08.09.1919
Efri deild: 51. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1284 í B-deild Alþingistíðinda. (1062)

26. mál, laun embættismanna

Fjármálaráðherra (S. E.):

Það er að eins örstutt aths. Fjárlögin eru til umræðu í Nd., og býst jeg því ekki við að geta setið á fundi í þessari hv. deild.

Jeg vil taka undir það með háttv. þm. Ak. (M. K.), að jeg sje enga ástæðu til að fara að setja Skaftafellssýslu og Barðastrandarsýslu í lægri launaflokk en gert var í hv. Nd.

Jeg hefi verið sýslumaður í Skaftafellssýslu í 6 ár, og er því mjög kunnugur þar, og sömuleiðis hefi jeg verið sýslumaður í mörgum öðrum sýslum og get því borið þær saman.

Þegar jeg ber þær saman, sje jeg glögt, að ekki nær nokkurri átt að setja Skaftafellssýslu í lægri launaflokk en gert var í Nd. Sú sýsla er mjög erfið yfirferðar og þarf því á ungum starfskröftum að halda. Þar koma iðulega fyrir skipsströnd. — þó þau hafi auðvitað verið minni síðan stríðið hófst — er gera það að verkum, að sýslumaðurinn þarf oft að vera langvistum burt frá skrifstofunni, en þá hrúgast auðvitað saman mikið af málefnum, er þarf afgreiðslu, og kemur því vinnan ójafnt niður. Er jeg fyrir mitt leyti í engum vafa um það, að sýsla þessi á undir öllum kringumstæðum að vera í 1. flokki.

Í Barðastrandasýslu hafa aukatekjur verið tiltölulega mjög miklar og finst mjer því ranglæti að setja þá sýslu í lægri launaflokk en hv. Nd. gerði, þegar þeim er kipt burt.

Háttv. þm. munu nú ef til vill segja, að frv. þetta sje flutt af stjórnarinnar hálfu og því kynlegt, að jeg skuli tala á móti þeim breytingum, er ganga í þá átt, að færa það nær stjórnarfrv. En því er að svara á þá leið, að þó stjórnin flytji frv., þarf engan veginn svo að vera, að allir ráðherrarnir sjeu sammála um öll smáatriði.

Hvað Hornafjarðar- og Síðulæknishjeraði viðvíkur, finst mjer ekki rjett að flytja þau niður í lægri launaflokk, þar sem hvergi mun hafa verið örðugra að fá lækni en þar. (Forseti: Í 4 ár hefir enginn læknir fengist til að sækja um Síðuhjerað). Athugasemd hæstv. forseta sýnir, að sjálfsagt er að setja þetta hjerað í hæsta launaflokk. Vona jeg, að brtt. hv. nefndar verði ekki samþyktar, og álít, að það ætti ekki að koma til mála, þegar jafnskýrar upplýsingar eru fyrir hendi frá landlækni.

Jeg vildi taka þetta fram strax, þar sem fjárlagaumræður eru nú í Nd., og jeg býst því ekki við að geta verið við umr. í þessari hv. deild, en að sjálfsögðu mun jeg koma og greiða atkvæði um frv.