13.09.1919
Efri deild: 55. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1369 í B-deild Alþingistíðinda. (1133)

23. mál, stofnun lífeyrissjóðs fyrir embættismenn

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg skal viðurkenna það að það er ekki þýðingarmikil breyting, sem farið er fram á í brtt. háttv. 2. þm. G.-K. (K. D.), á þgskj. 804, um það, að þegar embætti er lagt niður og embættismaðurinn flyst eigi jafnframt í annað embætti, skuli hann eiga rjett á að fá endurgreidd úr lífeyrissjóði, með sparisjóðsvöxtum, saman lögð iðgjöld þau, er hann hefir greitt í sjóðinn; en í frv. er gert ráð fyrir, að hann fái þau endurgreidd vaxtalaust. Að vísu getur það verið sjóðnum beinlínis í óhag að hafa tekið við iðgjöldunum, en stórvægilegt verður það ekki.

En þó verð jeg að vera sammála meiri hluta launamálanefndar um það, að rjett sje að breyta ekki frv. — Jeg held, að það sje fullkomlega sanngjarnt að fara ekki lengra en að embættismennirnir fái iðgjöldin endurgreidd að fullu.

Margir slíkir sjóðir borga með frádrætti þegar líkt stendur á, og þegar frv. var samið, var meiningin með þessu að sýna fylstu sanngirni. Jeg veit, að ýmsir hv. þingdm. þekkja slíka sjóði, auk þess sem skilmálarnir eru oft þannig, að alt tapast, án þess embættismanninum sje sjálfum um að kenna.

Ef sjóðurinn, auk þess að endurborga iðgjöldin að fullu, væri skyldaður til að greiða einnig sparisjóðsvexti, yrði það honum til skaða, því þegar hann stækkar, verður ekki hjá því komist að greiða af vöxtunum kostnaðinn af gæslu hans.