13.09.1919
Efri deild: 55. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1324 í B-deild Alþingistíðinda. (1082)

26. mál, laun embættismanna

Magnús Torfason:

Hæstv. forsætisráðherra (J. M.) talaði um, að landið væri fátækt, og þess vegna þyrftu laun embættismanna að vera lág. Jeg lít svo á, að launalögin sjeu fyllilega í samræmi við efnahag þjóðarinnar, því að áætluðu launin þar eru lág, ef rjett er saman borið.

Það lítur út fyrir, að 1. landsk. varaþm. (S. F.) hafi tekið upp orð hæstv. forsætisráðherra (J. M.). Hann hjelt því fram, að tekjur þjóðarinnar hafi ekki vaxið að sama skapi og laun embættismannanna. Útfluttar vörur þjóðarinnar hefðu ekki hækkað nema upp í 40 milj. úr 20 milj. En það er við þetta að athuga, að háttv. 1. landsk. varaþm. (S. F.) miðar við það árið, sem við stundum undir bresku samningunum. Nú, óðar en ófriðnum lauk, hefir þetta gerbreyst. Nú hækka allar útfluttar vörur, og það svo, að búast má við, að útfluttar vörur á yfirstandandi ári nemi 60–70 miljónum kr., eða jafnvel meiru.

Þá gat 1. landsk. varaþm. (S. F ) þess, að tekjuhalli væri mikill í fjárlögunum. En jeg vil benda honum á nál. á þgskj. 802 og brtt., sem fylgja því; því samkvæmt þeim verður tekjuauki.

Þá talaði hann um, að skattabyrðin hafi aukist mjög á landsmönnum. Þetta er ekki rjett, nema að nokkru leyti. Skattarnir verða að miðast við vöruverðið. Það er ekki sama, hvort 1 eyris skattur er greiddur af tólgarpundi, þegar það selst á 25 aura, eða þegar kr. 1.80 fæst fyrir það. Skattabyrðina verður að mæla „procentvis“. Annars fanst mjer þessar kvartanir undan skattabyrðinni koma úr hörðustu átt, þar sem vitanlegt er, að skattar landbúnaðarins hafa að eins sáralítið aukist. Það eru kaupstaðabúarnir og sjávarútvegsmennirnir, sem gætu kvartað.

Jeg vil benda hv. þm. (S. F.) á, að till. hans myndi hjálpa til þess að fækka fólki í landinu, ef hún næði fram að ganga. Þegar verið er að tala um, að þjóðin sje fátæk og geti ekki launað embættismönnum sínum, má spyrja, hvort þjóðin hafi þá efni á að launa embættismönnum sínum illa? Af lágum launum leiðir ljelegir menn. Aðsóknin að mentaskólanum er að vísu allmikil, en þeir, sem nokkur manndáð er í, eru farnir að gefa sig við alt öðru en embættisnámi, þegar mentaskólanáminu lýkur.

Að því er snertir hækkun hámarksins, þá er það misrjetti að takmarka launahæð embættismanna. Það er misrjetti, að menn, sem ætluð eru misjöfn laun, fái jöfn laun. Það er misrjetti, að þeir, sem eytt hafa litlu til náms síns, beri jafnt úr býtum og þeir, sem eytt hafa miklum tíma og fje. Það er einnig árás á sjálft þjóðfjelagið að takmarka laun ábyrgðarmestu og þýðingarmestu embættismannanna, eins og gert er í frv. Þjóðfjelaginu er það áríðandi, að þeir standi vel í stöðum sínum og dreifi ekki kröftum sínum með því að blanda sjer í öll hugsanleg fyrirtæki. Þjóðfjelagið tryggir sig ekki gegn því, nema með því að launa menn sína vel. Þá fyrst er hægt að gera strangar kröfur til þeirra.

Jeg kem ekki fram með brtt. um að hækka launamarkið mín vegna. Það er óvíst, að jeg komist nokkurn tíma undir launalögin. En þó svo yrði, þá skal jeg lofa því, að gefa þessar 1000 kr., sem það myndi muna mig, ef brtt. yrði samþykt, til einhverra þjóðnytja. Brtt. er því ekki gerð mín vegna, heldur til að leiðrjetta misrjetti, sem felst í frv.