30.08.1919
Neðri deild: 50. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1256 í B-deild Alþingistíðinda. (1040)

26. mál, laun embættismanna

Einar Arnórsson:

Ýmislegt af því, sem jeg hefði talið rjett að geta um, hefir hv. frsm. (Þór. J.) nú tekið fram, og skal jeg í ekki endurtaka það.

Háttv. frsm. (Þór. J.) vjek að reikningi háttv. þm. Borgf. (P. O.). Var dálítil villa í reikningsfærslu hans að ýmsu leyti. Mun vera erfitt fyrir hann að finna út á þann hátt, að jafnvel laun lækna hafi margfaldast svo mjög, sem hann gaf í skyn.

En það má líka taka reikning hv. þm. Borgf. (P. O.) dálítið öðruvísi, og fá þó út næsta svipaða útkomu og hjá hv frsm. (Þór. J.).

Háttv. þm. Borgf. (P. O.) tók ekkert tillit til þess, að eftir núgildandi lögum er ætlast til þess, að læknar hafi tekjur að ekki svo litlu leyti af atvinnu sinni (,,praxis“). Eftir þessu frv. aukast tekjurnar af „praxis“ ekki neitt og á ekki að veita neina uppbót af því. Ef læknir hefir nú 1500 kr. í föst laun, og gert er ráð fyrir öðrum 1500 kr. í ,,praxis“, verða það 3000 kr. á ári. Eftir þessu frv. fá læknar 4000 kr., sem með uppbót verða 7400. Ef vjer reiknum ,,praxis“ eins og áður 1500 kr., fær læknirinn 8900 kr. á ári. Eru það tæplega þreföld laun þau, er hann hefir nú, og það þótt ekki sje tekin dýrtíðaruppbótin með þeim, heldur að eins aukatekjurnar. Fæst því sama hlutfallið með þessari aðferð.

En í þessu sambandi er vert að geta þess, að þegar háttv. þm. Borgf. (P. O.) vill sýna fram á þessa „gífurlegu“ hækkun, þá tekur hann til samanburðar eitthvert mesta smánarkaup, sem goldið hefir verið. Eins og kunnugt er, þá er kostnaður við undirbúninginn undir embætti mestur hjá læknum. Námstíminn er langur. Námið kostar mikið fje, og auk þess fer venjulega á eftir sigling og kostnaður við hana, sem ekki er bættur. Svo bætast við kaup á dýrum verkfærum, viðhald og endurnýjun. Þetta legst alt á kostnaðinn við undirbúninginn til embættis. Háttv. þm. Borg. (P. O.) tekur því þarna dæmi af hinum örgustu smánarlaunum. Það er auðvitað rjett, að miðað við lægstu smánarlaunin má fá út, að þau margfaldist með 2% og upp í 3. En ef miðað er við bærileg laun, eins og t. d. 5000 kr. þá er er svo langt frá, að þau þrefaldist, að þau ekki einu sinni tvöfaldast. Það sjest, ef brtt. háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) yrði samþykt, að þá næði launabótin ekki 100%. En þessi reikningur er og villandi að öðru leyti. Jeg býst við því, að menn sjeu sammála um, að launin hafi fyrir stríðið víða verið ákveðin of lág. Mjer skilst að það sje fyllilega viðurkent, þar sem háttv. þm. hafa gengið að föstum launaákvæðum stjórnarinnar. Og yfirleitt hefir hv. deild hækkað þau laun, er stjórnin lagði til, að verulegu leyti, og í mörgum atriðum. sjerstaklega þó laun lækna.

Margföldun launanna verður frá 3 og niður í 1.50, það er að segja 6000 kr. laun verða eftir till. háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) margfölduð með 1,50 — helmingi bætt við þau. Á hærri launum verður uppbótin minni, t. d. á launum biskups, sem ætluð eru 7000 kr., og fimm embætti með 8000 kr., hæstarjettardómararnir, fá ekki nema 1500 kr., og dómstjórinn í hæstarjetti fær ekki neitt. Hann er einn fyrir ofan þetta fastákveðna hámark.

Jeg býst við, að hæstarjettardómararnir hefðu ekki fengið svona hátt, ef laun þeirra hefðu verið sett fyrir stríðið. Líklega hefðu þau þá ekki orðið meira en 7000 kr.

Þá þarf jeg að gera nokkrar athugasemdir við ræðu háttv. 1. þm S.-M. (Sv. Ó.). Hann sagðist þekkja ýmsar fjölskyldur meðal verkamanna, sem hefðu orðið illa úti vegna dýrtíðarinnar. Þetta getur vel verið, en verkamenn hafa eigi að síður fengið sitt kaup hækkað, eins og líka sjálfsagt var. Og þótt einhverjir þeirra hafi orðið hart úti, gat það stafað af öðrum ástæðum, 1. d. heilsubilun.

En jeg veit til þess um suma embættismenn, að þeir hafa safnað stórskuldum þessi árin. T. d. sagði einn dócentinn við háskólann mjer, að hann vantaði að meðaltali 350 krónur á mánuði fram yfir það, sem launin hrykkju, til þess að komast af. Þegar svona er ástatt, er ekki um annað að gera en taka lán, og sumir embættismenn hafa haft lánstraust og notað sjer það. En auðvitað þverrar lánstraustið ef svona gengur lengi.

Þá taldi háttv. þm. (Sv. O.), að verkamenn hefðu ekki vinnu nema dag og dag á stangli. Þetta held jeg sje ekki rjett, því eftirspurnin eftir vinnu er mjög mikil alt árið um kring. Og á sumrin hafa verkamenn miklu hærra kaup en á vetrin, og hefir það hækkað mjög, og heldur áfram að hækka. Kaupamenn, sem höfðu fyrir stríðið 15–18 kr. á viku, hafa nú ferfalt kaup við það og þaðan af meira. Að minsta kosti sögðu bændur mjer í vor, að nú fengju þeir ekki kaupamann fyrir minna en upp undir 100 krónur um vikuna þar eystra, í Árness- og Rangárvallasýslum.

Háttv. þm. (Sv. Ó.) talaði um trygginguna, sem lægi í því að vera embættismaður. Jú, sjer er nú hver tryggingin! Hún liggur í föstu kaupi og því, að vera bundinn í stöðu sinni alla smá æfi, svo og í rjettinum til eftirlauna, sem mun vera partur af laununum eftir núgildandi lögum. En svo er líka ástatt, að fyrir þennan eftirlaunarjett á hann að borga eftir frv. 5% af launum sínum. Svo hann beint kaupir sjer þennan ellistyrk samkvæmt frv. Það er því rangt að tala um „netto“-laun í frv., heldur eru það „brutto“ -laun, því auk þess að gjalda 5% af laununum í eftirlaunasjóð verður hann að tryggja ekkju sinni lífeyri. Þessi eftirlaun embættismanna eru nú auðvitað svo lág, að það er langt frá því, að hægt sje að lifa af þeim, enda þótt barnsfúlgustyrkurinn sje tekinn með, sem er ca. 100 kr. á ári af hverju barni undir 16 ára aldri.

Háttv. þm. (Sv. Ó.) sagðist ekki vera hræddur um, að embættismenn kæmi til að vanta, þótt launin væru lág. Hann er þar nokkuð bjartsýnn. Jeg veit ekki betur en fjölda margir stúdentar, og jafnvel kandídatar, gangi alt aðra leið eu embættisleiðina. Mjer sagði skilríkur maður, að efnilegustu stúdentarnir, sem útskrifuðust í vor, mundu ganga aðra leið. Landið hefir tilfinnanlega vantað verkfræðinga undanfarið. Vegamálastjóri sagði af sjer fyrir tveim árum. Aðstoðarmaður hans sagði af sjer, og aðstoðarmaður vitamálastjóra hefir sagt af sjer, og jeg held vitamálastjóri sjálfur hafi sagt af sjer. Landið hefir stórtapað á því, að hafa ekki fasta menn í þjónustu sinni, í stað þess að ráða verkfræðinga til einstakra starfa og sleppa þeim svo aftur. Það verður miklu dýrara. Læknar hafa gerst sjerfræðingar í ákveðnum greinum og sett sig niður sem „praktiserandi“ læknar í sinni grein, í stað þess að sækja um hjeruð. Enn fremur er ekki örgrant um, að sje að verða prestaekla, og ekki heldur örgrant um, að sje að verða lögfræðingaekla þótt það þyki kann ske ótrúlegt. Það mun hörgull á lögfræðingum í þær stöður í stjórnarráðinu, sem lögfræðisþekkingu krefur. Í vor sem leið útskrifuðustu 3 kandídatar úr lögfræðisdeildinni, og það var rifist um þá.

Sannleikurinn er sá, að farið er að stefna í þá átt, að ráðdeildarsamir feður láti syni sína ekki fara í mentaskólann, heldur í verslunarskólann. Jeg hefi hjer fyrir mjer skólaskýrslu verslunarskólans 1918, og sje jeg í henni unga menn upp talda, sem áreiðanlega mundu í mínu ungdæmi hafa farið í lærða skólann. Jeg sje t. d., að samþingismaður minn einn á hjer son í verslunarskólanum, og ýmsir fleiri gætnir og ráðdeildarsamir menn. Það er nefnilega komið svo, að menn eru farnir að sjá, að það er ekki lífvænlegast nú að láta sonu sína ganga þá braut, sem þótti lífvænleg fyrir 20 árum, hinn svokallaða embættisveg. Annarsstaðar eru menn líka farnir að sjá, að það er varhugavert fyrir ríkið að gera ver við embættismenn sína en einstakir vinnuveitendur gera við sína. Auk þess er ekki saman að jafna þeim kröfum, sem gerðar eru til embættismanna og annara, þar sem þeir fyrnefndu verða að verja löngum kafla af æfi sinni, — besta kaflanum, — í dýrt og erfitt nám.

En þó er nú svo komið, að rifist er um duglega pilta á tvítugsaldri, að fá þá á skrifstofur hjer í Reykjavík, fyrir að minsta kosti eins hátt kaup eins og dómararnir í landsyfirrjettinum hafa að lögum.