02.09.1919
Efri deild: 46. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1271 í B-deild Alþingistíðinda. (1050)

26. mál, laun embættismanna

Frsm. (Kristinn Daníelsson):

Jeg leit svo á, sem ekki væri að svo komnu ástæða til þess að tala mikið um þetta mál nú við 1. umr., eftir þá meðferð, sem það hefir fengið í hv. Nd., enda munu og allir hv. þingdm. hafa fylgst með gangi málsins, meðan það var til meðferðar þar. Jeg hefi því ekkert að segja um málið fyrir hönd nefndarinnar, á þessu stigi. Engar brtt. eru enn komnar við frv., enda þarf nefndin nokkurn tíma til að athuga það.

Þessi orð mín taka auðvitað ekki til þeirra aths., sem hæstv. forsætisráðherra (J. M.) gerði við frv.; það var einmitt nauðsynlegt að heyra álit hans, sökum breytinga þeirra, sem frv. hefir tekið, þótt jeg fari ekki út í þær nú, og mun nefndin að sjálfsögðu taka þær allar til alvarlegrar íhugunar. Að sjálfsögðu get jeg ekkert um það sagt enn, hverjar muni undirtektir nefndarinnar við athugasemdir hæstv. forsætisráðherra (J. M.), enda má gera ráð fyrir, að hún verði ekki ein og óskift, en sjálfur er jeg samþykkur mörgum þeirra. Vænti jeg þess, að hæstv. forseti taki frv. ekki á dagskrá nema í samráði við nefndina.

Jeg skal, sem sagt, ekkert fara út í málið nú, enda er þess ekki þörf. Jeg get um hin almennu atriði vísað til nál., sem samvinnunefnd beggja deilda gaf út; er þar allítarlega gengið inn á helstu tildrög, lög og nauðsyn þessa máls, svo að nægilegt er til yfirlits. Jeg vil þó til athugunar hv. þingdm. leitast við að gera yfirlit yfir útkomu þá, sem er eða komið hefir fram í útgjaldadálkinum við þetta frv.

Laun allra embættismanna landsins hækka eftir stjórnarfrv. um 272,246 kr.

eftir till. nefndarinnar um .. 408,946 —

eftir meðferð Nd. um ... 427,750 —

Dýrtíðaruppbótin hækkar

eftir stjórnarfrv. um 170.000 kr. eftir till. nefndarinnar um . . 468.000 —

eftir meðferð Nd. um . . . . 364,250 —

Laun og uppbót til samans hækka þannig eftir stjórnarfrv. um 442,000 kr.

eftir till. nefndarinnar um... 876,946 —

eftir meðferð Nd. um .... 792,000 —

Laun og dýrtíðaruppbót nemur samtals, eftir meðferð Nd., 2,128,100 kr., á móti 1,336.100 kr. áður. Þær breytingar, sem Nd. hefir gert á frv., frá því að nefndin skildist við það, eru nálægt 20,000 kr. hækkun á launum, en 103,000 kr. lækkun á dýrtíðaruppbót. En hjer er þess að gæta, að allur er þessi útreikningur miðaður við þann stuðul, sem nefndin notaði, sem sje 100%. En nú er mjer hermt, að líkur sjeu til þess, að stuðullinn lækki eftir verðlagi því, sem verði í haust, og muni nema nálægt, 85%, og myndi þetta hafa æðimikil áhrif á kostnað landssjóðs, svo að eftir því myndi dýrtíðaruppbótin lækka líklega um 150 þús. kr., eða því sem næst. Þarf jeg svo ekki að sinni að tala um þetta mál, nema tilefni gefist til, ef athugasemdir kunna fram að koma frá einhverjum hv. þingdm.