorttveggja þetta sje jafneðlilegt, því þótt uppbót á ferjulaunum hafi verið bætt við, þá er hún svo lág að ekki verður talið of langt gengið.

Jeg skal svo ekki fjölyrða um þessa till., en jeg geri ráð fyrir, að úr því að fjárveitinganefnd hefir lagt með a.-liðnum, þá verði hann samþyktur. og sömuleiðis vona jeg að b.-liðurinn verði samþyktur. Jeg skil ekki hvers vegna stjórnin skyldi ekki koma með þetta fyrir þingið, því það var þó skorað á hana að gera það og þótt sýslunefnd hefði lofað að borga ferjumanninum uppbótina, þá var það þó ætlunin að hún yrði endurgoldin úr landssjóði.

Hin brtt. er á þgskj. 704 og fer fram á, að Sveinbirni Sveinssyni sjeu veittar 2000 kr., til vara 1000 kr., til þess að birta í Búnaðarritinu ritgerð um ráð til að vinna greni á skömmum tíma. Þessi till. er borin fram samkvæmt ósk þess er styrksins beiðist. Það hefir komið fram erindi sem stílað er til Alþingis, og hefir mjer borist það nýlega í hendur. Þar sem jeg býst við, að hv. þm. sje það ókunnugt vil jeg leyfa mjer að lesa það upp, með leyfi forseta:

„Svo sem kunnugt er, er stórfje kostað til þess árlega á landinu að útrýma refum. Það mundi því þykja mikilsvert, ef óyggjandi ráð yrðu fundin til þess að útrýma þeim á stuttum tíma. Jeg hefi lengi fengist við að vinna refi í grenjum, og hygg mig hafa fundið þau ráð. Að minsta kosti duga mjer þau ráð svo að jeg treysti mjer til að vinna áreiðanlega hvert greni á fáum tímum, sem mjer er falið að vinna, ef dýrin hafa ekki verið stygð um of eða greninu spilt. Væri þeim ráðum fylgt, og æfð skytta væri á hverju greni á landinu er fundið væri, mætti áreiðanlega vinna þau öll á 12 tímum eða skemmri tíma. Þessi ráð mín eru einföld, svo að hver maður getur lært þau og beitt þeim og bregðast ekki ef þeim er fylgt í rjettri röð.

Jeg vil gjarnan gera löndum mínum kunna aðferð þá, er jeg hefi, en högum mínum er svo farið, að jeg vil einnig geta fengið fje fyrir ráð mín, með því að jeg tel þau óyggjandi, og þau ættu að geta sparað landsmönnum stórfje.

Jeg vil því leyfa mjer að skjóta því til hins háa Alþingis, hvort það vilji ekki veita mjer ríflega borgun fyrir ritgerð um þetta efni og ef það sýndi sig við reynsluna, að ráð mín væru trygg, þá bæta við einhverri upphæð til verðlauna síðar og færi hún þá eftir því, hversu vel ráð mín reyndust?

Jeg skal bæta því við, að jeg þekki dálítið þennan mann og er mjer kunnugt um, að hann þykir með afbrigðum heppinn að veiða refi. Hefir hann nýja aðferð sem jeg veit ekki til að nokkur annar noti. Auðvitað er það álitamál hvort allir þeir sem fengju þessar leiðbeiningar á pappírnum, kynnu að hagnýta sjer þær svo, að þær reyndust jafnöruggar og hjá þessum manni, en eftir því, sem hann segir sjálfur, þá ætti hver góð refaskytta að geta hagnýtt sjer þær. Jeg veit að hv. deildarmenn þekkja vel hvílíkt gagn væri af því, ef hægt væri að vinna refi á skömmum tíma, því eins og nú er þá verða menn oft að liggja langan tíma á grenjum og koma þó tómhentir aftur.

Það getur að vísu litið nokkuð frekjulega út hjá þessum manni að snúa sjer til þingsins í þessu efni. Kom þetta fram hjá hv. frsm. (B. J.) sem sagði að maðurinn hefði átt að snúa sjer til Búnaðarfjelagsins og fá það til að kaupa ritgerðina. Það er nú öllum kunnugt hversu borgað er fyrir ritstörf hjer á landi og þótt nú Búnaðarfjelagið vildi gjarnan fá ritgerðina mundi það aldrei borga honum meira en svo sem 50 kr. fyrir hana, og hverju væri hann bættari fyrir það? Þessi maður snýr sjer til þingsins út úr neyð. Langar hann fyrst og fremst til þess að breiða út þekkingu á aðferð sinni, en þar sem högum hans er þannig háttað, að hann á við fátækt að stríða, þá er ekki nema eðlilegt að hann langi til að fá ríflega borgað fyrir þessar ráðleggingar sínar. Þessi maður á 14 börn á lífi af 17, og eru 7 þeirra innan fermingar. Menn geta því skilið, að hann eigi við erfið kjör að búa og þar sem vandræðin aukast ár frá ári fyrir fátækum barnamönnum, er ekki nema eðlilegt að jafnmikill fjölskyldumaður eigi í vök að verjast, og snýr hann sjer því til þingsins af því að hann ber svo mikið traust til þess, að það líti sanngjörnum augum á málið. Auðvitað hefði það verið viðkunnanlegast að maðurinn hefði birt þessi ráð sín endurgjaldslaust. En af því að hann er fátækur, er skiljanlegt og eðlilegt að hann vilji fá borgun fyrir þau. Þetta er líka mesti dugnaðarmaður og t. d upp á dugnað hans má geta þess að hann bjargaði fyrir alllöngum tíma tveimur útlendingum úr sjávarháska en þeir hefðu farist ef þeir hefðu ekki notið hjálpar hans. Fyrir þetta afrek sitt hefir hann hlotið verðlaunapening frá Danmörku. En þess má þá líka geta að er hann bjargaði þessum útlendingum varð hann fyrir talsverðu áfalli og hefir hann ekki borið þess bætur síðan. En þrátt fyrir lasleika hefir hann þó brotist áfram með dugnaði með barnahóp sinn og hefir hann hingað til komið þeim vel til manns. Hann hefir altaf þótt dugandi verkmaður. og í refaveiði hefir hann þótt skara fram úr. Meira að segja hefi jeg heyrt úr sveit hans að hann hafi verið svo fljótur að veiða refina að sveitungar hans hafi stórum undrast. Þetta sannar það að hann hefir betri tök á að vinna refina en alment tíðkast.

Jeg held að það væri ekkert mannsbragð að fella þennan styrk því að fje hefir oft verið veitt til meiri óþarfa heldur en til þessa. Jeg hefi trú á því, að þetta sje á rökum bygt og þess vegna hefi jeg borið fram þessa till. og jeg hygg, að það geti borgað sig óbeinlínis fyrir landið.

Jeg nenni ekki að tala um fleiri brtt., en mun sýna með atkvæði mínu hver afstaða mín er til þeirra.