21.07.1919
Efri deild: 12. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1379 í B-deild Alþingistíðinda. (1162)

25. mál, lögreglusamþykktir fyrir kaupstaðina

Magnús Kristjánsson:

Þegar mál þetta var til 2. umr. hjer í hv. deild, þá gerði jeg grein fyrir skoðun minni á því, einkum þó um fyrri lið brtt., svo jeg finn ekki ástæðu til að endurtaka það, en jeg vil þó bæta því við, að mjer hefði þótt viðkunnanlegra, þegar þessu er breytt, að þá væri öðrum svipuðum ákvæðum í öðrum lögum og breytt í sömu átt, því jeg lít svo á, að sektir fyrir brot á lögreglusamþyktunum eigi að vera í hlutfalli við sektir fyrir brot á öðrum lögum.

Um síðari hluta brtt. hefi jeg ekki talað áður. Jeg vil þó láta mjer nægja að taka það fram, að það er hart, og illa framkvæmanlegt, að foreldrar sæti refsingu fyrir það, sem börn þeirra aðhafast í hugsunarleysi eða af vanþekkingu. Jeg hygg það muni mjög oft vera erfitt fyrir dómara að gera sjer fullkomlega ljósa grein fyrir því, hve nær á að gefa foreldrunum sök á því. Sem dæmi þessa skal jeg benda á það, ef börn safnast saman einhversstaðar í útjaðri bæjarins og mölva rúður með grjótkasti, eða ef eldsvoða ber að höndum af því að barn hefir farið óvarlega með eldspýtur. Mjer líst það vera hart að hegna foreldrunum fyrir þetta, og erfitt fyrir þau að koma í veg fyrir það. Hingað til hefir verið sagt, að yfirsjónir feðranna komi niður á börnunum, en nú á að snúa því við, og yfirsjónir barnanna að koma niður á foreldrunum, en jeg hygg, að hvorttveggja sje fjarstætt.

Ströng refsiákvæði, sem þetta, er stríða á móti mannúð og rjettlæti, en innræta þrælsótta við lögin, eru síst til þess fallinað verða undirstaða að aukinni siðmenningu og andlegum þroska þjóðarinnar.