21.07.1919
Efri deild: 12. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1385 í B-deild Alþingistíðinda. (1171)

25. mál, lögreglusamþykktir fyrir kaupstaðina

Karl Einarsson:

Jeg hafði ekki búist við slíku svari, sem raun varð á, frá hæstv. forsætisráðh. (J. M.), eins vægt og jeg talaði um frv. Vitanlega hafði jeg í huga alla kaupstaði landsins, er jeg mintist á sektarákvæðið. Jeg hefi aldrei verið í vafa um, að dómarar hafa næsta gott svigrúm til að beita þeim hegningarákvæðum, er þeir álíta best við eiga, eftir kringumstæðum. En það vildi jeg benda á, að „tendensinn“ í frv. væri óheppilegur; þið, að fara úr 100 kr. upp í 1000 kr., er altof geist farið. Ef skaði hefir verið unninn einhverjum með broti á lögreglusamþykt, bætast skaðabætur við sektirnar. Svo 100 kr. hámarkið er í raun og veru ekki gildandi nema þegar enginn hefir beðið tjón af brotinu. Það má og telja víst, að peningar hækka aftur í verði á næstu árum, svo jeg tel nógu langt farið að hækka sektarhámarkið um helming.