21.07.1919
Efri deild: 12. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1381 í B-deild Alþingistíðinda. (1165)

25. mál, lögreglusamþykktir fyrir kaupstaðina

Frsm. (Jóhannes Jóhannesson):

Allsherjarnefnd hefir athugað brtt. þær sem bornar eru fram, og hefir komist að þeirri niðurstöðu, að halda fast við ákvæði sitt um sektarupphæðina, 500 kr., því það er beinlínis rjett að hækka sektarákvæðið, þegar verðmæti peninga hefir breyst svo mjög, en hún lítur og svo á, að það megi ekki hærra vera nú, því ákvæðum um afplánun sekta hefir ekki verið breytt. Efnamenn gætu raunar eins greitt hærri sekt, en hinir, sem fátækir eru, og þeir brjóta líka lögreglusamþyktina, yrðu að afplána sektina og þyrftu til þess langan tíma, og biðu því atvinnutjón við það í sambandi við þetta skal jeg benda á það, að það er heppilegt, að hámark sektarinnar sje fremur hátt, því oft er álitamál, hvort brot heyrir undir lögreglusamþyktina eða hegningarlögin, og er þá gott, að sektarákvæðið sje hátt, svo eigi þurfi frekar en hitt að reka málið sem sakamál.

Jeg vil benda hv. þm. Ak. (M. K.) á, að ákvæðið um það, að refsa megi foreldrum fyrir skort á eftirliti með börnum sínum, er ekki nýtt. Það hefir verið í lögum síðan 1800, og hefir aldrei risið nein óánægja út úr því. Ef svo væri ekki, þá gætu foreldrarnir haft börn sín til að erta nágranna sína á ýmsan hátt, og væri ekki hægt að hegna fyrir það, vegna þess að börnin væru of ung. Sjá allir, að það væri óheppilegt.

Jeg vil því, fyrir hönd allsherjarnefndar, mæla eindregið á móti brtt. hv. þm. Ak. (M. K.).