02.09.1919
Efri deild: 46. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1266 í B-deild Alþingistíðinda. (1049)

26. mál, laun embættismanna

Forsætisráðherra (J. M.):

Eins og hv. deild er kunnugt, er frv. þetta í fyrstunni komið frá stjórninni, og get jeg því um málið í heild sinni vísað til athugasemdanna við það. Jeg skal þó leyfa mjer að drepa á nokkur atriði til skýringar þeirri háttv. nefnd, sem fjalla á um málið. Og jeg vona, að jeg hafi leyfi hæstv. forseta til þess, að víkja nokkuð að einstökum atriðum, þó þetta sje fyrsta umr., einkum þar sem málið hefir verið til meðferðar í samvinnunefnd.

Þegar jeg samdi frv., leitaði jeg engrar samvinnu við embættismannastjett landsins, enda var þá engin föst skipun komin á fjelagsskap þeirra. En ef svo hefði verið, mundi hafa verið leitað samvinnu við fjelagið, eins og venja er nú orðin í slíkum málum annarsstaðar. Það er þess vegna að mestu leyti tilviljun, að kröfur stjórnarinnar fara að miklu leyti saman með kröfum þeim, sem embættismenn hafa sjálfir gert. Sjerstaklega vildi jeg benda á þetta að því er snertir ákvæðin um dýrtíðaruppbótina. Þau ljet jeg hagstofustjórann útbúa alveg sjálfstætt.

Eins og hv. deildarmönnum mun kunnugt, hefir frv. þetta tekið nokkrum smábreytingum í hv. Nd., að því er snertir föstu launin. Að vísu eru sumar þessar breytingar tæplega samrýmanlegar heildinni allri, en þó má það teljast smávægilegt. Jeg skal meira að segja viðurkenna þessar breytingar að því er kemur til hámarkshækkunarinnar á hæstu laununum. Mjer var það fullljóst við samningu frv., að það var hlutfallslega rífara í þeirra garð, sem hægri hafa launin, en hinna. En jeg hagaði þessu þannig í samræmi við þingsögu undanfarinna ára og það, sem ætla mætti óskir alls þorra manna í málinu, og því væri líklegast að fengi framgang. Sömuleiðis var farið allmikið eftir áliti launamálanefndarinnar og gögnum hennar, eins og sjálfsagt var. En þó auðvitað hafi ekki verið þræddar allar tillögur hennar, hefir það ekki verið af því, að þær væru í eðli sínu ósanngjarnar, heldur af hinu, að tímarnir eru nú breyttir frá því, sem þá var.

Í sjálfu sjer hafa ýmsar þessar hækkanir því eflaust verið rjettar í eðli sínu, og jeg hefi því enga ástæðu til þess að amast við þeim. Jeg vil samt benda á það, að saman borið við ýms önnur laun hefir ekki verið rjett að hækki ekki dálítið laun 1. aðstoðarbókavarðar og skjalavarðar. Jeg tel heldur ekki fyllilega rjetta breytinguna á launum sýslumannanna. Því þegar sá breyting var gerð, að flytja Skaftafells- og Barðastrandarsýslur úr lægsta upp í hærri launaflokk, þá virtist sanngjarnast, að sama regla hefði náð til Vestmannaeyja og jafnvel Rangárvallasýslu. En þá virðist óviðkunnanlegt að hafa Dala- og Strandasýslur einar í lægra flokki, og tæpast taka því að skera þær út úr, jafnvel þó störfin sjeu á hvorugum staðnum meiri en hálft verk fyrir meðalmann.

Þá vil jeg í þessu sambandi geta stuttlega um meðferðina á lögreglustjóraembættinu á Siglufirði. Það sýnist sem sje eðlilegast og mest í samræmi við þær breytingar, sem jeg gat um síðast, að setja lögreglustjórann í sama launaflokk og aðra starfsbræður hans, í lægri sýslunum að minsta kosti. Það er sem sje áreiðanlegt, að laun hans eru alt of lág, og voru enda miðuð við alt aðrar ástæður en þær, er skapast við launafrv. Þessi lágu laun hans voru sem sje bygð á því, að lögreglustjórinn mundi hafa mjög miklar aukatekjur, en þeim verður hann nú sviftur.

Um aðstoðarmennina í stjórnarráðinu vil jeg taka það fram, að mjer finst, að saman borið við ýmsa aðra hefði átt að hækka laun þeirra um 4–500 kr. Aftur á móti get jeg ekki sagt það sama um skrifarana í stjórnarráðinu. Að vísu er hámarkið þar má ske ekki sett fullkomlega nógu hátt, en lágmarkið er nægilegt. Annarsstaðar er nú farið að skifta starfsmönnum þessum í tvo flokka, yngri skrifara með lægri laun og eldri skrifara með hærri laun, enda vinna þeir oft eins áríðandi störf og aðstoðarmennirnir. Annars eru byrjunarlaunin hjer fyllilega eins há og annarsstaðar tíðkast. Jeg vil líka benda á það í sambandi við þetta, að jeg tel sjálfsagt, að farið verði að taka kvenfólk sem skrifara í stjórnarráðinu, eins og annarsstaðar. Það er engin ástæða til þess að meina stúlkum aðgöngu að þeim störfum, allra helst þar sem þær vinna þau, að ýmsu leyti, engu ver en karlmenn.

Þegar jeg var að semja frv., ætlaði jeg að taka upp í það laun skrifstofustjóra Alþingis. Var leitað um þetta umsagnar hæstv. forseta, en talið þá efasamt, hvort rjett væri að taka þetta launaákvæði upp í frv., þar sem ráðstöfun þessa starfs væri alveg á valdi forsetauna. En jeg fyrir mitt leyti álít þó rjettast að gera skrifstofustjórann að föstum starfsmanni ríkisins, og ekkert ætti það að vera því til fyrirstöðu, þó eitthvað annað standi í þingskapalögunum nú, enda hafa hæstv. forsetar síðar látið í ljós, að þetta mundi rjett.

Jeg vil enn fremur geta þess, að lagfæra þarf 13. gr. nokkuð. Þar þarf sem sje að tiltaka hreint og beint laun holdsveikralæknisins. Það er sem sje engin ástæða til þess að binda þann lið við það: „meðan sú skipun helst, sem nú er“, þegar feld hefir verið breytingin um sameiningu hjeraðslæknisembættisins í Reykjavík og embættis holdsveikralæknisins. Því verði þessu breytt, verður það gert með sjerstökum lögum, en þangað til þurfa launin auðvitað að vera fastákveðin.

Það er að vísu síður en svo, að jeg hafi á móti hækkun föstu launanna, en þó hefði jeg heldur kosið, að minna hefði verið gert að þeim breytingum, en heldur haldið till. stjórnarinnar um dýrtíðaruppbæturnar. Jeg tel hana sanngjarna og rjettláta.

Dýrtíðaruppbótartillaga stjórnarinnar var fullkomlega sanngjörn og rjettmæt, og allar breytingar, sem hv. Nd. hefir gert á 33. gr., eru til hins verra. Það er einsætt, að ef regla stjórnarinnar er rjett, þá er hver skerðing á reglunni röng. Þess vegna er það í fyrsta lagi rangt, eins og nú er í 33. gr., að miða uppbótina við tíma eftir að verðhækkun á nauðsynjum var byrjuð; það átti að sjálfsögðu að miða við tíma áður en hækkunin byrjaði. Það upplýstist líka í Nd., að þessi breyting var nánast komin inn í ógáti, með fram eða mestmegnis af því, að tillögumenn hugðu, að betra væri að afla skýrslna um verðlag 1914 en 1913.

Það er enn fremur rangt, eða skerðing á reglunni, að setja dýrtíðaruppbótinni takmörk að ofan. Ef regla stjórnarinnar er hæfileg, þá er takmörkunin röng. Jeg skal ekki segja, hvað hv. Ed. gerir að þessu leyti við greinina, en jeg vona, að hún hallist ekki að þeirri takmörkun, sem veldur beinum rangindum við einstaka menn. Jeg skal geta þess, að brtt. kom fram í Nd. um að setja takmarkið að ofan hærra, og var talsverð bót að henni, eftir atvikum, enda fjekk hún talsvert fylgi. En rjettast er að fella burtu takmörkunina að ofan.

Ef svo er, að ekki sje ódýrra að lifa í sveit en í kaupstöðum, þá ættu sveitaprestar að fá dýrtíðaruppbót, á sama hátt sem aðrir. Mín meining er að vísu sú, að þetta sje ekki rjett; jeg hygg, að mun ódýrra sje að lifa í sveit en í kaupstað. En þótt svo væri, og þess vegna væri eitthvað dregið úr uppbót sveitapresta, þá er regla sú, sem Nd. hefir sett um þetta í frv., ekki rjett. Setjum svo, að dýrtíðin lækki, og þá koma rangindin fram, því að þá hafa sveitaprestar, samkvæmt frv. nú, sömu uppbót sem áður. En vera má, að hjer verði fundin einhver önnur regla, t. d. laun prestanna lækkuð, uppbótin færð niður eða eitthvað þesskonar.

Einhver stærsta breyting, sem Nd. gerði á frv., var sú, að ætla læknum há laun að tiltölu, en hreyfa ekki við taxtanum. Stjórnin hafði tekið upp reglu, sem læknarnir sjálfir höfðu gefið tilefni til í fyrra, og þá virtust ánægðir með; en það verður varla hægt að átelja þá fyrir þetta, vegna þess, að þingið hefir gefið sjálft tilefni til þessa. Jeg skal geta þess, að í Nd. kom fram breytingartill. um lækkun launa lækna og hækkun taxtans; hafði hún talsvert fylgi, og virðist hafa aukist fylgi síðan.

En aðalatriðið í þessu máli er 33. gr., sem jeg vona að þessi hv. deild lagi sem mest í áttina til stjórnarfrv., og þá sjerstaklega tímatakmarkið fyrir gildi laganna, enda hefir það ákvæði fengið annað orðalag en flutningsmenn þess ætluðu, eða tilgangur þeirra var. Meiningin var, að eftir það tímatakmark, sem greinin setur, mætti endurskoða lögin. Þvílíkt ákvæði gæti verið hyggilegt, því að þótt frv. hafi verið vandlega íhugað að þessu leyti, þá er ekki loku fyrir það skotið, að eitthvert betra fyrirkomulag sjáist á næstu árum um vísitöluna, og er þá hyggilegt, að þingið hafi gert ráðstöfun til breytingar, ef þarf. En lengra en þetta er bæði óþarft og óhyggilegt að fara, því að ef þessi lög reynast vel, þá er óþarft að semja ný lög um þetta, en það væri nauðsynlegt, ef nefndu ákvæði yrði haldið óbreyttu.

Loks skal jeg geta þess um 8. gr. frv., að það var tilætlun mín, er jeg samdi frv., að embættismenn, sem hjeldu eftirlaunarjetti sínum, ættu að greiða alveg eins í tryggingarsjóð og lífeyrissjóð og hinir. Þetta hefir mikla þýðingu fyrir sjóði þessa, því að vöxtur þeirra og viðgangur er mikið undir því kominn, hvað borgað er í byrjun. Reynslan er sú, að slíkir sjóðir græða mest í byrjun. Jeg vona, að hv. nefnd athugi þetta atriði nákvæmlega, og hvort ekki muni jafnvel rjettara að hækka lífeyri og hækka þá jafnframt iðgjöldin.