13.09.1919
Efri deild: 55. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1325 í B-deild Alþingistíðinda. (1083)

26. mál, laun embættismanna

Jóhannes Jóhannesson:

Starf skrifstofustjóra Alþingis er nú orðið svo umfangsmikið og vandasamt, að ekki er að hugsa, að aðrir en afbragðs skrifstofumenn geti annað því. Þegar farið verður að halda þing árlega, sem ekki verður langt að bíða, er óhugsandi, að skrifstofustjóri geti gegnt nokkrum öðrum störfum. Nú gildir sú skipan, að skrifstofustjóri sje skipaður til eins kjörtímabils og hafi að árslaunum kr. 2400, en forsetar líta svo á, að starfinn sje vandasamari en það, að skrifstofustjóraskifti megi verða í hvert sinni þegar meirihlutaskifti verða í þinginu. Forsetar leggja því til, að skrifstofustjórastarfinn sje gerður að föstu embætti, sem stjórnarráðið veiti, og skrifstofustjóra verði ákveðin laun í launalögum, en þau mega ekki vera lægri en ákveðið er í brtt. minni. Núverandi forsetar ætlast til, að núverandi skrifstofustjóri njóti húsnæðis þess, ásamt hita og ljósi, er hann hefir í Alþingishúsinu, meðan hann er við þetta starf. Enn fremur er ætlast til, að gerð verði breyting á 11. gr. þingskapanna, samkvæmt þeirri breytingu, sem verður gerð á embætti skrifstofustjóra, á næsta þingi, þegar þau verða endurskoðuð í tilefni af stjórnarskrárbreytingunni.

Áður en jeg lýk máli mínu vil jeg leyfa mjer að beina stuttri fyrirspurn til hv. frsm. (K. D.) og hæstv. forsætisráðh. (J. M.), sem stendur í sambandi við það, að við 2. umr. hjer í deildinni var skotið inn í 33. gr. því ákvæði, að „allir þeir, sem njóta eftirlauna samkvæmt eftirlaunalögum“, skuli fá sömu dýrtíðaruppbót og þjónandi embættismenn. Nú er það spurning mín, hvort sama eigi ekki að ganga yfir þá, sem eru eða verða kunna á biðlaunum? Jeg spyr ekki um þetta vegna þess, að jeg sje í vafa um, að ætlast sje til þessa, heldur af því, að þeirra, sem njóta biðlauna, er sjerstaklega getið í lögum um dýrtíðaruppbót embættismanna, nr. 33, frá 22. nóvember 1918.

Jeg vænti svo ákveðins svars frá háttv. frsm. (K. D.) og hæstv. forsætisráðherra (J. M.).