18.09.1919
Neðri deild: 67. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1349 í B-deild Alþingistíðinda. (1102)

26. mál, laun embættismanna

Sveinn Ólafsson:

Það var víst hv. 2. þm. N.-M. (Þorst. J.), sem lagði nokkra áherslu á, að Hróarstungulæknishjerað yrði flutt úr 2. flokki í 3. flokk. Jeg vil nota tækifærið, þar eð jeg er kunnugur á þessum slóðum, til þess að lýsa því yfir, að mjer finst því skipað í þann stað, sem það eigi að vera á, og sje það fullsæmt af að sitja þar. Jeg get ekki fallist á, að það sje svo stórt eða örðugt yfirferðar, að það eigi að vera í 3. flokki, þegar nú er ráðgert að skifta út úr því Bakkahjeraði. Jeg vildi skjóta þessu fram, af því að jeg þykist vita, að ýmsir hv. þm. sjeu ekki kunnugir þar eystra.

Hins vegar var það hv. þm. N.-Ísf. (S. St.), sem kastaði smávægilegum hnútum að mjer, og bar hann mjer það á brýn, að jeg væri að vekja upp drauga, til þess að tefja fyrir framgangi málsins. Það mætti þá eigi síður segja, að hann gerði sjer far um að glíma við drauga. Hann mælir hjer á móti því, að færa frv. í þann búning, sem það hafði hjer úr deildinni. Ástæða hans móti c.-lið brtt. er sú, að hlunnindin, sem prestar hafi áður haft, er þeir fengu góðar jarðir til ábúðar, sjeu nú úr sögunni og orðin að engu. Ef þessi ástæða hans væri rjett, að jarðirnar væru engin hlunnindi, þá hlyti það sama að gilda um bændur yfirleitt, og væri nú svo, að jarðirnar væru orðnar þeim byrðarauki, þá vari lítið vit í að binda þeim þá skattabyrði sem þessi lög gera, því að auðvitað lendir mikill hluti af útgjöldunum, er þetta hefir í för með sjer, á þeirra herðum. Þá fanst þessum hv. sama þm. (S. St.), að ef þetta ætti að gilda um prestana, þá ætti það og að gilda um aðra embættismenn, er í sveit byggju. Jeg er ekki frá því, að svo megi vera, og væri það sanngjarnlegt, en þeir eru harla fáir embættismennirnir, sem í sveit búa, nema þá helst læknar, en þeir eru framar öðrum bundnir embættisstarfi og síður hæfir til að sinna sveitabúskap. En af því að starf sveitaprestanna er víðast fremur ljett, þá er ástæða til að taka það til greina á þann veg, að draga úr uppbótinni. Að þetta hefði í raun og veru átt að gilda um alla, sem afla sjer tekna utan embættis, er sanngjarnlegt, en líklega er það ókleift vegna erfiðleika á að greina eða flokka þá eftir slíkri aukaatvinnu. Og að því er kemur til þeirra embættismanna í Reykjavík, sem eiga hluti í arðvænlegum fyrirtækjum, svo sem sjávarútvegi, þá má því svara hv. þm. (S. St.), að enginn varnar prestunum að eiga hlut í arðvænlegum fyrirtækjum, og þurfa þeir ekki að búa í Reykjavík til þess.