18.08.1919
Efri deild: 33. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1404 í B-deild Alþingistíðinda. (1207)

25. mál, lögreglusamþykktir fyrir kaupstaðina

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg verð að telja, að aðalbreyting nefndarinnar sje á engan hátt til bóta, og nefndin hefir algerlega misskilið, hvert sje starf skrásetningarskrifstofunnar, með því að í nál. er talið, að þótt skrifstofan sje sett á stofn, þurfi sjerstaka endurskoðun mælingabrjefanna, en endurskoðun þeirra er einmitt aðalverk skrásetningarskrifstofunnar. Og þessi endurskoðun fer nú fram á aðalskrifstofunni í Kaupmannahöfn.

Jeg skal játa það, að jeg hafði sterka tilhneiging til þess að gera þennan kostnað sem minstan, en eftir að jeg hafði átt tal um þetta við mann, sem hefir sjerþekking um þetta, sem sje Ágúst Flygenring, sannfærðist jeg um það, að ekki yrði komist hjá því að setja á fót skrásetningarskrifstofu. Aðalhlutverk þessarar skrifstofu yrði að öðru leyti að koma lagi á skrásetninguna og gefa leiðbeiningar eftir að skrifstofan hefði sett sig inn í, hverjar breytingar væru nauðsynlegar til þess að koma málinu í rjett lag.

Annars er það mjög vandasamt verk að eiga við þessar mælingar og þó málið verði áfram í stjórnarráðinu eins og nefndin vill, þá verður að fá þangað sjerstakan og vel launaðan fulltrúa til að sjá um það, og svo er endurskoðunin að auki úti í bæ, svo jeg hygg að kostnaðurinn yrði ekki minni.

Eins og allir geta sjeð, nema nefndin, eru þessi störf alóskyld störfum þeim, er stjórnarráðið fer með, og auk þess á að láta það í þá deild stjórnarráðsins, þar sem minst húsrúm er. Það er eins og nefndin hugsi sjer, að málið sje áfram í sama káki og trassaskap og verið hefir og ef það er ekki ætlunin, þá verður að fá sjerstakan mann í stjórnarráðið til að annast þetta eins og jeg tók áðan fram, og þá er munurinn, fjárhagslega sjeð, mjög lítill milli stjórnarinnar og nefndarinnar Og eins og menn vita, eru ekki mælingafróðir menn í stjórnarráðinu, svo mjer skilst, að eftir sem áður þurfi að senda menn utan til að kynna sjer þau störf.

Þá vill nefndin láta taka upp í fjárlögin fje til aðstoðar við mælingarnar úti um land,(K. E.: Það er nauðsynlegt), en stjórnin ætlaðist til að skrifstofan athugaði þetta. Það væri alls ekki óhugsandi að þessu yrði breytt t. d. svo, að allar stærri mælingar yrðu framkvæmdar hjer í Reykjavík; líka gæti það verið, að skrifstofan sendi mann kringum landið til mælinganna; mætti vel koma því fyrir t. d. eins og ferðum umsjónarmanns mælis og vogar. En ef það á að fullnægja þeim kröfum nefndarinnar, að mælingarfróðir menn, launaðir, sjeu í öllum kauptúnum landsins, þá hlyti að leiða af því mikinn kostnað, en yrði að litlu gagni, ef enginn sjerfróður maður væri til þess að leiðbeina þeim. Það er auðvitað mjög leitt að þurfa landssjóðs vegna að kosta sjerstaka mælingarskrifstofu, en ef farið yrði að tillögum nefndarinnar, þá yrði kostnaðurinn mjög lítið minni.

Þetta er aðalbreyting nefndarinnar og hún er, eins og jeg hefi sýnt, ófær.

Að því er snertir málleiðrjettingar nefndarinnar, þá tel jeg líklegt, að sumar þeirra sjeu til bóta; jeg hrósa mjer ekki af því, að jeg sje neinn sjerstakur íslenskumaður, en heyrt hefi jeg góðan íslenskumann í háttv. Nd. segja, að betra mál sje hjá stjórninni í 4. gr., þar sem hún segir „heyra undir“, heldur en, eins og nefndin vill hafa það, „liggja undir“. (K. Þ. Nei). Ja, þetta sagði ágætur íslenskumaður í hv. Nd. (Forseti: Það er góð íslenska). Úr því hæstv. forseti telur og svo, þá þykist jeg hafa fengið trausta og góða bakhjarla um þetta, og jeg býst við því að líkt sjeum fleiri málrjettingartill. nefndarinnar sem þessa.

Um íslenskuna á frv. skal jeg enn láta þess getið, að jeg fór skyndilega utan og hafði þá ekki tíma til að yfirfara hana, enda varð að semja athugasemdirnar við frumvarpið í Kaupmannahöfn.

Þá vil jeg benda á það, að ef aðalbrtt. nefndarinnar verður feld, þá hefir hún áhrif á ýmsar aðrar brtt. nefndarinnar, sem samþyktar yrðu, og yrði þá að leiðrjetta það til 3. umr.

Jeg vænti þess fastlega, að háttv deild sjái það, er hún athugar málið, að sjálfsagt er að fella aðalbrtt. nefndarinnar, þar sem sú till. miðar að því að sem seinast komist gott lag á þessi efni.