28.08.1919
Neðri deild: 48. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í B-deild Alþingistíðinda. (12)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg get ekki eiginlega sjeð ástæðu til, að hv. þm. sjeu að hlífast fremur við stjórnina, þótt hún hafi sagt af sjer. Jeg hygg, að það sje af góðum hvötum sprottið, að vilja ekki stjaka við þeim, sem eru dauðir, en sem sagt. Jeg sje enga ástæðu til þessarar hlífni. Sjerstaklega álít jeg það ekkert betra fyrir stjórnina, því að henni er hefur gert með því að gefa henni tækifæri til að bera af sjer ámæli og ákúrur, ef þær skyldu annars vera nokkrar.

Jeg vil svo leyfa mjer að svara hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) viðvíkjandi spurningu hans um fulltrúa stjórnarinnar í Lundúnum. Það er sagt, að friður sje nú saminn, en þessi friður er svo nýr af nálinni, að hann er ekki enn þá viðurkendur af öllum þjóðum. Enn þá eimir mjög eftir af ófriðarástandinu alstaðar í heiminum, og er því tæplega kominn tími til að kalla fulltrúann heim frá Lundúnum. Annars býst jeg við, að stjórnin ráðfæri sig við hv. Alþingi um það, ef í ráði væri að hafa fulltrúann mikið lengur. Jeg vona, að hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) álíti þetta nægilegt svar frá stjórnarinnar hendi. Það eru enn ýms mál óútkljáð, og sömuleiðis geta ýms mál komið enn fyrir, svo að betra er að hafa fulltrúa við höndina í Lundúnum þetta árið.

Jeg skal ekki fara langt út í ástæður stjórnarinnar fyrir auglýsingunni um einkasölu á sumum korntegundum. Aðalástæðan fyrir einkasölunni er, að landsverslunin hafði afarmiklar birgðir fyrirliggjandi. Birgðirnar af sumum tegundunum voru meiri en svo, að hægt væri að selja þær allar á þessu ári, en af öðrum tegundum var ekki meira fyrirliggjandi en það, að búist var við, að þær yrðu uppseldar um áramót. Nú sýndist bæði stjórninni og forstjórum landsverslunarinnar, að best væri að selja þessar birgðir sem fyrst, og væri því nauðsynlegt, til þess að firra landið tjóni, að hafa einkasölu á þessum kornvörutegundum, þar til þær væru uppseldar, eða lítið væri eftir af þeim, og gefa þá verslunina frjálsa. Auglýsinguna getur enginn skilið öðruvísi en svo, að það hafi verið tilætlunin að hætta við kornvöruverslunina um nýár. Það hefir þá líka verið gefið kaupmönnum í skyn, að þeim væri óhætt að fara að flytja inn þessar vörutegundir frá 1. október til nýárs. Þá spurði hv. sami þm. (S. St.) að, hvort kaupmönnum mundi hafa verið tilkynt það nógu snemma, að þeir mættu flytja inn vöruna. Þetta þarf hv. þm. (S. St.) ekki að óttast, því að það eru þegar komnar fram bænir frá kaupmönnum um að fá að flytja inn vöruna fyrir 1. okt. Annars sje jeg heldur ekki mikla ástæðu til að óttast vöruskort úti um land, því að það er nauðsynlegt fyrir landsverslunina sjálfa að koma vörunni til hinna ýmsu hluta landsins, og hvað kaupmennina snertir og þær vörur, sem þeir kynnu að panta, þá eru skipagöngur alltíðar kringum landið frá 1. okt. til nýárs. Að skortur hafi orðið nokkur á rúgmjöli sumstaðar, er ekki að furða, því skipagöngur hafa hingað til, og samgöngur yfirleitt, verið af skornum skamti. Jeg veit heldur ekki, hvort það mundi koma fyrir nú, en það veit jeg, að þar, sem jeg þekti til, kom það ekki allsjaldan fyrir, að ýmsar kornvörutegundir vantaði áður hjá kaupmanninum, þó að verslunin væri þá frjáls. Sumir kaupstaðirnir urðu oft algerlega uppiskroppa með kornvörur til manneldis, að jeg ekki tali um, ef þeir þurftu að bjarga skepnum. Jeg hygg að þetta hafi ekki verið verra nú en oft áður.

Hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) talaði lítið um kolaeinokunina, og jeg er honum samdóma um það, að ef henni yrði haldið áfram. yrði að gera það með ráði og samþykki hæstv. Alþingis, og jeg býst líka við að stjórnin ráðfæri sig við háttv. þm. um þetta áður en lýkur þinginu. Þótt stjórnin hafi ef til vill heimild til að halda einkasölunni áfram samkvæmt lögunum um ófriðarráðstafanir, þá teldi jeg þó ekki rjett af henni að gera það nema með ráði þingsins.

Um afganginn eða gróðann af verslun þessari get jeg ekki talað að svo komnu máli; það geta aðrir betur. En jeg verð að viðurkenna það fyrir hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) að það var ekki ætlunin, að landið ætti að græða á versluninni yfirleitt, heldur hitt, að birgja landið að vörum og selja þær eins ódýrar og unt væri. En þó að nú kynni að verða einhver gróði af landsversluninni, þá verð jeg að álíta það betra heldur en að landssjóður hefði beðið mikið tjón af henni. En jeg ímynda mjer, að þessi afgangur verði mátulegur og rjettur, eins og alt annað hjá þessari stjórn.