18.09.1919
Neðri deild: 67. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1337 í B-deild Alþingistíðinda. (1094)

26. mál, laun embættismanna

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Mjer þykir óþarfi að ræða þetta mál mikið nú, eins og það liggur fyrir. Það hefir verið gert rækilega áður, bæði um sjálft frv. og brtt.

Eins og nál. ber með sjer, hefir meiri hluti nefndarinnar fallist á, að frumvarpið verði samþ. nú, eins og það kemur frá háttv. Ed. En það er ekkert talað um þær breytingar, sem gerðar hafa verið á frv., í nefndarálitinu, og skal jeg því geta þeirra helstu.

Þá er fyrst breyting á 11. gr. frv., fækkun á launaflokkum sýslnanna.

Það kom tillaga fram um þetta hjer í Nd., en var feld með miklum mun atkvæða. Nefndin sá hins vegar ekki, að ástæða væri til að gera hana að ágreiningsefni. Sjerstaklega af því, að aðrar leiðir eru til að jafna þennan mismun, t. d. að veita þeim mun minni skrifstofukostnað en annarsstaðar.

Þá er og önnur lítil breyting við þessa sömu grein, viðvíkjandi aukatekjunum. Það hefir verið bætt inn í greina, til að ákveða nánar, innheimtulaunum af tollum og útflutningsgjöldum.

Þá er næst sú breyting gerð á 12. gr., að ritfje landlæknis er numið burtu. Sömuleiðis hefir ritfje biskups verið numið burt í 22. gr. Aftur hefir fjárveitinganefnd Ed. lagt til og það verið tekið upp, að það skuli goldið samkvæmt reikningi. Nefndinni fanst heldur ekki ástæða til að gera ágreining út af þessu atriði. Hún trúir þessum mönnum vel til þess að gefa sanngjarnan reikning.

Þá hafa ekki verið gerðar breytingar á frv. fyr en við 33. gr. — Þá er fyrst, að felt hefir verið úr greininni 1. okt 1914. — Þetta virðist vera rjett, því það er skýrt tekið fram á öðrum stað í greininni, að miðað skuli við haustið 1914, en ekki við júlímánuð 1914. Þessi breyting hefir því engin áhrif á verðstuðulinn.

Þá hefir því líka verið bætt inn í þessa grein, að launauppbót skuli líka fá allir þeir, sem eftirlauna njóta samkvæmt eftirlaunalögunum. — Þetta var að nokkru gert í samráði við nefndina í Nd. En hv. Ed. hefir ekki gengið lengra en þetta, að það nær ekki til annara starfsmanna, sem hafa eftirlaun á annan hátt en samkvæmt eftirlaunalögunum.

Þá hefir enn fremur verið felt úr sömu grein, að þessi uppbót gildi að eins til 1925. Meiri hluti nefndarinnar gat fallist á þetta, og get jeg um það vísað til þess, sem áður hefir verið sagt.

Enn fremur hefir verið felt úr 33. gr., að miðað skuli við verðlag í fjórum aðalkaupstöðum landsins, og sett Reykjavík í staðinn. Eftir atvikum sá nefndin ekki ástæðu til að gera þetta að ágreiningi milli deilda, enda taldi hagstofustjóri hitt mjög erfitt. Líka er á það að líta, að flestir embættismenn eru búsettir í Reykjavík. Það virðist því rjettara að miða við þann verðstuðul, sem gildir fyrir þá, heldur en vöruverð í fjórum aðalkaupstöðum landsins.

Þá er loks í sömu gr. gerð sú breyting, að uppbótin til presta, sem ekki er skylt að búa í kaupstað eða verslunarstað, er færð upp úr helmingi upp í tvo þriðju launauppbótar. — Þetta er að vísu breyting, sem skiftir talsvert miklu máli. En þó fjelst meiri hluti nefndarinnar á, að sanngjarnt væri að gera ekki meiri mun á þeim og prestum, sem búa í kaupstað, en hjer er gert.

Þá eru hjer nokkrar brtt. frá einstökum þingmönnum og skal jeg minnast lauslega á þær og afstöðu nefndarinnar til þeirra.

Fyrst er brtt. á þgskj. 851, við 7. gr. frá hv. þm. Mýra. (P. Þ.). Fer hún fram á, að 7. gr. falli burt. Nefndin fjelst á þessa breytingu, enda er hún sjálfsögð. Það er að eins af misgáningi, að gr. var ekki feld burt, því í frv. stjórnarinnar var gert ráð fyrir sameining embætta, en nú er hún horfin.

Þá er brtt. á þgskj. 825, við 9. gr., að á eftir henni komi ný grein, þar sem skrifstofustjóra Alþingis er bætt inn í frv. — Þessi till. ber það með sjer, að hún nær vafalaust samþykki hjer í hv. deild. Og nefndin býst heldur ekki við, að háttv. Ed. geri hana að neinu ágreiningsatriði. Annars eru óbundin atkvæði um tillöguna í nefndinni.

Næst er brtt. á þgskj. 873, við 12. gr., að bætt sje inn í frv. Hólslæknishjeraði, sem er nýstofnað með lögum, eins og kunnugt er. Þessi tillaga er því ekki nema sjálfsögð, og nefndin álítur, að hjeraðinu hafi verið skipað niður í rjettan launaflokk.

Þá koma brtt. á þgskj. 855 og 838. Þessar brtt. hafa áður verið samþ. hjer í hv. deild og fara fram á að færa læknishjeruð milli flokka. — Um þetta áskilja nefndarmenn sjer óbundin atkvæði. En eins og sjest í nefndarálitinu, þá láta nefndarmenn þess getið, að þó þeir hafi áður greitt till. atkvæði sitt, sem feldar hafa verið í hv. Ed., þá muni þeir ekki gera það nú, til þess að gera ekki ágreining milli deilda.

Þá er brtt. á þgskj. 836, frá háttv. 2. þm. Árn. (E. A.), við 33. gr., að saman lögð laun og dýrtíðaruppbót dómenda í hæstarjetti megi nema 10,500 krónum. Það hefir áður komið fram till. um, að í stað 9,500 kæmi 10,500 kr., en var feld hjer í Nd. En sú breyting gilti alment, en þessi nær að eins til hæstarjettardómara. En þó áleit nefndin, að till. mundi ekki fá byr í háttv. Ed., og sjer hún sjer því ekki fært að mæla með henni.

Þá er enn fremur brtt. á þgskj. 847, við 33. gr., frá háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) og háttv. þm. Borgf. (P. O.). Hún fer fram á það, að setja aftur inn í frv. þau ákvæði, sem háttv. Ed. feldi burtu, fyrst að launauppbótin skuli greidd fyrst um sinn til ársloka 1925, að í staðinn fyrir Reykjavík komi í fjórum aðalkaupstöðum landsins, og enn fremur að uppbótin til presta, sem ekki er skylt að búa í kaupstað, skuli færð niður úr 2/3 niður í hálfa launauppbót. Háttv. flutningsmenn hafa ekki athugað, að það þarf að breyta a-lið, því hann fellur ekki inn í frv. — Annars hefir áður verið rætt um þetta. Jeg vil ekki fara að taka það upp aftur. En ef færðar verða fram einhverjar nýjar ástæður, þá skal þeim verða svarað. — Viðvíkjandi breytingunni um fjóra kaupstaðina, þá vill nefndin ekki ganga inn á að setja það aftur inn í frv., með fram af því, að hún býst við, að hv. Ed. haldi fast við sitt. Sama er að segja um launauppbótina til presta.

Jeg skal svo ekki fjölyrða frekar um málið. En jeg vænti þess, að hv. þm. fari ekki að telja fram sömu ástæður og áður hafa verið nefndar, svo að umræður verði ekki lengri en þörf er á.