13.09.1919
Efri deild: 55. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1333 í B-deild Alþingistíðinda. (1089)

26. mál, laun embættismanna

Sigurjón. Friðjónsson:

Það eru að eins örfáar athugasemdir út af því, sem sagt hefir verið um brtt. mína á þgskj. 749 og ræðu þá, er jeg mælti fyrir henni.

Hv. þm. Ísaf. (M. T.) tók rjettilega fram, að tekjur þjóðarinnar undanfarandi ár hefðu verið minni, vegna bresku samninganna, en ella hefði orðið. Það er rjett, að tekjur hennar munu verða meiri á yfirstandandi ári, en ekki eru líkur fyrir því, að þær hækki að sama skapi og lífsnauðsynjarnar yfirleitt.

Í sambandi við það, að útreikningur minn á því, hvern útgjaldamun frv. þetta hefði í för með sjer fyrir ríkissjóð, kom ekki heim við útreikning hv. sessunauts míns. (K. D.), skal jeg geta þess, að munurinn liggur í því, að hann reiknaði út mismuninn á laununum eins og þau eru nú og verða eftir frv., en jeg reiknaði aðallega út muninn á laununum eins og þau voru árið 1914 og verða eftir frv.

Enn fremur er villa í reikningi hv. frsm. (K. D.), sem skiftir talsverðu máli. Hann gengur sem sje út frá því, að dýrtíðaruppbótin nemi nú 600 þús. kr. Það getur tæplega verið rjett, nema því að eins, að dýrtíðaruppbót lækna sje talin með og auk þess allra annara starfsmanna, einnig þeirra, sem ekki eru teknir upp í launafrumvarpið.

Hv. þm. Ísaf. (M. T.) mintist á, að ekki sæti á mjer sem fulltrúa landbúnaðarins að kvarta yfir, að sjávarbúum hafi verið íþyngt með sköttum. Jeg tel mig ekki sjerstaklega fulltrúa landbúnaðarins og þykist ekki hafa sýnt neina sjerdrægni eða ósanngirni í skattaukafrv. þeim, sem fram hafa komið. (M. T.: Þingmaðurinn hefir verið sanngjarnari en margir aðrir).

Hv. þm. (M. T.) mintist á það, að þegar launakjörin væru ljeleg, fengist ekki annað en ljelegir embættismenn, og getur það verið rjett að nokkru leyti. En hitt hefir þó alloft komið fyrir, að mestu menn þjóðfjelagsins hafa átt við ljeleg kjör að búa, og mætti nefna ýms dæmi í þá átt.

Hv. frsm. (K. D.) taldi að jeg hefði litið á frv. frá sjónarmiði þeirra, sem eiga að sjá fyrir hag ríkisins, en ekki litið eins til þeirra, sem launin eiga að fá fyrir starf sitt. Þó að jeg að sjálfsögðu hafi litið til hins fyr nefnda, þá hefi jeg þó fyrst og fremst litið á nauðsynina til þess, að halda launakjörunum í rjettu horfi.

Það hefir rjettilega verið tekið fram, að brtt. mín verkar til lækkunar á launum, sem nema 3000–6500 kr., en til hækkunar á launum, sem þar eru fyrir ofan, en jeg sje ekki, að það sje ósanngjarnt, hafi launastiginn verið rjett settur upphaflega.

Ef launastiginn er rjettur, eiga þeir embættismenn, sem hæst eru launaðir, rjett á dýrtíðaruppbót eins og hinir, sem lægri laun hafa.