13.09.1919
Efri deild: 55. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1335 í B-deild Alþingistíðinda. (1090)

26. mál, laun embættismanna

Frsm. (Kristinn Daníelsson):

Út af fyrirspurn hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) um það, hvort talin væri með í útreikningi mínum hækkun sú á útgjöldunum, er dýrtíðaruppbót á eftirlaunum hefði í för með sjer, skal jeg geta þess, að útreikningurinn er gerður þegar frv. kom frá Nd., en af því leiðir, að mismunurinn hækkar um ca. 40 þús. kr. við breytingu þá, er gerð var hjer í deild á launakjörum presta, og auk þess er hækkun vegna eftirlaunanna ekki talin með, svo láta mun nærri, að munurinn nemi einni miljón króna. Láðist mjer að geta þessa, er jeg tók til máls áðan.

Út af ræðu hv. 1. landsk. varaþm. (S. F.) skal jeg taka það fram, að dýrtíðaruppbótarhæð sú, er jeg hefi nefnt, er reiknuð út af hagstofustjóra, eftir því sem ríkisfjehirðir hefir gefið upp að hún hafi verið greidd.

Út af því, er hæstv. forsætisráðherra (J. M.) mintist á um skrifstofustjóra Alþingis, skal jeg láta þess getið, að jeg geri það ekki að neinu kappsmáli, hvort brtt. á þgskj. 785 nær fram að ganga eða ekki. Jeg er sammála honum um það, að yngri lög breyta eldri lögum að svo miklu leyti, sem þau fara í bág við þau, en ekki þeim ákvæðum eldri laganna, er geta staðist, þrátt fyrir yngri lögin. Ef t. d. brtt. á þgskj. 785 yrði samþ. breyttist auðvitað launaupphæðin í 11. gr. þingskapanna, en önnur breyting yrði ekki á þeirri grein.