18.08.1919
Efri deild: 33. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1413 í B-deild Alþingistíðinda. (1213)

25. mál, lögreglusamþykktir fyrir kaupstaðina

Magnús Kristjánsson:

Jeg þarf ekki að fara langt út í málið sjálft. Tveir meðnefndarmenn mínir hafa gert það ítarlega. Mig furðar stórlega á því kappi sem hæstv. fjármálaráðh.(S. E.) hefir sýnt í þessu máli, (Fjármálaráðherra: Jeg fylgi því altaf með kappi, sem jeg álít rjett), og finst það næstum frekja. (Fjármálaráðherra: Mjer finst þetta vera frekja). Jeg hygg, að ef á að fá máli þessu framgengt með óþarfa málalengingum og orðagjálfri, þá verði það ekki auðsótt. (Fjármálaráðherra: Engar ógnanir. Forseti: Ekki samtali. Hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) var að bera upp á nefndina, að hún hefði misskilið frv. Þessari móðgun finst mjer að hann hefði getað slept, enda er hún mjög óviðeigandi. Ef misskilningur á sjer stað í þessu máli, þá er það hæstv. fjármálaráðh. (S. E.), sem misskilur. Því allir vita, að mikið af skipamælingarstarfinu verður að framkvæma annarsstaðar en í Reykjavík, og skrifstofustjóri og undirmenn hans mundu tæplega sendir út um land til að mæta skip, og að þurfa að senda skipin hingað til mælingar mundi oft koma sjer mjög illa. Auk þess er engin trygging fyrir því, að sá er yrði skipaður í starfann, sje honum vaxinn. (Fjármálaráðherra: Nýi ráðherrann skipar hann). Hvort nýr eða gamall ráðherra skipar hann, skiftir engu máli, ef óheppilega er til starfsins stofnað.

Jeg álít ekki heppilegt að ákveða með lögum, að skipaskrásetning skuli verða sjerstakur starfi. Til hins væri meiri ástæða, að sameina ýms skyld málefni undir eina skrifstofu, er stæði undir eftirliti stjórnarráðsins. Mætti þar til nefna löggilding mælis- og vogartækja, samábyrgðina, dispacheur-starfann, ef hann á að vera undir umsjón stjórnarinnar o. fl. (M. T.: Vörumerki. firmaskrár, einkaleyfi).

Hæstv. fjármálaráðh. (S. E ) hjelt því fram, að starf nefndarinnar væri frekar til hins verra en til bóta (Fjármálaráðherra: Um þetta atriði). Hann hefir þá vegna ákafans ekki tekið glögt fram, hvað hann meinti.

Hvað kostnaðinum viðvíkur, þá treysti jeg hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) að draga úr útgjöldunum, eins og hans er von og vísa, og segi jeg honum þetta ekki til lasts.

Mjer dettur nú í hug uppástunga til bráðabirgða, ef svo er, að stjórnarráðið með engu móti treystir sjer til að hafa skrásetningarstarfann á hendi. Væri ekki reynandi að fela hagstofunni hann? Henni er fullkomlega treystandi til að leysa hann vel af hendi. Skeð getur, að hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) álíti þetta ekki tiltækilegt, en mjer finst, að una mætti við það til bráðabirgða, þar til búið væri að sameina fleiri skylda starfa.

Hvað hinu viðvíkur, að ekkert lag muni verða á skrásetningunni, þar sem mælingarfróða menn vanti, er því til að svara, að mjer er kunnugt um, að í hverjum landsfjórðungi eru menn, sem vaxnir eru starfanum; en engin von til, að þeir vinni fyrir litla eða enga borgun.

Þar sem fundurinn er þegar orðinn langur, skal jeg ekki fjölyrða meira um málið, en vil að eins benda á, að starf þeirrar skrifstofu, er getur um í frv. stjórnarinnar, er ekki í öðru fólgið en að taka við skjölum, sem undirbúin hafa verið í hinum ýmsu skrásetningarumdæmum, og færa þau inn í aðalskrá. (Fjármálaráðh.: Stórkostlegur misskilningur) Misskilningurinn er hjá hæstv. fjármálaráðh. (S. E.), og vil jeg lýsa því yfir, að þar sem hann ber nefndinni misskilning á brýn, er það hjal á engum rökum bygt.