07.07.1919
Efri deild: 3. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1399 í B-deild Alþingistíðinda. (1200)

25. mál, lögreglusamþykktir fyrir kaupstaðina

Fjármálaráðherra (S. E.):

Þetta frv. er til komið vegna sambandslaganna. Með því að landið er orðið fullvalda ríki, er nauðsynlegt að setja lög um þetta efni. Jeg skal geta þess, að hæstv. forsætisráðherra (J. M.) gaf út bráðabirgðalög um skrásetning skipa, sem sjálfsagt var eftir að vjer höfðum fengið þjóðfána.

Aðalbreytingin, sem þetta frv. gerir á gildandi lögum, er sú að hugtakið íslensk skip er ákveðið öðruvísi en áður, með því að landið er nú fullvalda. Í sambandi við þetta er sú breyting, að eins árs dvöl hjer á landi er sett sem skilyrði fyrir því, að geta eignast skip, en áður var skilyrðið innborinna manna rjettur eða búseta. Það þótti ekki rjett að hafa engar hömlur á þessu, með því að slíkt getur verið hættulegt litlu ríki. Hins vegar getur verið varasamt að hafa þessi skilyrði of ströng, með því að þá getur verið hætt við, að íslenskum skipum fjölgi seint.

Önnur breyting er sú, að setja upp sjerstaka skipaskráningarskrifstofu. Áður fór skrásetningin fram í Kaupmannahöfn, en þetta getur ekki lengur svo fram farið, eftir að landið hefir fengið fult sjálfsforræði. Menn getur greint á um það, hvort fela beri stjórnarráðinu þetta starf; en þá yrði að sjálfsögðu að auka við mannafla þar, enda þessi störf ólík störfum þess, með því líka að ólag er víða á skrásetningu skipa hjer á landi og full þörf að kippa henni í lag. Það er einnig álit þeirra manna, sem vit hafa á og jeg hefi við talað, að setja beri upp sjerstaka skrifstofu. Stjórnin býst við því, að ef Alþingi fellst á þessa tillögu, þá komi þessi skrifstofa fram með tillögur um nauðsynlegar breytingar á skrásetningarreglunum, en til þessa þarf sjerþekking og, eins og nú stendur, eru ekki margir, sem hana hafa til að bera hjer á landi.

Jeg skal geta þess, að í frv. er ákvæði um það, að ef skráningarskrifstofan neitar skrásetningarbeiðanda um skrásetning, þú má skjóta þeim ágreiningi til dómstólanna. Þótti þetta tryggilegast. Þar á móti liggur synjun bráðabirgðaskírteinis undir úrskurð stjórnarráðs; dómstólaleiðin mundi taka of langan tíma.

Það getur verið vafamál um það, í hverja nefnd vísa beri þessu frv., hvort heldur allsherjarnefnd eða sjávarútvegsnefnd. Í þessari deild eru að vísu lögfræðingar í báðum, en í Nd. er enginn lögfræðingur í sjávarútvegsnefnd. Vegna þess, að í þessu frv. eru ýms atriði lögfræðilegs eðlis, virðist mjer heppilegast, að frv. væri vísað til allsherjarnefndar.