08.09.1919
Efri deild: 51. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1293 í B-deild Alþingistíðinda. (1066)

26. mál, laun embættismanna

Magnús Torfason:

Það lítur út fyrir, að það eigi að spara þingkostnaðinn — ekki lagt í húsið — en hafa frv. fyrir eldsneyti, en það hefir ekki tekist hvað mig snertir.

Jeg skil svo 8. gr., að það sje ætlunin, að lögin verki aftur fyrir sig, og er það alveg ný meðferð um slík lög. Það hefir áður verið gert einu sinni, til skaða fyrir embættismennina. Það var þegar Ísafjörður var látinn vera út undan, en það hefndi sín, maðurinn sótti burtu og eftirmaður hans bakaði landssjóði 40–50 þús. kr. útgjöld. Sjerstaklega er þetta tilfinnanlegt fyrir þá embættismenn, er hafa hærri laun; það gerir þetta ákvæði um að laun og uppbót megi ekki nema meiru en 9500 kr. á ári.

Þá vil jeg benda á það, að síðast í 3. málsgr. 8. gr. er talað um sýslumenn og bæjarfógeta, en er þá ætlunin, að lögreglustjóri Reykjavíkur sje undanskilinn? Ef svo er ekki, hefði átt að nefna hann.

Þá er 11. gr. Í 3. málsgr. hennar er talað um sýslumanninn í Gullbringu- og Kjósarsýslu. og í 4. málsgr. um sýslumanninn í Vestmannaeyjum, en við höfum bæjarfógeta í Hafnarfirði og Vestmannaeyjum. Nú er mjer spurn, er þetta með ásettu ráði gert? Jeg sje ekki, hvers vegna sýslumaðurinn og bæjarfógetinn í Gullbringu- og Kjósarsýslu á ekki að vera í sama flokki og hinir bæjarfógetarnir, og þegar um bæjarfógetann í Vestmannaeyjum er að ræða, þá verðum við að muna það, að hann er jafnframt umboðsmaður landssjóðs í Eyjunum, og það starf eykst með hverju ári. Það er því nauðsynlegt fyrir ríkissjóð að eiga þar völ á góðum manni í embættið.

Í 11. gr. er talað um kostnað við starfrækslu þessara embætta, en þar sjest ekki, hvort ætlast er til þess, að þessi flokkur sje dagpeningalaus á ferðalögum. Nú hafa þeir enga dagpeninga, en þessu hagar alt öðruvísi þegar ræða er um menn á föstum launum; því meira sem þeir hafa að gera, því meira verða þeir að vera frá heimilum sínum, og þeim mun meiri verður ferðakostnaður þeirra, og launaafgangur minni. Þetta gat gengið á meðan aukatekjurnar voru, því þá mátti segja, að þær væru nokkurskonar uppbót.

Hv. þm. Seyðf. (Jóh. Jóh.) mintist á, að ýmsum starfsmönnum væri ætlað mistalningarfje, og vil jeg í því sambandi minna á, að þessum embættum, einkum þeim stærri, fylgir feikna peningaábyrgð; jeg veit t. d., að á Ísafirði er það um miljón króna, er gengur í gegnum hendur þessa embættismanns á ári. En það er ekki eingöngu peningaábyrgðin, heldur og enn önnur merkilegri ábyrgð, nefnilega það, að tekjurnar sjeu rjett settar. Það er til nokkuð, sem heitir úrskurður stjórnarráðsins. Þessir úrskurðir koma vanalega 2–3 árum eftir að innheimtan fór fram, og þeir dæma oft sýslumenn til að greiða svo nefnd vanheimt gjöld. Þannig var einu sinni sýslumaður eltur í 3 sýslur fyrir 1 — einn — eyri. Á ríkissjóður að greiða þessar skyssur t. d. þegar um útlending er að ræða, sem farinn er úr landi? Í sambandi við sýslumennina eru aðrir starfsmenn, er heita umboðsmenn; mjer skilst, að það eigi ekki að afnema þá. Á þá þóknun til þeirra að greiðast af skrifstofufjenu? Því ekki geta þeir fengið einhvern hluta af innheimtulaunum eða skipagjöldin, eins og verið hefir.

Greinin stefnir yfirleitt að því, að gera jöfnuð á embættunum, og má segja, að það sje gott frá almennu sjónarmiði og svari til þeirra skoðana, er nú ríkja mest úti um heiminn. Jeg skal leiða þetta hjá mjer, en jeg vil benda á, að þar sem mikið er um ferðalög og annríki, þarf ungan og duglegan ferðamann, en þegar hann tekur að eldast og þreytast til ferða, þá er það skylda stjórnarinnar að flytja hann í annað hægara embætti.

Þá vildi jeg athuga ofurlítið 12. gr. Samkvæmt henni sje jeg ekki annað en að það sje sjálfgefið fyrir landlækni að sækja um Hesteyrar- eða Nauteyralæknishjerað, því hann getur sem landlæknir ekki haft meira en 9500 kr. árslaun, en læknirinn í þessum læknishjeruðum o. fl. hafa 9000 kr. föst laun og auk þess praxis og svo ágætan tíma til margs annars. Jeg segi þetta ekki vegna þess, að jeg ætli að bera fram till. um að lækka laun þessara lækna, því jeg veit vel, hvernig á þessu stendur. Það kemur af læknapólitíkinni, er var flutt hjer 1917, en hvort sú stefna er hyggileg er annað mál. Þá var löggjafarvaldið kúgað til að ganga inn á þá braut, sem það gerði, og er gott dæmi þess uppbótin á aukatekjum læknanna. Það er sagt, að einn læknir hafi gefið upp svo miklar aukatekjur, að dýrtíðaruppbótin af þeim nam 4800 kr., svo hann hafði alls um 15,000 kr. tekjur af læknisstarfinu; auk þess má ske einhver sprúttrecept, sem hann hefir ekki sett á reikninginn, sem jeg skal ekki um segja. Jeg hygg nú, að stjórnarráðið hefði getað sett upp í þá eyðu, sem var í lögunum um þetta, og skoða það í sambandi við aðra dýrtíðaruppbót, að það mætti ekki nema meiru en eitthverju tilteknu, og hefði þá mátt ef þess álitist þörf, setja bráðabirgðalög um það. En jeg átel ekki, þótt svo hafi ekki verið gert. Jeg efa ekki, að stjórnarráðið hafi verið til neytt að gera svo, og það hefði bara gert ilt verra að halda þessu fyrir þeim. Jeg segi þetta hjer vegna þess, að verið er að jafna menn, og það á þann hátt, að sjerstaklega er lagst á fremstu og þýðingarmestu embættin. Þessi stefna er ekki holl fyrir þjóðfjelagið, og er jeg viss um, að hún reynist með tíð og tíma stórskaðleg. Það þarf eitthvað til að keppa um í embættisstjettinni, en með þessu er komið í veg fyrir alla rjettláta kepni. Það má ekki heldur sníða svo laun helstu embættismannanna, að þeir geti ekki komið fram samkvæmt stöðu sinni. Og jeg fyrir mitt leyti er fastur á því, að árangurinn af þessu verður ekki neitt betri, síður en svo, en af læknapólitíkinni 1917.

Þá vildi jeg spyrja hæstv. forseta, hvort kostnaðurinn við starfrækslu landlæknisembættisins sje ekki margfalt meiri en hann var áður, fyrir svo sem 5 árum? (Forseti: Jú) Jeg þóttist viss um, að svo væri. Jeg veit, að kostnaðurinn við starfrækslu sýslumannsembættisins á Ísafirði hefir mikið meira en þrefaldast frá því, sem hann var fyrir 15 árum. Því hætta er á því, að embættinu verði illa þjónað, ef ekki er breytt á 5 ára fresti. En það er því meiri ástæða til þess að láta slíkt ekki geta komið fyrir, þar sem hvötin til þess að gæta hagsmuna landssjóðs er vafalaust tekin af embættismönnum með því að svifta þá aukatekjum sínum. Jeg er því hræddur um, að það sje öðru nær en að þetta ákvæði launalaganna verði til að spara.

Jeg vil líka benda á það, að það er öðru nær en að laun embættismanna hækki í raun og veru, eins og í lögunum er gefið í skyn, þegar aukatekjur eru teknar frá, en þær hafa oft og einatt verið megnið af tekjum þeirra. Jeg sje ekki heldur, hvernig verður hjá því komist að láta þá menn, sem hafa mikla peningaábyrgð, hafa eitthvað fyrir vanhöldum.