01.09.1919
Neðri deild: 52. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1364 í B-deild Alþingistíðinda. (1120)

23. mál, stofnun lífeyrissjóðs fyrir embættismenn

Frsm. (Matthías Ólafsson):

Eins og háttv. þingdm. er kunnugt, er nú ætlast til þess með samþykki launalaganna, að engin eftirlaun verði framvegis. Hins vegar hefir hæstv. stjórn sýnst, að ekki mætti eiga sjer stað, að ekki væri tryggilega sjeð fyrir gömlum embættismönnum. Þess vegna er frv. þetta fram komið, og í launalögunum eru launin ákveðin svo rífleg, að gert er ráð fyrir, að menn geti sjeð af nokkru gjaldi af þeim í sjóð þennan.

Launanefndin, sem haft hefir þetta frv. til meðferðar, telur þetta sjálfsagt. En hins vegar er það mikið efamál, hvort ekki þarf að breyta þessu áður en langt um líður.

Í frv. er gert ráð fyrir, að embættismenn greiði 5% af embættislaunum sínum í sjóð þennan, þó ekki af þeim hluta launa, sem fram yfir er 5000 kr.

Lífeyririnn, sem hann fær greiddan, nemur 27% af launahæð þeirri, sem hann hefir greitt af samtals.

Maður, sem hefir 5000 kr. í laun og situr í embætti í 20 ár, hann hefir þá lagt í sjóðinn samtals 5000 kr., en fær útborgað í lífeyri 2700 kr. árlega.

Maður, sem hefir 2400 kr. í árslaun og er í 20 ár í embætti, greiðir samtals í sjóðinn 2400 kr., en fær útborgað í lífeyri árlega 1206 kr.

Það líða því tæp 2 ár áður en embættismenn hafa til fulls etið upp aftur alt, sem þeir hafa lagt í sjóðinn.

Af þessu sjest, að 5% gjald verður of lágt. En þá verður annaðhvort að hækka gjald þetta eða landssjóður verður að leggja meira fje af mörkum.

En jeg skal geta þess, að slíkt ákvæði sem þetta er ekki hægt að setja svo rjett í fyrstu, að ekki þurfi að breyta því aftur. Þar verður að þreifa sig áfram smátt og smátt.

Í frv. stendur, að landssjóður leggi til sjóðsins 50,000 kr. í eitt skifti fyrir öll. Það taldi nefndin alveg sjálfsagt, þar sem ekki er hægt að stofna sjóðinn af tillaginu einu saman.

Þá er annað sem nefndin taldi líka sjálfsagt, að þegar embættismenn eru orðnir 70 ára, þá megi þeir fara frá, og eigi þá heimtingu á eftirlaunum, eða þegar aldur þeirra og embættisár eru til samans orðin 95 ár, þá hafi þeir heimtingu á eftirlaunum. En til þess geta menn ekki verið yngri en 57–58 ára.

Í 7. gr. er það ákvæði, að þegar embætti legst niður og embættismaðurinn flyst ekki í annað embætti, þá eigi hann heimtingu á að fá endurgreidd úr sjóðnum iðgjöldin vaxtalaust.

Þetta sýndist nefndinni sanngjarnt, að menn fái þetta endurgreitt, ef þeir missa rjettinn til lífeyrisins. Hins vegar hafa þeir um leið veitt sjóði þessum stuðning með vöxtunum af iðgjöldunum.

Annars varð talsverður ágreiningur um það, hvort embættismaður, sem ljeti af stöðu sinni, ætti afturkræft það, sem hann hefir lagt í sjóðinn. En meiri hluti nefndarinnar var á þeirri skoðun, að stjórnin hefði þar hitt á hið rjetta, þar sem ganga má að því vísu, að menn sleppi ekki fastri stöðu nema því að eins, að þeir eigi völ á öðru betra starfi og þurfi því ekki eftirlaunanna við.

Þá skal jeg geta þess, að nefndin lagði fyrst til, að frv. yrði samþ. óbreytt, en eftir að nál. var prentað tók hún eftir því, að hæstv. stjórn hafði gleymst að nema úr gildi lög nr. 5, 4. mars 1904, en þau hljóta að falla úr gildi, eins og hin, sem til eru tekin í 8. gr. frv. Nefndin hefir því komið með brtt. á þgskj. 575 um þetta efni til lagfæringar.

Jeg þarf svo ekki að fara fleiri orðum um þetta mál, en vil að eins ráða háttv. deild til að samþ. frv. með þessari brtt. frá nefndinni.