21.07.1919
Efri deild: 12. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1381 í B-deild Alþingistíðinda. (1164)

25. mál, lögreglusamþykktir fyrir kaupstaðina

Halldór Steinsson:

Jeg vil að eins gera örstutta athugasemd við ummæli hæstv. forsætisráðherra (J. M.).

Mjer skildist svo, að frv. væri aðallega borið fram vegna þess, að peningar hefðu lækkað í verðmæti. En frv. gengur út frá, að peningar hækki ekki aftur, þar sem hámark sektanna er miðað við núverandi gildi peninga. En það er rangt að byggja á því fyrir framtíðina.

Það má altaf deila um það, hvað sje „hæfileg umsjón“ með börnunum, og jeg tel það því lítið bæta, þótt svo sje að orði komist. Jeg er samþykkur hv. þm. Ak. (M. K.) um, að það sje ekki rjett að hafa hámarkið mjög hátt, því fátæklingar, sem yrðu brotlegir — má ske fyrir lítilfjörleg brot — og gætu ekki greitt þessar háu sektir, en yrðu að sitja lengi í fangelsi til að afplána þær, mundu bíða við það meira og minna atvinnutjón, og verð jeg að telja það óheppilegt.