30.08.1919
Neðri deild: 50. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1261 í B-deild Alþingistíðinda. (1041)

26. mál, laun embættismanna

Pjetur Ottesen:

Jeg skal ekki teygja vírinn, eins og þeir gerðu, hinir háttv þm., sem síðast töluðu. Fyrst skal jeg víkja nokkrum orðum að háttv. frsm. (Þór. J.), en lofa að vera stuttorður, þar sem komið er langt fram á nótt. Hann gerði tilraun til að gera reikning minn og samanburð tortryggilegan, en auðvitað gat hann það ekki með öðru móti en því, að fara með rangt mál og snúa öllu öfugt við. Hann lagði dýrtíðaruppbótina, sem veitt hefir verið undanfarið, við föstu launin, en það gerði jeg ekki. Jeg tók hvorttveggja, laun lækna og kaup verkamanna, eins og það var fyrir stríðið; annars hefði samanburðurinn verið rangur. Og það varð hann auðvitað hjá háttv. frsm. (Þór. J.): og mjer er grunur á, að það sje ekki alveg óviljandi, því háttv. frsm. (Þór. J.) skilur þetta vel, ef hann vill, en jeg veit, að honum hefir komið þessi samanburður dálítið illa.

Þá bauð hv. þm. mjer upp í Borgarfjörð með sjer. Og má hann vita það, að mjer er ekkert kærkomnara en taka því boði hans. Og í sambandi við það var hann alt í einu kominn út í viðhaldið á flutningabrautunum í Borgarfirði, og bar mjer á brýn, að jeg hefði viljað fá viðhaldinu þar ljett af sýslunum. Jeg hefi aldrei farið fram á það sjerstaklega, heldur hefi jeg komið fram með tillögu um, að öllu viðhaldi á flutningabrautum yrði ljett af sýslunum. Svo þetta hefði því eins átt t. d. við Húnavatnssýslu eins og Borgarfjörð.

Þá mintist hann á símalínuna að Svignaskarði. En það er þannig með hana, að hún er ekki eingöngu fyrir Borgarfjörð, heldur eins mikið, og öllu meira, fyrir ferðamenn að norðan og fólk, sem ferðast mikið á sumrin upp um Borgarfjörð, hjeðan úr Reykjavík.

Hv. þm. (Þór. J.) bauð mjer ekki norður í Húnavatnssýslu, enda þarf þess ekki, því jeg veit, að hann hefir ekki verið óduglegri fyrir sitt kjördæmi en jeg fyrir mitt. Hann hefir verið mjög duglegur að útvega sínu kjördæmi síma, vegi, brýr o. fl., og er það ekki nema gott og blessað.

Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) tók að sjer sama hlutverkið eins og háttv. frsm (Þór. J.), að hrekja reikning minn. Jeg skal játa, að það getur frekar verið einhver meining í að taka aukatekjur lækna með í laununum. Hann gerði þær til jafnaðar ca. 1500 krónur. En þetta verð jeg að athuga dálítið. Jeg hefi sem sje ummæli hæstv. forsætisráðh. (J. M.) um skýrslur lækna um framtal á aukatekjum þeirra, sem að hans dómi eru eins áreiðanlegar og skýrslur yfirleitt geta verið, en sýna þó talsvert lægri aukatekjur. Jeg skal með leyfi hæstv. forseta lesa upp þessi ummæli hæstv. forsætisráðh. (J. M.), á bls. 56 í C.-deild Alþingistíðindanna frá í fyrra. Hann segir svo:

„Jeg held, að óhætt sje að telja, að skýrslur þær, sem fengist hafa um þetta, sjeu fult svo áreiðanlegar eins og skýrslur yfir höfuð geta verið hjer á landi, og það sem út kemur er ekki glæsilegt, það er að segja þegar maður tekur launin yfirleitt. Þá hefir helmingur lækna ekki 1000 kr. til jafnaðar í aukatekjur, en auðvitað er það misjafnt. Af 36 læknum reyndist, að 17 þeirra hefðu til jafnaðar ekki nándar nærri 1000 kr., ekki meira en 800 kr., eða meira, en allur helmingur lækna landsins hefir ekki nema 800 kr. eða 2300 kr. í laun alls“.

Jeg skal nú gera það fyrir háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) að taka þessar 800 kr. með fastalaunum, og niðurstaðan verður samt sú, að launin fjórfaldast samt sem áður fyllilega.

Jeg skal svo ekki fara út í þetta frekar, því jeg þykist hafa hrakið tilraunir þessara fjelaga til að vefengja samanburð minn og reikning. Önnur atriði í ræðum þeirra nenni jeg ekki að eltast við, þó ástæða hefði fullkomlega verið til að athuga það.