21.07.1919
Efri deild: 12. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1383 í B-deild Alþingistíðinda. (1167)

25. mál, lögreglusamþykktir fyrir kaupstaðina

Magnús Kristjánsson:

Jeg tel mjer skylt að bera fram þessa brtt., en þar fyrir er ekki víst, að hún verði samþykt, því hið rjetta verður oft að lúta í lægra haldi.

Mjer skilst, að þetta mál sje ekki neitt sjerstakt áhugamál hæstv. stjórnar, og því muni hún ekki láta sig miklu skifta, hver afdrif þess verða, nema hvað persónulegar skoðanir einstakra ráðherra á því snertir.

En áður en brtt. mínar eru drepnar vil jeg með fáum orðum sýna fram á, hversu það er óheppilegt að hafa hátt sektarákvæði.

Þetta er aðalatriðið, að menn geti ekki greitt sektirnar, og verði því að afplána þær. Hver verður afleiðingin af því? Það yrði tilfinnanlegt vinnutjón fyrir viðkomanda að sæta langri fangelsisvist. Það gæti numið 1–2 þús. krónum, þó ekki sje auðvelt að meta slíkt til peninga. Auk þess yrði það alltilfinnanlegur kostnaður fyrir landssjóð að eiga að kosta fangelsisvistina. Og enn hefði barinn engar tekjur af brotinu, svo sem þó virðist vera ætlast til í frv. Þetta er nú alt ilt út af fyrir sig, en hið versta af öllu er þó ótalið. Hið langversta er, að fangelsisvistin mundi koma mjög hart niður á aðstandendum eða fjölskyldu þess, er hneptur væri í varðhald og að varðhaldsvistin yrði jafnan skoðuð sem blettur á mannorði hans; svo mundi vera litið á fangelsisvistina af öllum almenningi, þó lagalega sjeð sje ekki um mannorðsmissi að ræða. Þetta tvent, er jeg taldi síðast, eru fyrir mjer aðalatriðin í þessu máli.