23.09.1919
Sameinað þing: 2. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1397 í B-deild Alþingistíðinda. (1197)

25. mál, lögreglusamþykktir fyrir kaupstaðina

Einar Arnórsson:

Að eins örstutt athugasemd. Vitanlega kemur þessi samanburður, er jeg nefndi, við þær háu sektir, sem beitt hefir verið á stríðstímunum, alt að 100 þús. kr. að hámarki, þessu máli við. Ef maður borgar ekki slíka sekt, verður hann að afplána hana samkvæmt tilskipun frá 25. júní 1869. Að þetta geti komið illa niður á smælingjum og auðnuleysingjum, eins og hv. þm. Ísaf. (M. T.) nefndi, getur verið. En dómarinn hefir það alt í sinni hendi, því að jeg þarf víst ekki að minna hv. frsm. Ed. (M. T.) á það, að útkljá má almenn lögreglumál með því, að hinn seki gangi inn á að greiða sekt. Og sú sekt má vera lægri en lágmark það, sem er í lögum. Minnir mig, að það venjulega lágmark sje 2 kr. Með öðrum orðum, að sektarupphæðin getur verið frá 2 kr. upp í 1000 kr. Er því mjög vítt rúmið milli hámarks og lágmarks. Í því rúmi hefir dómarinn sektina eftir því, sem yfirsjónin er vaxin.

Jeg býst við, að endurskoðun tilskipunarinnar sje tiltölulega mjög auðvelt verk. Spurningin er þessi: Er nokkur knýjandi ástæða til að láta aðrar reglur gilda um afplánun sekta fyrir brot, er hegningarlögin taka ekki til, en um þau brot, sem hegningarlögin taka til?

Nú ber að athuga það, að öllum hæfir ekki hið sama. Há sekt er tiltölulega meiri refsing fyrir fátækan mann en sama sektin fyrir ríkan. En aftur getur vel verið, að sama fangelsisvistin sje miklu meiri refsing fyrir þann ríka en þann fátæka, því að honum getur brugðið meira við. Jeg get vel hugsað mjer, að sumir „auðnuleysingjar“ hv. þm. Ísaf. (M. T.) kæri sig kollótta, þótt þeir sitji í „steininum“ nokkra daga. En þetta alt athugar dómarinn er hann framkvæmir sektina.

Þetta var nú að eins um endurskoðun tilsk. frá 25. júní 1896. En annars skal jeg játa, að annað eins og þetta getur ekki verið neitt kappsmál.