05.09.1919
Efri deild: 49. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1367 í B-deild Alþingistíðinda. (1126)

23. mál, stofnun lífeyrissjóðs fyrir embættismenn

Forsætisráðherra (J. M.):

6. og 7. mál á dagskránni eru stjórnarfrv., og hefir hv. Nd. samþykt þau óbreytt að efni til. Efni frv. er náskylt, og kýs jeg því að tala um þau bæði í einu, ef hæstv. forseti leyfir.

Frumvörpin eru samin að miklu leyti af launamálanefndinni, en stjórnin hefir gert lítils háttar breytingar á þeim. Tillagið til lífeyrissjóðsins hefir verið hækkað og tillagið úr sjóðnum einnig. En þessi breyting var sjálfsögð, vegna þess, hve mikið kaupmagn peninga hefir lækkað síðan frv. var samið. Sama er að segja um ekkjutrygginguna.

Frv. þessi eru borin fram í sambandi við launalagafrv., og veldur ekki mikilli breytingu fyrir ríkissjóð nje embættismenn. Það gildir í sjálfu sjer einu, hvort greidd eru hegri laun og eftirlaun þá úr ríkissjóði, eða hærri laun og embættismenn þá látnir safna í lífeyrissjóð. Nú er farin síðari leiðin, og tel jeg það heppilegt. Með því móti er Alþingi forðað frá leiðinlegu kvabbi um sjerstök eftirlaun og viðbætur við eftirlaun. Þetta nýja fyrirkomulag held jeg að verði líka betra bæði fyrir ríkið og starfsmenn þess, vegna þess, að þessir sjóðir eru útreiknaðir á þann hátt, að búast má við, að þeir geti brátt greitt hærri eftirlaun en gert er ráð fyrir, og má þá að líkindum setja iðgjöldin til þeirra niður.

Jeg vona, að hv. deild taki málum þessum jafnvel og raun varð á um hv. Nd., enda verða frumvörpin að teljast sanngjörn frá hvaða sjónarmiði sem á þau er litið.