18.08.1919
Efri deild: 33. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1410 í B-deild Alþingistíðinda. (1211)

25. mál, lögreglusamþykktir fyrir kaupstaðina

Karl Einarsson:

Það er að eins örstutt athugasemd. Hæstv. fjármálaráðh. (S E.) sagði, að nefndin væri mótfallin því, að sjerstök skipamælingaskrifstofa væri stofnuð, en sagði svo á öðrum stað, að hún ætlaðist til, að sjerstakir skipamælingaembættismenn væru á öllum stöðum úti um landið. Þetta er ekki rjett. Nefndin ætlast að eins til, að fje verði veitt til að útvega lögreglustjórum nægilega aðstoð sjerfróðra manna við skipamælingar.

Hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) sagði, að nefndin hefði misskilið starf skrifstofunnar. Nefndin hefir ekki misskilið það. Þar er ekki um annað að ræða en venjuleg skrifstofustörf, en útreikninga og endurskoðun á hún enga að hafa á hendi.

Hitt er sjálfsagt, að sá, er endurskoðunina á að hafa á hendi, verði styrktur til að afla sjer sem mestrar þekkingar, og getur hann þá einnig kent þeim, er skipamælingar eiga að hafa á hendi í hverju skrásetningarumdæmi.

Jeg get t. d. bent á Þorkel Þorkelsson, forstjóra voga- og mælingaskrifstofunnar, sem einkarhæfan mann til slíkrar endurskoðunar. Hann hefir þegar um nokkurra ára skeið mælt upp skip við Eyjafjörð, og mun ekki hafa svo mikið að gera, að hann komist ekki yfir endurskoðun mælinga.

Jeg tel það ekki ofvaxið verk stjórnarráðinu að hafa á hendi skrásetning skipa jafnt eftirleiðis sem hingað til og það að athuga, hvort heimild sje til þess, að skipið sigli undir íslenskum fána. Fje því er samkvæmt frv. stjórnarinnar á að verja til skrifstofuhalds, finst mjer miklu betur varið til að útvega praktiska þekkingu við mælingarnar.