18.09.1919
Neðri deild: 67. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1358 í B-deild Alþingistíðinda. (1110)

26. mál, laun embættismanna

Pjetur Jónsson:

Hæstv. forsætisráðh. (J. M.) talaði um brtt. á þgskj. 847 og taldi hana óþarfa. Hann vildi teygja orðin „fyrst um sinn“, svo þau væru nóg í hennar stað. Jeg ætla ekki að fara hjer út í lögskýringar, en jeg þykist hafa tekið eftir því, að lög eru yfirleitt skýrð í öfuga átt við það, sem hæstv. forsætisráðh. gerir hjer. Mjer finst rjettast að hafa fyrirmæli laganna skýr og tvímælalaus, og ætti þinginu að vera vorkunnarlaust að ganga svo frá frv., að eigi væri um að villast. Jeg get ekki fallist á, að engin breyting geti átt sjer stað í náinni framtíð nema til hækkunar; jeg held að minsta kosti, að því verði ekki slegið föstu með vissu. En það vil jeg að komi skýrt fram, að breyting skuli fara fram þegar þess gerist þörf, hvort heldur til lækkunar eða hækkunar, og þess vegna tel jeg vel farið að samþ. brtt. á þgskj. 847.

Jeg vil því hiklaust, að sú breyting sje gerð, og mjer er kunnugt um, að hún verður ekki gerð að kappsmáli. Jeg tel það ekki eiga við, að löggjafarvaldið afsali sjer um óákveðinn tíma rjettinum til að geta breytt ákvæðunum um dýrtíðaruppbótina, ef því finst sanngirni mæla með því. Það er þó ekki hugsun mín með þessu, að jeg telji sjálfsagt, að dýrtíðaruppbótin verði afnumin 1925, heldur hitt, að þá verði tekinn til endurskoðunar grundvöllur sá, sem hún byggist á, og honum breytt, ef rjett þykir, á annanhvorn bóginn, því að eftir þessi 5–6 ár, sem líða frá því lög þessi eru sett og þangað til gera má ráð fyrir endurskoðun þeirra, ætti að vera fengin sæmileg reynsla fyrir því, á hversu heppilegum grundvelli dýrtíðaruppbótin er bygð. Jeg tel þetta svo mikilvægt atriði, að jeg er ekki viss um, hvort jeg greiði atkv. með frv. ef brtt. verður feld.

Jeg tel það að vísu ekki skifta mjög miklu máli, hvort prestar, sem ekki búa í kaupstað eða verslunarstað, fái ½ eða 2/3 launauppbótar; þó mun jeg fremur greiða atkvæði með brtt. á þgskj. 847. Lækkun sú, sem þar er farið fram á, nær ekki til annara presta en þeirra, sem hafa jörð til ábúðar, og mega það teljast hlunnindi, því þeir afla sjer bæði kjöts og smjörs í búi sínu, og það er einmitt einn hluti af þeim vörutegundum, sem dýrtíðaruppbótin er bygð á. Það er því ekki ástæða til að greiða dýrtíðaruppbót af því, sem þeir kaupa af sjálfum sjer, sem neysluvöru. Mjólk er t. d. ekki lítill hluti af neysluvörum á sveitaheimili, og kjöt líka.

Jeg er í sjálfu sjer ekki á móti því, þótt þessi brtt. næði einnig til annara embættismanna, sem í sveit búa, en það gerir hún ekki, og er því ekki um það að tala. Þessir embættismenn eru mjög fáir og hefir því ekki mikla þýðingu, hvort þeim er slept eða þeir teknir með.