08.09.1919
Neðri deild: 58. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í B-deild Alþingistíðinda. (111)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg vildi að eins benda háttv. frsm. (B. J.) á það, að sumir tollar hafa nú þegar verið hækkaðir, eins og t. d. vörutollurinn o. fl.

En það er alveg rjett, að ef þingið vildi ganga inn á að margfalda alla tolla, eins og hv. frsm. (B. J.) leggur til, þá mundi það auka tekjurnar að miklum mun.

En jeg hygg, að frv. um það myndi eiga hjer erfitt uppdráttar.

Segjum t. d. að hækka ætti kaffitollinn, sem nú er 30 aur., upp í 90 aur. á kg., en minna mundi það varla verða, ef farið væri eftir verðlagsskrá. Jeg býst við, að það mætti ekki lítilli mótspyrnu.

Annars getur svo farið, að stjórnin verði neydd til að hækka þann toll, og mun þess ekki langt að bíða, að fram komi till. um það.

Annars get jeg vísað til þess, sem jeg hefi áður sagt um þetta mál.