10.09.1919
Efri deild: 53. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í B-deild Alþingistíðinda. (118)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg vil vekja eftirtekt hv. þm. á því, að þegar fjárlögin voru lögð fyrir hv. Nd., benti jeg á þær leiðir, er jeg taldi rjett að hv. Alþingi færi í fjármálunum. Taldi jeg rjett að hraða tekjuaukafrv. sem mest, og enn fremur nauðsynlegt, að kolin og saltið væri látið vinna upp þann halla, er landsverslunin hafði beðið af þeim vörutegundum. Hv. Alþingi hefir nú farið þá leið að samþykkja salttollinn, og efast jeg ekki um að hallinn á kolum verði unninn upp á þá leið, sem jeg taldi rjett vera.

En ef vel ætti að vera, þyrfti að sjá fyrir því, að fjárlögin fyrir árin 1920–1921 færu ekki út úr þinginu með halla, er greiða þyrfti með lánum. En slíkur halli er nú fyrirsjáanlegur.

Í fjárlagafrv., eins og það kemur frá Nd., er tekjuhalli áætlaður kr. 498,504.02, en eftir frv., eins og stjórnin lagði það fyrir, var gert ráð fyrir 347,910 kr. tekjuhalla. Hefir hann því aukist um kr. 150,594 í Nd., og virðist það í fljótu bragði ekki vera mikið. En þess er að gæta, að við tekjubálk fjárlagafrv. hafa bæst tekjuaukar, sem áætlaðir hafa verið 1,300,000 kr. á fjárhagstímabilinu, og mun það ekki of hátt áætlað. og þegar það bætist við þær 150,594 kr., sem jeg nefndi áðan, hefir hv. Nd. bætt inn í frv. útgjaldaaukum, er nema rúmlega 1 miljón og 450 þús. krónum. Auk þess halla, er verður samkvæmt fjárlagafrv., bætist við stórhalli eftir launalögunum. Geng jeg þá út frá því sem gefnu, að tekjuhalli eftir frv., eins og það kemur frá Nd., muni nema um 1 miljón á ári. Og ef ekki er dregið úr útgjöldunum, er sýnilegt, að um tveggja miljóna kr. tekjuhalli verður á fjárhagstímabilinu, auk þess sem ýms frv. hafa verið samþ., eða verða fyrirsjáanlega samþ., sem gera ráð fyrir mjög miklum útgjöldum.

Að því er snertir skuldir ríkisins, gamlar og nýjar þegar gengið er út frá því, að landsverslunin greiði ríkissjóði það, sem hún skuldar, og skipunum verði hagkvæmlega realiserað, nema þær um 5½ miljón kr., auk þess sem jeg geri ráð fyrir því að 1 miljón kr. tekjuhalli verði á yfirstandandi ári.

Að vísu er ekki víst, að svo mikill halli verði á þessu ári, og skal jeg í því sambandi nefna að formaður fjárveitinganefndar Nd. hefir jafnvel áætlað, að hann muni enginn verða. Að vísu hafa tekjuaukar á þessu ári numið mjög miklu; t. d. nam tunnutollurinn um 600 þús. kr., en útgjöldin verða hins vegar afarmikil voru í fyrra um 4 miljónir króna, og þykir mjer því varlegast að gera ráð fyrir miljón króna tekjuhalla á yfirstandandi ári.

Þegar lagðar eru saman skuldirnar gamlar og nýjar skuldir milj. kr., tekjuhalli á yfirstandandi ári 1 milj. kr. og tekjuhalli á næsta fjárhagstímabili 2 milj. kr., verða þær samtals 8½ milj. kr.

Auk þess er gert ráð fyrir að tekin verði lán til brúagerða. húsabygginga. vitabygginga o. fl., og býst jeg því við að ekki líði á löngu áður en skuldirnar verða orðnar 16 miljónir króna, eða áttfaldar á við það, sem þær voru fyrir stríðið.

Jeg skal svo ekki fara frekar út í þessa sálma. Vildi jeg draga upp mynd af fjárhagnum, er hv. þm. gætu haft fyrir augum. Skal jeg að eins geta þess, áður en jeg sest niður, að tekjuaukafrv munu koma fram í hv. Nd., er draga talsvert úr hallanum.