21.07.1919
Efri deild: 12. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1386 í B-deild Alþingistíðinda. (1173)

25. mál, lögreglusamþykktir fyrir kaupstaðina

Magnús Torfason:

Jeg á bágt með að skilja mótþróann, sem komið hefir fram gegn þessu frv. Jeg lít svo á, að þó engin breyting hefði orðið á verðgildi peninga frá 1890, þá hefði samt verið sjálfsagt að hækka sektarákvæðin. Ástæðan til þess er sú mikla breyting, sem orðið hefir á efnahag manna; efnahagurinn hefir yfirleitt batnað svo stórkostlega. Menn finna nú ekki til, þó þeir fái 50–60 kr. sekt. Þeir hlæja að því, þegar þeir ganga út frá dómaranum, því peningarnir eru nú fyrir mörgum einskis virði. En meðan við höfum 100 kr. hámarkið er ekki leyfilegt að sekta um 100 kr. nema fyrir stærstu brot. Menn hafa fundið að því, hve lágar sektir eru oft, en athuga þá ekki, að það er að kenna úreltum lögum, en ekki dómurunum. En það er engin ástæða til að halda, að þessi hækkun komi illa niður á fátæklingunum. Til er nokkuð, sem heitir áminning og láta dómarar oft nægja með hana við fyrsta brot. Svarar það að nokkru, til skilyrðisbundinna hegningadóma. Láta menn oft áminningar sjer að kenningu verða, og það ákvæði því orðið að stórmiklum notum. Menn mega ekki halda, að lögreglumál fari yfirleitt í dóm. Meðan lögreglustjórar eru ekki betur launaðir en nú er, og launum þeirra er þann veg háttað, að þau verða því minni, sem þeir hafa meira starf, þá mun svo fara um allflest lögreglumál, að þau verða leidd til lykta með sætt, og þá mjög lágum sektum.

Annað sem jeg vildi benda á er það að þó ekki þurfi að hegna þungt fyrir sjálft lögreglubrotið, sem málið rís af, getur verið nauðsynlegt að hegna fyrir önnur brot, svo sem óvirðing sýnda lögregluþjónum. Ef alt slíkt væri dregið fram, yrði nóg að gera, t. d. hjer í Reykjavík. Enn fremur verður að muna eftir þeim mikla útlendingavaðli, sem hingað streymir. Hækkun sekta er ekki síst nauðsynleg vegna þeirra. Þegar þeir brjóta lögreglusamþyktina, koma þeir oft líka nærri öðrum lögum. Málið þarf þá langa og nákvæma rannsókn, ef til dóms á að fara. En ef þeim er haldið, kemur það kann ske niður á öðrum, ósekum. Ef það er skipstjóri eða háseti, verður skipið að bíða. Eftir samkomulagi við stjórnarráðið hefir þeim því oft verið slept með því móti, að þeir borguðu hærri sekt en lögreglusamþykt leyfir. Þetta er í sjálfu sjer ekki rjett að farið, og væri gott að þurfa ekki að taka til þess. Í þau 15 ár, sem jeg hefi verið dómari, hafa ekki komið nema 1–2 lögreglumál til dóms. Sektir hafa ekki verið ákveðnar hærri en það, að þær fengust greiddar. Og yfirleitt mun það vera reynslan alstaðar, að sektir eru ekki svo háar, að þær komi til afplánunar, enda væri það engum til góðs.