13.09.1919
Efri deild: 55. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1333 í B-deild Alþingistíðinda. (1088)

26. mál, laun embættismanna

Magnús Kristjánsson:

Jeg hefi ásamt hv. 1. þm. Rang. (E. P.) komið með brtt. á þgskj. 765, og þarf jeg ekki að fjölyrða um hana, þar sem henni hefir verið tekið vel af þeim, er um hana hafa talað, en það eru hæstv. forsætisráðherra (J M.) og hv. frsm. (K. D.). Jeg álít, að það sje af misgáningi einum, að staða þessi er komin inn í launafrv., enda hefi jeg litið svo á, að hún gæti ekki skoðast sem fast embætti.

Þegar starfi þessi var stofnaður og samskonar starfi á Akureyri, var aðallega haft tvent fyrir augum; annars vegar var litið á þörf þessara hjeraða, vegna stærðar þeirra og fólksfjölda, en hins vegar, að ungum kandidötum gæfist færi á að vera þar nokkurn tíma og kynnast starfinu, en ekki gert ráð fyrir, að nokkur ílengdist við það.

Því fremur er ástæða til að nema þennan lið úr frv., þar sem á ferðinni er frv. um sjerstakt læknishjerað í Bolungarvík, enda væri landsfjórðungunum gert mishátt undir höfði, ef þrjú föst læknisembætti yrðu lögákveðin á þessu litla svæði.

Frá þessu sjónarmiði sjeð finst mjer því sjálfsagt, að brtt. okkar verði samþykt.

Hins vegar er það ekki ætlun okkar að baka þessum manni óþægindi eða fjártjón, og er því gert ráð fyrir, að honum verði í fjárlögunum veitt hæfileg upphæð, þangað til hann á kost á viðunanlegu embætti annarsstaðar.

Annars er mál þetta svo augljóst, að jeg finn ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um það, en vona að það fái góðar undirtektir