08.09.1919
Efri deild: 51. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1282 í B-deild Alþingistíðinda. (1059)

26. mál, laun embættismanna

Sigurjón Friðjónsson:

Jeg hefi komið fram með brtt. á þgskj. 705, og skal jeg leyfa mjer að fara um hana nokkrum orðum.

Prestar til sveita hafa þau hlunnindi fram yfir aðra starfsmenn ríkisins, að þeir eiga kost á að fá bújarðir, sem venjulega eru bestu jarðirnar í hverri sveit.

Hafa þeir sumir haft, og hafa enn, jafnframt prestskapnum stórbú, er gefa af sjer allmiklar tekjur. Tekjur af búskap þeirra fara hækkandi með dýrtíðinni, eins og annað, og finst mjer ekki ástæða til, þar sem svo stendur á, að þeir fái sjerlega háa launauppbót.

Aðrir prestar hafa ekki gagn af jörðunum, eða að minsta kosti ekki stórbú á þeim, vegna þess, að þeir eru að eðlisfari ekki hneigðir til búskapa; og loks vantar unga presta skilyrði til að geta reist bú á jörðunum, sökum dýrtíðarinnar eða annara orsaka. Sýnist mjer sanngjarnt, að þeir fái fulla launauppbót.

Brtt. mín gengur í þá átt, að þeir, sem búskap stunda og hafa gagn af honum, fái 1/3 launauppbótar; en hinir, sem ekki hafa gagn af búskap, hvort sem það er af því, að þeir eru ekki færir um það, eða vegna viljaleysis, fái fulla uppbót, og sje prestum í sjálfsvald sett, hvora leiðina þeir vilja fara.