20.08.1919
Neðri deild: 40. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1393 í B-deild Alþingistíðinda. (1188)

25. mál, lögreglusamþykktir fyrir kaupstaðina

Frsm. (Einar Arnórsson):

Ágreiningurinn milli þingdeildanna í þessu máli er sá, að hv. Ed. vill ekki hafa hámark sekta fyrir brot á lögreglusamþyktum hærra en 700 kr. Í frv. sínu stakk stjórnin upp á 1000 kr. hámarki, og allsherjarnefnd þessarar deildar fjelst á það, er málið kom til hennar hið fyrra sinn. Og hún vill það einnig nú, og ber því fram brtt. um að færa frv. aftur í samt lag. Nefndin hefir ekki getað sannfærst um, að það sje órjettmætt að hafa þetta hámark, og heldur sjer að því leyti við stjórnarfrv.