21.07.1919
Efri deild: 12. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1383 í B-deild Alþingistíðinda. (1168)

25. mál, lögreglusamþykktir fyrir kaupstaðina

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg skal geta þess í tilefni af ræðu hv. þm. Snæf. (H. St.) að hækkun sekta vegna verðfalls peninganna er einmitt aðalástæðan, sem fram kemur í greinargerðinni við frv. Fyrir mörgum eru 500 kr. nú ekki meira en 100 kr. voru 1890. Tekjur manna og peningavelta hefir tekið slíkum stakkaskiftum síðan. Hitt efast enginn dómari um, að þegar ákveða ber upphæð sektar, ber að leggja miklu hærri sekt að krónutali á ríka en fátæka. Ef dómurum er á annað borð treyst til nokkurs, þá verður að treysta þeim til að hafa vit á svo einföldu máli sem þessu. Þessu vildi jeg beina til háttv. þm. Ak. (M. K.). Hans ástæður eru því að eins gildar, að dómarar eigi skilið megnasta vantraust. (M. K.: Þá ætti að standa í frv.: „eftir efnum og ástæðum“). Það er óþarfi að gefa svo sjálfsagða bendingu, auk þess sem fyrir getur komið, að leggja verði hæstu sekt á fátækan mann, ef hann til dæmis hefir rýnt sjerstaka þrjósku. Það er engin átæða til að hlífa þeim, sem margsinnis hefir brotið þær reglur, er bæjarfjelagið hefir sett sjer til varnar, þó fátækur sje.

Þeir sem þekkja ekki vel til hjer í Reykjavík, ef þeir hræðast að lögleiða hjer þær sektir sem frv. felur í sjer. Vera kann, að háttv. þm. Ak. (M. K.) vilji verja Akureyri fyrir samskonar breytingum á lögreglusamþykt og er honum það þá í lófa lagið. En hví má þá bæjarfjelag Reykjavíkur ekki verja sig á þann hátt, sem þar á best við? Vera má, að þessi sektarákvæði ættu ekki heldur við í Vestmannaeyjum. Jeg skal um hvorugt segja. En háttv. þm. Vestm. (K. E.) ætti ekki að þurfa að berjast af neinu kappi á móti þeim. Þar sem það mun standa í hans valdi hvernig þeim verður beitt í Vestmannaeyjum, að minsta kosti fyrst um sinn. Það er að vísu rjett, sem háttv. þm. Ak. (M. K.) sagði að frv. þetta er ekkert sjerstakt kappsmál stjórnarinnar, en stjórnin getur ekki sjeð, hvaða ástæða gæti verið til að meina Reykjavíkurkaupstað að verja sig á þann hátt, sem best á við þar.