18.09.1919
Neðri deild: 67. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1343 í B-deild Alþingistíðinda. (1095)

26. mál, laun embættismanna

Gísli Sveinsson:

Jeg vildi að eins segja örfá orð út af brtt., sem jeg ásamt mörgum fleiri háttv. þm. ber fram, á þgskj. 825 Fer hún fram á það, að ný grein komi í frv., er segir fyrir um það, að skrifstofustjóri Alþingis skuli og launaður samkvæmt launalögum.

Eins og hv. þm. sumum mun kunnugt, þá kom það til atriða á þingi, bæði til nefndarinnar og fleiri háttv. þm., að skrifstofustjórinn yrði líka tekinn með í þetta frv. En eftir því, sem fram kom í nefndunum í báðum deildum, þótti það ekki tiltækilegt, eins og ákvæðið hljóðaði þá, því að þingmenn hafa talið sjálfsagt og heppilegast, að þingið hefði um þennan starfsmann æðsta vald, eins og um aðra starfsmenn Alþingis. En með því ákvæði, sem brtt. þessi leggur til, er að engu skert fullveldi Alþingis um þetta mál, þar sem gert er ráð fyrir, að forsetar Alþingis í sameiningu skipi skrifstofustjórann.

Með því er unnið það, sem menn hafa viljað láta standa, að Alþingi hefir aðalvaldið, en manninum er launað samkvæmt launalögunum. Eins og menn sjá, eru launin ákveðin 4000 kr. í upphafi, og hækkandi upp í 5000 kr. Er það einu þúsundi lægra en laun skrifstofustjóra stjórnarráðsins.

2. brtt. er bein afleiðing af þessari, og fer því fram, að numin sje úr gildi ein málsgrein úr þingsköpum Alþingis. Er það ákvæðið um laun og ráðningu skrifstofustjórans. Hjer eftir verður embættið veitt sem æfistarf, samkvæmt þeim reglum, sem gilda um aðra embættismenn.

Mjer þykir ekki þurfa að segja fleira um þessa till., því að víst má telja, að hún gangi í gegnum hv. deild og þingið alt, þar sem með þessu orðalagi er numið burtu það er áfátt þótti.